The Lone Ranger

The Lone Ranger er einhvers staðar föst á milli þess að vera metnaðarfullur sigurvegari og eitthvað það merkilegasta klúður sem undanfarið hefur verið tengt við Disney, Jerry Bruckheimer og Johnny Depp. Hún miðaði svo hátt og féll langt niður. Þeir sem vilja kalla þetta lestarslys geta kætt sig við tilhugsunina að það eru tvö atriði í boði sem sýna slíkt í bókstaflegri merkingu, og má alveg segja að séu skemmtileg en óneitanlega symbólísk.

Lýsingin sem mér dettur í hug á myndinni er nógu andskoti furðuleg; langur, barnalegur, grimmur, fullpakkaður vestri sem er nostalgíubundinn gagnvart titilhetjunni sinni og uppruna hennar en á sama tíma er eins og þessi mynd skammist sín alveg óskaplega mikið fyrir hana. Köllum þetta fullkomið dæmi um vel gerða stórmynd sem getur ekkert ákveðið sig um hvert hún vill fara, hvernig hún á að spilast út og leyfir sér alltof mikið án þess að gefa margt á móti.

Útlit og hráefni er allt í góðu lagi, áhugi fyrir kjötaðri frásögn er tvímælalaust til staðar en Gore Verbinski  (leikstjóri sem ég hef hingað til fílað bara helvíti vel) hefur sennilega verið mjög óákveðinn, kærulaus, fullmikið pressaður af framleiðendum sínum eða allt þrennt. Af bjöguðu heildarmyndinni að dæma er eins og leikstjórinn hafi verið endalaust í baráttu við sjálfan sig um hvort betra væri að gera „campy“ fjölskylduhasarmynd í Pirates-stíl eða segja alvarlega (og óeðlilega dökka) upphafssögu þar sem sveitti vestrafílingurinn á að njóta sín á sniglahraða.

Eftir stendur mynd sem er á köflum svo vandræðalega ómarkviss og skrípaleg fyrir fullorðna en alltof hæg, ruglingsleg og ljót fyrir yngri hópa, að því utanskyldu að flestum í heiminum er orðið drullusama um úrelta einfarann John Reid, töfrahestinn hans eða trausta indjánafélagann Tonto… sem í þessari mynd framkvæmir ótrúlegustu hluti með dauðan fugl á höfðinu.

Lone Ranger-fígúran byrjaði fyrst í útvarpi árið 1933 og færði sig svo yfir í sjónvarpið upp úr sjötta áratugnum áður en lengra hélt. Í dag þykir hún allt annað en töff, skiljanlega. Verbinski virðist vera greinilega sammála þessu en samt er nálgunin eins og við eigum að peppast upp með retró-andanum þegar einkennislag kúrekans (klassíski forleikur Rossinis að William Tell) hrekkur í gang. Þegar tónlistin heyrist myndin verður allt í einu ofsalega skemmtileg og eilítið bjánaleg í leiðinni, sem er akkúrat það sem Lone Ranger-mynd ætti helst að vera. Lokahasarinn nýtir sér gömlu stuðmúsíkina til fulls og eins og búist var við er leikstjórinn algjör snillingur í fjölverkum (segjum „multi-taskari“) þegar kemur að því að trekkja upp áhorfendur fyrir „klæmaxinn.“ Vandinn er bara sá að þótt lokaspretturinn sé ánægjulegur þá passar hann illa við afganginn á myndinni.

Ég er alltaf til í góðan, skríðandi vestra en öll þessi mynd hefði gagnast betur að sleppa þunga andrúmsloftinu, teygðu frásögninni og þessu Nolan-trendi þar sem blæðandi þörf er fyrir því að útskýra hvert og eitt praktíska smáatriði í ræmur til að viðhalda raunveruleikatengingu. Þarna er stærsta merkið um það að myndin skammast sín pínu fyrir upprunalegu ímynd kúrekans og finnst eins og hún þurfi að bæta alltof miklu við. Þurftum við í alvörunni á baksögunni hans Depps að halda? Eða vita hvernig gríman varð til og hvers vegna þörf er fyrir henni? Stundum finnst mér eins og myndir mættu alveg yppa oftar öxlum og segja einfaldlega: „af því bara, þegiðu!“ Þessi ræma er með alltof klofinn persónuleika til að hún sé skyldug til að halda fótunum á jörðinni. Yfirleitt þegar eitthvað gerist við hetjurnar breytast þær í algjörar teiknimyndafígúrur.

Tónninn er hæfilegur þegar myndin nær að ákveða sig tímabundið hvað hún er. Það eru mörg dúndurfín atriði á milli þessara tveggja stórra lestarsena sem standa mest upp úr. Armie Hammer og Depp eiga góðan og oftast fyndinn samleik. Þeir ná glæsilega saman burtséð frá því að báðir missa svolítið marks. Þegar upp er staðið tel ég trú að frekar hefði gengið upp að fá aðra leikara í þessi hlutverk, en þá stórefa ég að hún yrði gerð fyrir svona mikinn pening (og þessar 250+ milljónir sturtuðust hratt ofan í dolluna miðað við aðsóknartekjurnar).

