Grown Ups 2

Staðreyndir ljúga ekki. Grown Ups 2 er mynd um fávita, sem er gerð af fávitum, handa fávitum ásamt smákrökkum sem því miður vita bara ekkert betur (en það mun gerast. Einn daginn. Vonandi…).

Með öllu sínu fylgdarliði lætur Adam Sandler, ár eftir ár, sífellt meira eins og þreyttur krakki í fertugum (bráðum fimmtugum!) líkama, á meðan ætlunarverkið er að reyna að vera þroskaður og sýna að það sé ekkert að því að vera ungur og fíflalegur í sér. Eftir síðustu fjórar myndir er ég hissa að Sandler hafi ekki lagst í dvala í stórhýsi sínu, kastað af sér þvagi í krukkur og tekið loksins mark á internetinu. Mögulega er hér um að ræða einn djarfasta gamanleikara á lífi, því í staðinn kemur þessi þörf til að sanna alltaf fyrir heiminum að einhvers staðar þarna úti séu enn til aðdáendur.

Leiðinlegasti faktorinn er að Sandler hefur rétt fyrir sér. Það skapast alltaf nýir aðdáendur vegna þess að alltaf myndast nýjar kynslóðir af krakkalingum sem éta upp þennan barnahúmor. Gömlu aðdáendurnir ættu að vera löngu vaxnir upp úr honum en samt sé ég ekki betur en að Grown Ups 2 sé líka að reyna að ná til fertugra, perralegra karlmanna í aldursafneitun með fortíðarþrá. Ég hreinlega skil ekki hvaða tungu þessi mynd er að tala, örugglega vegna þess að ég var of upptekinn að kafna á minni eigin tungu við það að velta fyrir mér af hverju ég yfirgaf ekki bara helvítis bíósalinn.

Ég reyndi að sannfæra sjálfan mig um að öll þessi mynd, Sandler, allir hans vinir, Dennis Dugan sérstaklega (hef ekki orkuna í að ræða hann núna…) og Happy Madison-merkið ætti eftir að sigra mig ef ég hefði ekki klárað alla myndina. Ég sat og stóðst alla þessa húmorslausu gelgjulöðrunga sem kastaðir voru að mér, þessa sem margir aðrir í salnum hlógu af (meðalaldur: cirka 13-14 ára). Augljóslega ekki auðvelt verk, fyrir utan það að Grown Ups 2 versnar bara og versnar með hverri senu. Ef vondu brandararnir væru í alvörunni kjaftshögg þá liti ég út eins og Fílamaðurinn eftir myndina, sem er extra vondur díll þegar ekki einu einasta atriði tókst að fá mig til að skella upp úr. Eitt eða tvö bros teljast ekki með, því það voru ábyggilega bara taugakippir, eða passíf vorkunn fyrir komandi kynslóðum sem líta á þetta sem eðalafþreyingu.

Fyrirfram hefði ég átt að treysta á þetta teymi til að valda mér ekki vonbrigðum, því ef einhverjir svokallaðir fagmenn ættu séns í það að trompa and-kómíska gubbið sem hét Movie 43 þá vissi ég að Sandler/Dugan-dúóið ætti séns í áskorunina. Mér þætti alveg vænt um það að sjá ekki lélegri mynd það sem eftir er af árinu. Ég kannski hefði átt að vita betur. Rosalegt hvernig bíófíkn getur skapað ómeðvitaða sjálfseyðingarhvöt.

Í fyrri Grown Ups-myndinni nýtti Sandler sér afsökunina að hanga upp í sumarbústað, skella sér í vatnsskemmtigarð og gera heila bíómynd með vinum sínum og fleirum, án þess að leggja nokkurn svita í hvorki húmor né innihald. Þannig leit ég a.m.k. á hana. Hún er alls ekki það versta sem drengirnir hafa komið að en slök tilraun samt sem áður. Fyrirsjáanlega var þetta barnaleg og löt vara, með ranghugmyndir um þroskaðan boðskap. Í Grown Ups 2 er búið að núllstilla þennan „þroska,“ og ef það er eitthvað meira óþolandi en léleg grínmynd sem nennir engu, þá er það miklu verri grínmynd sem þykist geta eitthvað, veit síðan aldrei hvar og hvenær á að hætta, hvert skal fara og reynir svo mikið á sig í misheppnaða gríninu að klofið verkjar.

Hún er einn stór ofnbakaður rass, þessi mynd, og í henni er öllu tjaldað til. Það er m.a. ælt, pissað í munn, prumpað, ropað (stundum prumpað og ropað á sama tíma), kúkað, næstum-því kúkað, ælt aftur, pissað svo meira, farið í sleik við hund og til að kóróna allt sést Salma Hayek éta pappír af engri ástæðu. Við erum að ræða um mynd sem er greinilega svo niðurlægjandi og móðgandi að Rob Schneider neitaði að taka þátt í henni þegar honum var boðið að snúa aftur (þó ég hafi eitthvað lesið um það að hann hafi eignast dóttur í kringum tökutíma myndarinnar – en það sýnir bara að Almættið hafi verið með hans megin).

Það er of seint að bjarga Egghausnum Sandler, krúttbangsanum honum Kevin James og vissulega David Spade, sem ég hefði miklu frekar verið til í að sjá fara heldur en Schneider. Chris Rock er sá sem á skástu línurnar en hann nennir ekkert – frekar en hinir – að komast í of mikið stuð. Kannski er það bara til hins betra, því aðilinn sem mest telur sig vera í essinu sínu er hinn þúsundfalt þreytandi Nick Swardson. En skítt með það, eiginlega allir eru hræðilegir í þessari mynd.

Sorglegust eru samt ekki atriðin sem vilja vera fyndin, heldur þessi sem reyna að vera ljúf. Þaðan kemur mesti lúðahrollurinn. Áður var ég samt nógu svekktur út í dömurnar Sölmu Hayek, Mayu Rudolph og Mariu Bello fyrir að leyfa sér þessa vinnu, en hryllilegi afraksturinn hér er næg refsing fyrir hverja og eina. Augljóslega fara þær aldrei inn á internetið eða hlusta á hinn manneskjulega heim. Taylor Lautner má síðan alveg leggja árar sínar í bát. Hann er búinn að skítfeila sem hasarstjarna, skítfeila sem sjarmör og nú virðist húmorinn hans ekki eiga mikla framtíð. Þar að auki er hálsinn á honum alltof langur fyrir eðlilega stærð á kvikmyndatjaldi.

Kannski er ég sá eini en Grown Ups 2 gerði mig alveg jafnreiðan og ónefnda transamyndin sem Sandler gerði (nei, ekki Hotel Transylvania – hún var alltílæ). Pirringurinn er ekki ennþá farinn. Best skal ég þá prófa að taka mark á einu sannleiksorðum myndarinnar þegar hún segir að besta lækningin við reiði sé aðeins eitt:
Jack Daniels!

Skál fyrir því?

Henry-Zeigland-bullet-670x300

Ein byssukúla í einkunn (1/10). Sjáum svo hvernig hún og herra Daniels fara saman.

Sammála/ósammála?