Only God Forgives

Only God Forgives er án efa ein best kvikmyndaða störukeppni sem ég hef á ævi minni séð; hæg, viðburðarlítil, ljót, dáleiðandi og erfið mynd sem tekur hugtakið afþreying og heggur það í sundur, að sjálfsögðu með taílensku sverði. Ég myndi hafa x mikla þolinmæði fyrir endalausum skotum af fólki labbandi, sitjandi, standandi og starandi á alla hluti, út í allar áttir, ef öll myndin væri ekki svona gullfallega kvikmynduð, skemmtilega spes og með hann blýstífann fyrir myndlíkingum og pælingum. Að segja að hér sé meira fókusað á stíl frekar en innihald er viðeigandi en væg lýsing. Stíllinn ER innihaldið.

Þetta er minna saga um persónur og meira metafóra sem langar til að vera eitthvað Lynch-legt listaverk sem unnið er úr Kubrick-gubbi. Nicolas Winding Refn, danska art-fríkið sem hann er, er í sínum Refn-asta gír, sem eru augljóslega ekki góðar fréttir fyrir hvern sem er. Meira að segja flestir sem dýrkuðu Drive skjótast beint í sitthvoru áttina með Only God Forgives. Í samanburði er Drive eins og Fast & Furious mynd, sem er mikið sagt um ræmu sem kveikti alls ekki á öllum. Flestir sem hafa ekki kynnt sér fyrri verk leikstjórans, sem þessi á meira sameiginlegt með (einna helst Valhalla Rising, sem var líka… áhugaverð), verða kannski fyrir svolitlu aukahöggi.

Fyrir þessa birtingu hef ég séð myndina þrisvar sinnum, og enn hættir heilinn ekki að minna mig á hana – sem er jákvætt. Þegar ég sá hana fyrst vissi ég ekki hvað snéri upp eða niður (og ef ég hefði gagnrýnt hana þá hefði einnkunnargjöfin landað á risastóru spurningarmerki). Refn er ekki beinlínis að stafa hlutina út (eða jú… reyndar, samt ekki… spes) en hann leggur vægast sagt athyglisverðan grunn fyrir eyðufyllingar og túlkanir, án þess að það segi að myndin eigi að vera ósnertandi eða gallalaus.

Refn getur verið brjálaður snillingur en líka ofgert hlutina ótrúlega með teygðri tilgerð. Vandinn er að hann getur stundum verið of fastur í sínum eigin heimi, en togar sína hörðustu aðdáendur fullkomlega inn í þetta meistaralega flotta, martraðarkennda andrúmsloft. Senur geta að mínu mati orðið pínlega langar en aldrei datt ég á þann punkt eins og uppgjöf væri í boði. Kannski mætti raka 10 mínútur af lengdinni en án þeirra gæti langvarandi minningar- og umræðugildi myndarinnar skaddast. Tónlistin frá Cliff Martinez og myndataka Larrys Smith lyftir líka þessu grimma, hedóníska, symbolíska listablæti leikstjórans upp á meira heillandi hæðir. Lýsing og aðdáunarverð uppstilling ramma, í bland við klikkuðu sýn Refns og með aðstoð múd-músíkinnar, er býsna óaðfinnanleg. Fyrir mitt leyti er erfitt að deyja úr leiðindum þegar skotin eru svona stílískt töff, og maður skynjar kannski ekki strax hvað þau þykjast segja manni en sér þó að þau eru útpæld á einn hátt eða annan.

Eins og kom áður fram er allt frekar óskýrt innan um pappírsþunnan „söguþráð“ en Refn hefur komið því ansi vel til skila að þetta er táknræn saga um Guð, e.t.v. Djöfulinn og stórskemmdan, kaldan ljúfling sem er rofinn á milli þeirra. Leikstjórinn kortleggur helstu hlutina en felur annan symbolisma í litum/litapallettum, öðrum sjónrænum hintum og stillir upp aukaleikurum sínum eins og hverja aðra leikmuni. Hendur eru víst mjög mikilvægar í þessu líka, þannig að fylgist mjög vel með öllum áherslum á þær. Síðan skilur efnið eftir heilmikið tómarúm til að einstaklingurinn geti tjaslað saman merkingum, og aðrir sem hrífast af þessari mynd sjá kannski eitthvað allt annað en þú.

Bæði er hægt að sjá í þessu einhverja pönnusteikta tilgerð og semí-meistaraverk og veltur á því hvort myndin grípi, hversu sterkt eða ýtir þér burt. Það er að minnsta kosti fátt í henni sem er ekki óvænt hvað frásögn varðar. Jafnvel má segja að myndin taki einhverja furðulegustu og frumlegustu nálgun að „hefndarsögu“ sem ég hef séð í einhvern tíma. Hvort sem mér líkar það betur eða verr þá er þetta undarlega einstök mynd með költ-framtíð fyrir sér.

Það er alltaf erfitt að segja eitthvað um Ryan Gosling sem hefur ekki verið oft áður verið sagt. Drengurinn er bara of góður í öllu sem hann tekur að sér, jafnvel þegar hann er lélegur. Í Only God Forgives reynir hann ekki svo grimmt á leikgetu sína – og fær ekki nema einhverjar 20 setningar – en hann virðist hafa gert nákvæmlega það sem honum var sagt að gera, og meira.

Karakterinn hjá Gosling er mjög sérstök týpa sem mér tókst ekki að ná fullum tökum á fyrr en í seinni áhorfum. Gosling og Refn mótuðu þarna glæsilega andstæðu fyrir töffarann hans úr Drive, en ekkert ómerkilegri gæja þrátt fyrir það. Ég gleymi því að vísu að ósanngjarnt er að líkja þessu við hefðbundna bíópersónu en eins og ólyktandi laukur er endalaust hægt að fjarlægja nýtt lag af. Veltur allt á persónulegri túlkun, býst ég við. Guð hjálpi þeim sem spegla sig í þessum karakterum. Kristen Scott Thomas er annars viðbjóðslega góð og eldfim í erfiðu, ófilteruðu (segjum „djöfullegu“) hlutverki. Undirtónar sambands hennar við syni sína gerir hana afar ógleymanlega, ásamt illskulyktinni af henni.

Vithaya Pansringarm, maðurinn með nafnið sem ég gæti aldrei borið fram, þarf ekki að vera annað en stóískur, hlutlaus, viðkunnanlegur, friðsæll, dóminerandi og allur guðdómlegi pakkinn, sem hann grípur. Ég get samt ekki sagt að kareókí-atriðin voru mín uppáhalds, þó því verði ekki neitað að þau vekja mjög einkennileg áhrif, góð eða slæm, og þau eru því miður nauðsynleg.

Hægt er að skrifa langar og þreytandi greinar um hlutina sem hægt er að lesa út úr þessari mynd, alveg eins og meirihlutinn mun geta dritað út brennheitum reiðisköstum í skrifformi líka. Only God Forgives á allt sitt umtal skilið en í mínu tilfelli mun ég vandlega velja þá aðila úr mínum félagshring sem ég mun mæla með henni fyrir. Leikstjóranum tókst að höggva henni of djúpt í mitt heilabú til að afskrifa hana og halda ekki smávegis upp á hana. Það er mín synd að bera ef ég kalla hana ekki bæði eina eftirminnilegustu og flottustu mynd ársins eða einhver kraftmestu leiðindi allra tíma í augum annarra. En endilega dæmið sjálf, og verði ykkur að góðu.

atta
Besta senan:

Kristen Scott Thomas slítur burt alla þá karlmennsku sem sonur hennar hefur. Furðuleg, frábær sena.

Sammála/ósammála?