R.I.P.D.

Ég hef oft séð góðar myndir verða til úr „slæmum“ hugmyndum. Þess vegna trúi ég eiginlega ekki á vondar hugmyndir, bara klúðurslegar framkvæmdir. Ég útiloka ekki að Rest in Peace Department hefði getað orðið að dúndurfínu poppkornsbíói, kannski frábærri snakk-skemmtun í besta falli, svo framarlega sem helsta fólkið fyrir framan og aftan tökuvélarnar hefði sýnt þessu einhvern eðlilegan áhuga. Grunnurinn er fínn, en eina alvöru metnaðinn fann ég í viljanum til að kópera eldri formúlur. Týpískt.

Það getur varla verið mannsbarn í veröldinni sem sér ekki beint í gegnum það hvað M.I.B. (2 & 3) eftirherman er sterk, fyrir utan yfirnáttúrulega kryddið og heilt aukaplott sem dreymir um að vera í líkingu við Ghost. Maður sér rétt svo peninginn sem hefur farið í hana, ástæðurnar á bakvið gerð hennar en skemmtanagildið fýkur út um gluggann þegar vinnubrögð eru svona rútínubundin. Tónninn er of skrípalegur og bjánalegur, efnið alltof lint og reynt er með þrjósku að pakka þessari klisju niður í 90 mínútna lengd, eins og það markmið hafi skipt meira máli heldur en nokkuð annað. Þess vegna er myndin fyrst og fremst of stutt miðað við stærð en á sama tíma langdregin því hún er sama og tóm að innan.

Þau fáeinu skipti þar sem ágætir brandarar laumast í gegn þá er það fyrir mér algjör heppni að leikstjórinn hafi haldið þeim í lokaklippunni. Húmorinn í myndinni er eins lúðalegur og barnalegur og flestar tæknibrellurnar. Keyrslan er reyndar hröð (vissulega á kostnað þess að skera alla persónusköpun niður í ber bein) og hasarinn er myndaður með svo teiknimyndalegri súmm-maníu að ljósablikkið og ærslagangurinn drap mig ekki úr leiðindum, sem er líklega það jákvæðasta sem ég hef að segja. En fyrir þennan pening og með leikaranna sem eiga að bera hana ætti að vera miklu meira til að grípa utan um.

Ég er ekki viss hvort bragðleysið í þessari brellubombu sé mestmegnis heimskum framleiðendum að kenna eða leikstjóra með athyglina annars staðar, en R.I.P.D. valhoppar í gegnum skelþunnan söguþráð, passar að nóg sé að gerast en steingleymist svo eftirá án nokkurra ummerkja. Fyrir utan það að vera sóun á góðum 130 milljónum þá er þessi mynd einfaldlega bara 10-15 árum of sein. Lengi hef ég annars sett spurningarmerki við þennan leikstjóra, Robert Schwentke, þar sem hann er sjaldan sá aðili sem betrumbætir myndirnar sínar með eigin töktum (sú „besta“ frá honum er eflaust Red, en þar sáu leikararnir um mest allt fjörið). Hann er eins ómerkilegur og þeir gerast.

Ryan Reynolds er merkilega óheppinn gaur þegar kemur að bíómyndum sem byggðar eru á myndasögum, eins og hann er nú sjálfur mikið myndasögunörd. Það er ekki slæmt að hann sýnir sína venjulegu hlið (þó löngu sé kominn tími á nýja) en á þessu stigi er skylda fyrir hann að gera hærri kröfur til handrita. Það þýðir heldur ekki bara að klessa honum upp við Jeff Bridges og ætlast til að þeir brilleri saman sem óttalega dæmigert tvíeyki. Það er nógu þreytandi hvað Rooster Cogburn-dúddinn hans er óþægilega muldrandi (sem versnar eflaust ef ekki er horft á myndina með texta) en samspilið á milli mannanna er gjörsamlega flatt. Maður getur alveg gleymt því að halda með þeim, eða upp á þá.

Aukaleikarar halda að þeir séu að græja prikfígúrum sínum einhvern persónuleika en bjarga litlu yfir heildina. Ég er sérstaklega óánægður með Kevin Bacon, sem hefði alveg mátt taka „vonda Beikonið“ sitt og leika sér aðeins með það, líkt og hann gerði t.d. í X: First Class síðast. Frekar lítur hann bara út eins og hann sé ekki alveg að nenna þessu og er ekkert minna leiðinlegur heldur en akfeitu, tölvugerðu djöflaillmennin.

Endirinn sendir þau skilaboð að framleiðendum dauðlangi í framhald, en til að gera þeim ekki til geðs vona ég að sem fæstir eyði peningum í myndina. Í mínum huga merkir R.I.P.D. skammstöfunin „Rosalega Illa Pródúserað Drasl.“ Alltof mikið er á seiði í þessu drasli til að þetta geti ekki gengið upp sem guilty pleasure-ræma að mati allra sem setja allar væntingar á gólfið og búa sig undir þreytta, ofnotaða brandara… en helst bara ef þeir eru 10 ára.

thrir

Besta senan:
Ryan sogast upp til himna, hittir síðan Mary-Louise Parker. Nokkuð gott.

Sammála/ósammála?