The Heat

Ég hef núna kynnst því með vondu afli að hressleikinn í Söndru Bullock og Melissu McCarthy getur verið mjög svo óþolandi ef handritið er ekki nógu gott (lítum á alvarlegustu brotin: All About Steve og Identity Thief). En síðan fá þær alveg að skína með réttu pappírana á milli handa og leikstjóra sem kann að hemla þær aðeins niður. Þarna fellur The Heat einhvers staðar á milli, þótt hún hallist meira nær því jákvæða.

Myndin snýst öll um að fronta þessar tvær fjördömur saman og skiptir þar af leiðandi litlu sem engu máli hver söguþráðurinn er eða í rauninni hver nokkur annar er. Án þeirra væri engin bíómynd enda áhorfendur ekki komnir til að sjá klisjukennda löggugamanmynd (sem sjálf þykist gera grín að formúlunni sem hún fylgir óvenjusterkt), heldur andstæður í formi þessara kvenna sem hatast fyrst áður en kemur síðar í ljós að þær gætu átt meira sameiginlegt en þær halda í byrjun. Við stjórnvölinn situr Paul Feig, þekktastur fyrir að hafa leikstýrt Bridesmaids sem mestmegnis græddi á fyndnu handriti, skemmtilegum leikurum en dróst aðeins niður vegna lengdar og teygðra spunasena. Sama saga hér nema handritið er dæmigerðara, plottið ómerkilegra og biðin eftir sprenghlægilegum atriðum er miklu lengri.

Það hefði alls ekki þurft að laga mikið til að gera þetta að fjandi góðri kvöldskemmtun en jafnvel í styttri útgáfu eru ekki nógu margir ásar uppi í erminni til að gera glápið eins eftirminnilegt og (svo ég skjóti út í bláinn) Bridesmaids eða jafnvel 21 Jump Street. Ef ég reyni að gleyma því í smástund að söguþráðurinn gegnir einungis þeim tilgangi að bjóða upp á kómískar aðstæður sem eiga að öskra „æ-hvað-stelpurnar-eru-fyndnar-saman“ þá er myndin of flöt til að viðhalda tveggja klukkustunda lengd og hún er í alls engum flýti!

Bullock og McCarthy eru óborganlegar út og inn en glíma við svipaðar aðstæður og dýnamík aftur og aftur. Prófílarnir eru einhliða og oftast eru þær báðar auðútreiknanlegar. Þau skipti sem þær eru það ekki er þegar myndin hittir í mark, eins og í meinfyndinni senu á veitingastað. Að minnsta kosti er ég feginn að myndin fær að vera eins gróf og hún vill vera, án þess að breytast nokkurn tímann í pjúra smekkleysu.

Nóg er af aukaleikurum í boði en fáir standa upp úr því Feig er ekkert að nýta mannskapinn fyrir aðalleikkonunum, sem er soddan sóun. Væri myndin auðvitað hálftíma styttri hefðu þær e.t.v rúllað þessu upp, hver veit? Myndin fiktar aðeins með formúlurnar en alls ekki nóg. Hún hélt mér reglulega brosandi þangað til lopinn teygðist og var svo gott sem slitinn, en þá kom yfirleitt eitthvað úr óvæntri átt til að toga mig aftur inn. Það er eins og myndin væri að reyna að testa þolinmæði mína bara til að sýna mér að hún væri alls ekki alltaf eins bensínlaus og ég hélt. Orkan er að vísu alveg týnd og skriðþungi er sama og enginn. Ég virði það að mikill tími fer í það að byggja upp óhjákvæmilega vinasamband stelpnanna, sem er eitt af sterkustu punktum myndarinnar, en betur hefði mátt fara að.

Sem einföld afþreying gerir The Heat kannski aðeins of mikið úr litlu, en hún gerir engu að síður það sem hún á að gera og kemur manni í betra skap eftirá. Svona þokkaleg vídeómynd handa vinum og (kemur á óvart!) vinkonum sem hægt er að líta á með öðru auganu á meðan eitthvað skemmtilegra er á seiði. Það eru þó engar reglur fyrir þá/þær sem elska Bullock og McCarthy í öllu gríni sem þær hafa látið sjá sig í. Handa þeim er þetta örugglega bíókonfekt ársins, en fyrir mitt leyti er ég pínu sáttur með að tilheyra ekki þeim hópi.

fin

PS. Leitt er að þessi mynd skuli óbeint nappa titlinum af einni bestu glæpamynd allra tíma. Sé fyrir mér nett hitaðar samræður í kringum þetta í framtíðinni.

Heh, „hitaðar.“

Besta senan:
Djö… var búinn að kjafta frá.

Sammála/ósammála?