Monsters University

Það er ekki skrítið að ákveðið var að gera forsögu að Monsters, Inc. í stað framhaldsmyndar. Fyrri myndin batt ekki bara sæta slaufu á þróun helstu persóna, heldur allan skrímslaheiminn í sinni dýrð. Var nokkuð hægt að bæta einhverju við?

Prequel-nálgunin er e.t.v. öruggari leið til að draga fram haug af tilvísunum í fyrri myndina, móta beinar tengingar við hana og spila þ.a.l. aðeins með nostalgíu þeirra sem voru á barnsaldri þegar hin kom út. Margir í kringum háskólaaldurinn eiga að geta myndað krúttleg tengsl við Monsters University, þótt myndin sé hvergi eins hjartnæm og hin eða brakandi af sambærilegum ferskleika. En hún kemur manni klárlega í betra skap, og örugglega öllum nema sorgarsekkum sem þola ekki lífið. Umræddi skrímslaheimurinn er líka stækkaður helling og þess vegna smella tvennurnar enn betur saman.

Monsters, Inc. er ekki alveg á meðal dýrmætustu perla Pixar en hún engu að síður skemmtir mér og bræðir mig jafnmikið í dag og hún gerði fyrir 12 árum síðan. Með meiri hugmyndavinnu, minna af klisjum, fleiri sprenghlægilegum atriðum og meiri sjarma hefði University getað jafnað eða skákað henni en miðað við skrímslateiknimynd sem gengur út á hræðslubrögð er skondið hvernig hún þorir ekki að taka neina áhættu. Pixar er sjaldan upp á sitt besta þegar gamlir söguþræðir eru endurunnir og settir í litríka og óaðfinnanlega skapaða teiknimyndaheima. Að þessu sinni er margt fengið „lánað“ úr Revenge of the Nerds en tvistar og nýjungar eru í það minnsta nógu margar til að gera þetta ekki álíka latt og þegar fyrri Cars-myndin stal miklu úreltara plotti.

Myndin faðmar algjörlega á móti en verður aldrei eins gefandi eða elskuleg og t.d. Toy Story 3 (sem var næstum því fullkomin), ekki endilega vegna þess að hún er ekki að reyna heldur vantar bara upp á hlýjuna og formúlubyggingin gerir forsögu sem er þegar fyrirsjáanleg enn fyrirsjáanlegri. Í lokakaflanum hleypur sagan samt í áhugaverða átt og hugsar aðeins út fyrir kassann (eða dyrnar), sem hún hefði alveg mátt gera oftar. Myndin er samt of kætandi, hress og saklaus til að gallarnir geri mann að algjörum fýlupúka. Mér leiddist heldur ekkert að sjá félagana Mike og Sulley aftur, né heyra í snillingunum sem raddsetja þá – á ensku, fyrir mitt leyti, þ.e. Krystallinn og Góðmennið. Það var líka alveg kominn tími á það að leyfa Sulley að vera skíthællinn í smátíma.

Grafíkin og teikningin í Monsters University er svo flott að maður pælir í rauninni aldrei í henni. Einu sinni reyndi maður alltaf að grúska eftir smáatriðum til að dást að nýjustu tækninni (loðfeldurinn var t.a.m. MIKIL bylting árið 2001) en nú er fátt orðið sjálfsagðara en að útlitið sé svona til fyrirmyndar, ekki síður í Pixar-mynd. Ofan á það er nóg um orku og nýju persónurnar eru allar eins ólíkar og þær eru margar. Þær reyndar skilja annaðhvort ekkert eftir sig eða eru algjört æði (hvílík snilld þessi móðir!), þó allar nógu litríkar til þess að fylla upp í þessar 90 mínútur nokkuð vel.

Engan veginn er verið að spara æpandi tengingarnar við forverann. Mætti jafnvel segja að hún reyni fullmikið að púsla þessari tvennu saman, eins og með því að leyfa meira en 90% af gömlum persónum sýna andlit sín aftur. Hörðustu aðdáendur fá eðlilega meira út úr forsögunni í kjölfarið heldur en þeir yngstu, þó börnum finnist yfirleitt gaman að sjá kunnugleg andlit aftur. Annars gegnir University sínum tilgangi sem ærslafull og fjörug afþreying sem eldri áhorfendur ættu að kunna að meta og krakkarnir öskra úr gleði yfir. Kvikmyndasnobb sem bíða eftir að bestu dagar Pixar komi aftur eru væntanlega aðeins kröfuharðari, enda má lesa það strax að þessi tiltekna mynd er nær því að vera „sell out“ heldur en nokkurn tímann önnur rósin í hnappagatið hjá einu traustasta teiknimyndastúdíói síðustu tveggja áratuga.

Það er alltaf ástæða til þess að heilsa upp á gamla félaga og kynnast þeim betur. Sjálfur hefði ég viljað meistaranema en myndin útskrifast með býsna fínum meðmælum þrátt fyrir sína mínusa.

thessi
Besta senan:
Hræðslubrögð í mannaheiminum.

Sammála/ósammála?