Pacific Rim

Þeir sem eru ekki nördar af einhverri sort og ekki með neina þörf á því að draga aðeins út innri dótaglaða krakkann í sér hafa nákvæmlega ekkert með Pacific Rim að gera. Það er annað mál hvort umræddir nördar sjá þetta sem ágæta popp-og-kók afþreyingu eða eina trylltustu nördaepík síðustu ára. Einhvern veginn kom það mér ekki á óvart að ég myndi hallast meira í jákvæðari áttina, þó myndin sé verulega gölluð – eins og nánast allar myndir af þessari gerð. En þegar maður horfir á mynd líðandi eins og ungum krakka á ný er manni auðveldlega sama um svoleiðis, því á slíkum aldri kann maður varla neitt gott að meta – nema hávær og brjáluð VÓ-móment í rosalegum skömmtum. Segjum bara að Pacific hafi „rimmað“ mig.

Mig langar svakalega mikið í fleiri stórmyndir eins og þessa, sem byggð er algjörlega á sinni eigin hugmynd (sumsé ekki endurgerð, endurræsing, framhald, bóka- eða myndasöguaðlögun og sem betur fer ekki byggt á sjónvarpsþætti). Mér er svona nokk sama um hversu ófrumleg hugmyndin er í grunninn því nýtingin er svo sterk, mikilfengleg, svöl og að megnu til útpæld. Atvinnunördinn Guillermo Del Toro hefur líka alltaf verið maður sem hugsar heima sína vel út, þó svo að hann hafi ávallt verið gallaður sögumaður (þetta á samt eiginlega bara við um amerísku myndirnar hans) og fyrir utan nokkra óheillandi leikara er helsti vandinn við myndina hversu fyrirsjáanleg hún verður oft. Þar að auki stelur hún mörgu frá Roland Emmerich myndum, en Del Toro trompar þjóðverjann eiginlega í Emmerich-leikanum sínum.

Eins gott er að væntingar séu á réttri stillingu þegar horft er á fokdýra afþreyingarmynd sem byggist í kringum „vélmenni“ á stærð við háhýsi að buffa „geimveruskrímsli,“ sem eru enn stærri! Bónusinn liggur samt í sál myndarinnar og tilliti til mannlega þáttarins. Þetta er nákvæmlega það sem aðskilur Pacific Rim mest frá t.d. Transformers (þó ég vilji alls ekki traðka á heilalausa skemmtanagildi þeirra). Michael Bay hefur nefnilega ekkert hjarta. Bara glansandi gervihjarta… með auglýsingarlógói á því (sem springur!). Del Toro stendur sig einnig vel í því að freta því framan í andlitið á Emmerich að bandaríkin þurfi ekki að vera aðalfókusinn í stórum heimsendahasar.

Maður þekkir einnig strax þá góðu og vondu í sundur (punktaðu þetta niður, Bay). Það sést langoftast hvað er í gangi og miðað við stáltraustu heildarmeðmælin á myndinni segir það sig í rauninni sjálft hvað brellurnar eru sjúkar, sömuleiðis öll hönnun. Nýtingin á sterkum, poppandi litum í áferðinni stendur einnig upp úr. Del Toro hefur alltaf verið með fyrirmyndarauga fyrir stíl og andrúmslofti, eins og víða er vitað.

Ég man heldur ekki hvenær ég heyrði seinast svona geggjaða, rokkandi tónlist í mynd af þessari stærð, og stefin í flottustu atriðunum vekja upp dúndra hálft fjörið í gang. Músíkin gengur örlítið of langt í litlum rólegum senum en aldrei yfir mörkin. Dramað í Pacific er almennt ekkert fullkomið og leikararnir ná ekki alltaf að sannfæra. Sumir eru pínu ryðgaðir, aðrir í fullum gír og Idris Elba alveg jafnsvalur og hann á að vera. Án hans myndi lokaeinkunnin hrapa léttilega um heilt stig, og ekki einu sinni anime-nördinn í mér gæti togað hana aftur upp. Góðvinur leikstjórans fær að vísu bestu innkomuna, á eftir aðalgæjanum: Gipsy Danger. Allir sem hafa séð myndina vita hver hann er.

Áhugi fyrir persónusköpun skín í gegn en flestir karakterar eru einfaldar teiknimyndafígúrur. Eflaust væri þetta samt miklu verra vandamál ef leikstjórinnværi í fyrsta lagi ekki að búa til risastóra „teiknimynd,“ og í öðru lagi ef hann myndi ekki sjá svona vel til þess að gefa persónum sínum svona mikinn lit, ekki síður (og e.t.v. sérstaklega) þessum sem spila aukahlutverk (er það bara ég eða er Charlie Day að leika J.J. Abrams?). Enginn er óþolandi, bara missterkir, en flestallir eftirminnilegir. Það skiptir öllu máli að áhorfandanum sé ekki of sama um allt fólkið sem tekur þátt í stóru atriðunum sem hann kom til að sjá, og Del Toro kasta reglulega gleðisprengjum í samnörda sína. Hann gerir samt þau „mistök“ að toppa sig fullsnemma. Hasarinn byrjar með mergjuðum látum í fyrsta kaflanum (sem er eins og heill 20 mínútna kynningarþáttur áður en titillinn birtist). Tilfinningalega séð tengist besta atriðið minningu í fyrri hlutanum, og hvað þursaslagsmálin varða verður það aldrei öflugra en í öllum Hong Kong-kaflanum. Klíptu mig hvað hann var töff!

Eins og ég segi, frumleiki er ekki mikill og ekki er siðlaust að brjóta formúluna upp í einhverja blöndu af Independence Day, Transformers, N.G. Evangelion (*knús*), Robot Jox og m.a.s. Top Gun, en Del Toro-kryddið þekur samt yfir þetta allt, sem er ekki bara gott, heldur nauðsynlegt. Á blaði er margt heimskulegt í Pacific Rim en sem einfalt, vitgrannt flugeldabíó – og títanísk skrímslamynd ekkert síður – er þetta meira eða minna allt sem hægt er að biðja um. Leikstjóranum er of annt um myndina sína til að þetta verði að einhverju sem maður þarf að afsaka sig fyrir að fíla, eins og flestar Hasbro-myndirnar. Vinsamlegast skal upplifa þessa á stórum skjá með græjurnar svo hátt stilltar að amma þín myndi hypja sig strax frá. Del Toro vill að þú nördist með sér, í sinni best heppnuðu Hollywood-mynd til þessa. Vertu annaðhvort memm eða vertu of fullorðinn…

atta

Besta senan:
Skrollaðu upp…

Sammála/ósammála?