Despicable Me 2

Það sem grípur mig svolítið við þessar Despicable Me-myndir er hvernig þær eru ekkert að þykjast vera miklu meira en þær eru, t.d. með því að reyna að vera of fullorðinslegar, án þess að missa marks hjá þeim sem eru komnir yfir „aldur.“ Einhvern veginn tekst rétt að blanda saman smábarnahúmor og hasar við anda sem setur sér engin kynslóðatakmörk. Það er eitthvað af hnyttni fyrir þá eldri en báðar myndirnar leyfa sér að ganga eins langt með litríkan ærslagang svo það sé alltaf eitthvað á seiði. Ekta „flöff“ afþreying, af góðri sort.

Augljóslega er lítið gagn fyrir Despicable Me 2 hjá þeim sem voru ekkert hrifnir af þeirri fyrstu. Persónulega var ég reyndar ekkert svo heitur fyrir henni heldur, en allt sem mér fannst æðislegt við hana snýr aftur í betri skömmtum, með söguþræði sem er reyndar örþunnur og hálftýndur en helst betur saman. Það er í rauninni einn aðalsöguþráður og tvö lítil aukaplott sem gera ekki mikið en þó hefði verið fúlt að sleppa þeim. Myndin mætti vera hugmyndaríkari og eðlilega fer þetta allt gegnum ýmsar rútínur, en meðhöndlunin finnst mér sterkari en í nr. 1. Allir sem elskuðu hana geta varla verið annað en glaðir með þessa.

Það var eitthvað við formúluna á þeirri fyrstu sem greip ekki alveg áhuga minn eða væntumþykju. Hönnunin, litirnir og teikningin var samt svo dásamlega ýkt og lifandi og persónurnar leyndu meira á sér en ég bjóst við löngu eftir að ég sá hana, eins og ég hafi óvart bondað við þessar fígúrur án þess að vera meðvitaður um það. Þó maður væri blindur og sofandi hefði samt verið auðvelt að reikna út örkina hjá hárlausa ofurþorparanum Gru, en að þessu sinni er töluvert meira til að spila með heldur en bara spurningin „hvenær breytist hann úr vonda gæjanum í þann góða?“

Nr. 2 er ekki beint mynd til að koma manni á óvart í stórum bylgjum en persónurnar eru á skemmtilegri stað (Gru er t.a.m. núna ofurpabbi (með brotna sjálfsmynd?) sem reynir að stússast í sultugerð, njósnaaðgerðum og kann greinilega ekkert á hitt kynið) og tekst henni að kreista út meiri flippuðum sjarma vegna þess að þetta eru allt gamlir kunningjar nú þegar.

Nýju persónurnar eru líka fljótar að sýna fram á að þær eiga fullan rétt á því að vera þarna. Í betri/ensku raddsetningunni er enginn sem ekki passar, þó ég er sjálfsögðu forvitinn að vita hvernig Al Pacino hefði tekið sig út áður en Benjamin Bratt tók við af honum. Benni er drullufínn samt og ef ég vissi ekki annað þá hefði ég haldið að hann hafi fenginn í þetta hlutverk frá upphafi. Engu að síður er aðalillmennið í framhaldinu örlítið betra en í fyrri myndinni, fyrir utan það að mér fannst hann vera eitthvað svo vannýttur í seinni helmingnum. Baksaga hins mergjaða „El Macho“ er einhver besti hápunktur myndarinnar en eftirá stendur fígúran ekki alveg undir sínu fjallmikla orðspori.

Svo þarf að ræða þessa yndislegu gulu minion-a, sem ég hef ákveðið að kalla „bananastrumpa“ (orðið „skósveinar“ finnst mér ekki alveg passa). Öll merki segja mér að þeir eigi að þreytast, en hingað til hefur mér ekki tekist að fá leið á þeim. Lykillinn sem lætur þá virka, fyrir utan smitandi hláturinn, er líklega þessi grillaði ófyrirsjáanleiki þeirra. Það munar einnig miklu að gefa þeim loksins meiri tilgang í plottinu, og mér sýnist að handritshöfundarnir hafi fundið skothelda afsökun til þess að gefa þeim gulu eitthvað að gera. Áður voru þeir bara uppfylling. Þessir fjólubláu eru ekki alveg eins elskulegir þó, en nauðsynlegir.

Þessi mynd er algjör teiknimyndastemmari, í orðsins fyllstu merkingu. Hún sér enga þörf fyrir veruleikatengingu (sem mér finnst vera alltof sjaldgæf regla nú til dags…). Ef einhver er sprengdur í tætlur þá stendur hann bara upp og dustar af sér rykið – óldskúl. Leikstjórarnir eru annars þeir sömu og áður, sem tryggir það að tónninn er óbreyttur og í þessu tilfelli er ekkert að því að fá meira af því sama ef meira er lagt í efnið en bara peningametnaður. Mér sýnist aðstandendur í alvörunni hafa áhuga á því að viðhalda sálinni. Greinilega hefur líka meiri aur farið í tölvuvinnuna.

Despicable Me 2 tvöfaldar ekki stærð forvera síns að óþörfu, eins og fylgir föstum framhaldsreglum, og verður alls ekkert verri fyrir vikið, flottari ef eitthvað. Hún flæðir betur, einbeitir sér að sinni orku og veit alveg hvað hún er að gera. Ef ég eignast einhvern tímann hrúgu af börnum þá er þetta akkúrat svona létt laugardagsskemmtun til að vaða í þegar maður er ekki alveg í stuðinu fyrir eitthvað dýpra eða tilfinningaríkara. Maður þarf ekki alltaf á einhverju frábæru að halda og getur verið bara mjög fínt að sætta sig við nokkuð gott í staðinn.

thessi

PS. Fjölskyldumyndir í hæper-dúr koma oftast best út í 3D, og hér rokkar hún. Kreditlista-bónusinn er samt sem áður voða latur miðað við seinast.

Besta senan:
Minion dagdraumurinn. Og staffadjammið þeirra.

Sammála/ósammála?