Ef einhver segir að Hamarinn sé slakur í titilhlutverkinu, þá er það ekki vegna áhugaleysis. Hann er örlítið þurr og sjarmalaus (eins og öll bévítans myndin) en samt voða sprækur og skemmtilegur líka. Persóna hans kemur einnig prýðilega út. Einfarinn hans, eins og sá upprunalegi, trúir á réttlæti með einlægum hætti, sama hversu illa er farið með hann og lætur aldrei neitt buga sig – ekki einu sinni í návist morðingja bróður síns. Depp er ágætur og gætir sín á því að vera frekar trúðalega sérvitur heldur en móðgandi staðalímynd, en flestir sjá það hvort sem er að hann er bara að grípa sína vinsælu Jack Sparrow-takta. Þetta snýst allt um fyndnar línur, augnsvipi og furðulega hegðun, sem er í fína, en aldrei líður manni eins og Tonto sé alvöru indjánakarakter, heldur sér maður ekkert nema Depp að þykjast vera undarlegur indjáni.

lone2Myndin er eiginlega of flott og fullupptekin að öllu til að vera leiðinleg en það reynir svakalega á þolinmæðina hvað hún er fullmikið í því að flækja ósköp einfaldan söguþráð. Svo langar mig líka til að löðrunga þann aðila sem átti hugmyndina að gera myndina að langri sögustund með Tonto, 64 árum eftir helstu atburðina. Ég skil tilganginn með þessari römmun en hún skaðar meira en að betrumbæta. Það er nógu slæmt að pirrandi krakkaleikari þurfi endalaust að spyrja óþarfar spurningar til að brjóta upp senurnar en ofan á það er fókusinn á lykilsögunni í svolitlu fokki þegar þessi aðferð er notuð. Sem aukapersóna fær Tonto of mikla athygli (væntanlega af markaðstengdum ástæðum) en samt er hann ekki til staðar í fjölmörgum senum, þó svo að hann eigi að vera að segja frá þessu öllu.

Hausverkurinn sem þetta handrit skapar stundum er stærri heldur en peningaglampinn í augunum hjá Bruckheimer. Sniðugast hefði verið ef The Lone Ranger hefði mest einblínt á Hammer og Depp sem óvini með sameiginlega andstæðinga í stað þess að stappa sögunni með aulalega mörgum persónum sem sýna einhvern lit að utan en eru flestar óspennandi að innan. Ég næ því engan veginn hvernig William Fichtner nær að vera svona skrautlegur villimaður en samt svo auðgleymdur. Tom Wilkinson hefði allt eins getað sofið í gegnum sína rullu og hvorki Helena Bonham-CarterBarry Pepper bæta nokkru við efnið af viti, sér í lagi hún Carter, sem hefði átt að enda á klippigólfinu. Ruth Wilson gerði heldur ekkert fyrir mig sem ekkja bróður Reids, sem hann er sjálfur hrifinn af (öh…?). Báðir krakkaleikararnir í myndinni sýna sömuleiðis merki um mest allt sem ég þoli ekki við barnaleikara. James Badge Dale var þó nokkuð góður. Aldrei hefur hann verið meira áberandi en nú í sumar.

Margt er til að dást að við þessa mynd fyrir utan framleiðslugildið og sama hvað margir segja þá er þetta aðeins meira en bara útreiknuð söluvara hjá Disney og Bruckheimer. Ef svo væri, þá hefði þessi mynd aldrei þorað að fara í þrútna 150 mínútna lengd og hasarinn væri langt frá því að vera svona sparsamur. Það kemur öllu heldur á óvart hversu lítið er af hvellum og eltingarleikjum og stærstu senurnar eru á fyrsta hálftímanum og vissulega í lokin. Allt inn á milli fer í það að þjóna plottinu, sem vanalega er jákvætt, nema þegar plottið er óskýrt og leiðinlegt.

Disney jafnar sig allavega fljótt eftir þetta. Bruck á nægan pening, Depp lærir vonandi af þessu og Verbinski þarf að minnka við sig næst, alveg helling. Sá eini sem ég í alvörunni vorkenni er viðkunnanlegi Hamarinn. Hann vissi bara ekki betur.

fimm

Besta senan:
Allt með þemalaginu.

PS. John Reid/Lone Ranger á að vera forfaðir Britt Reid/Green Hornet. Engin tenging er á milli bíómyndanna, fyrir utan Tom Wilkinson. Það er annaðhvort tilviljun eða persónulegt „thing“ hjá honum.

Sammála/ósammála?