The Wolverine

Ég gat eiginlega ekki ímyndað mér fátt meira óspennandi frá einhverju Marvel- eða X-Men-tengdu heldur en aðra sjálfstæða Wolverine-mynd, þ.e.a.s. án þess að gera eitthvað ótrúlega villt og öðruvísi með hana. Slíkt stóð til boða þegar sjálfur Darren Aronofsky átti upphaflega að hjóla í þetta verkefni, en framleiðendur stanguðust á við hann af sökum þess að vera of smeykir við það að fjármagna eitthvað sem hefði mögulega fælt burt marga af mainstream-bíógesti. Skiljanlegt svosem, en þeirra missir engu að síður. Sem betur má segja að James Mangold sé stórfín afleysing þar sem honum tókst að grípa voða tilgangslausa ræmu og gera úr henni nokkuð fullorðinslega unglingamynd.

Aukaathyglin á Úlfari væri annars algjörlega óþörf (aðallega vegna þess að hann hefur verið miðpunktur langflestra X-mynda) ef ekki væri í boði að sleppa dýrinu loksins lausu, kannski bæta meira kjöti á beinin eða í það minnsta keyra upp ofbeldið. Þess vegna fannst sanngjarnt að byggja þessar væntingar mínar í kringum tvær kröfur hvað þetta varðar; Í fyrsta lagi er ómögulegt – og sjálfsagt asnalegt – að (and)hetja noti stálklær endalaust í hörkuhasar án þess að óvinirnir séu bútaðir í sekki eða sletta aðeins út veggina. Í öðru lagi eiga dyggustu aðdáendur skilið að fá sína „alvöru,“ stálhörðu útgáfu af Wolverine með helst aukainnihaldi og hjartslætti. Köllum það skaðabætur eftir krakkavæna klúðrið sem Origins-myndin var. The Wolverine stenst aðra kröfuna með trompi en hina að aðeins hálfu leyti.

Það þurfti kannski ekki mikið til að toppa en þessi er ekki bara miklu betri afþreying heldur þroskaðri, einbeittari, smærri og áhugaverðari bíómynd heldur en óreiðan sem Gavin Hood reyndi að púsla saman árið 2009. Hér er meiri stíll, meiri reiði og myndasögufílingurinn hefur verið tónaður pínu niður. Töff tilbreyting og sérstaklega aðlaðandi nálgun í ljósi þess að sagan gerist mestöll í Japan, þar sem mikið er hægt að leika sér með grípandi umhverfi og jafnvel aðeins vafrað út fyrir fasta geirann. Varðandi ofbeldið er eins og reynt sé of mikið að dansa á milli línanna að gera annaðhvort unglinga- eða fullorðinsmynd (þ.e.a.s. PG-13 og R), en þá grípur klippingin eða hljóðvinnslan inn og dempir á atriðum sem sýna í rauninni Wolverine í sínu allra harðasta. Þessi atriði eru býsna svöl, en oftast bara hálf-hörð. Í kjarkaðri heimi hefði þessi mynd gengið alla leið. Eins gott að grimmari útgáfa verði aðgengileg í framtíðinni…

Heildarsýn Mangolds og hinna ávallt afskiptasömu Fox-framleiðenda er augljóslega stórgölluð en traust. Framfarirnar sjást svo vel að ég held að allir ungu krakkarnir sem dýrkuðu hina Wolvie-myndina verða ekki eins hæper-glaðir með þessa. Myndin er nú reyndar ósköp tvívíð en tími er gefinn í frásögn og persónumóment í stað þess að vaða í hvern hasarinn á eftir öðrum. Ég kann að meta afslappaða flæðið því mannlegi fókusinn og „dramað“ er það sem lætur myndina skera sig út. Titilhetjan er orðin sárþjáð og andlega ónýt, með aukatvisti sem handritinu tekst næstum því að skemma í aftari hlutanum. Hasarinn er annars fínt aukaatriði en ekki besta hráefnið. Það eru engin vá-atriði í myndinni (fyrir utan kannski eina öfluga hraðlestarsenu sem snýtir sér með lógík) en það er ekkert til þess að grenja yfir. Kvikmyndatakan bætir allsvakalega úr þessu.

Mangold er misgóður en heldur langt frá því að vera þessi dæmigerði hasarleikstjóri og föstu styrkleikir hans nýtast vel og hefðu nýst fimmfalt betur ef handritið héldi betra jafnvægi. Byrjunin er kröftug og megnið af atburðarásinni heldur áhuga. Myndin tekur síðan mjög klassíska dýfu þegar lengra líður á seinni helminginn; ekkert gríðarlega stóra en umtalsverða. Eins og gengur og gerist fara heilasellur að detta úr handritinu í kringum lokahálftímann, manni verður meira sama um allt sem er á seiði og leiðir þetta allt út í miklu hefðbundnari hasarmynd heldur en hefði mátt vera (risastór tölvugerður „endakall“ innifalinn og læti!). Markmið ýmissa aukapersóna verða einnig frekar móðug. Fleiri uppköst að handritinu hefðu getað lagað margt en afþreyingargildið verður samt aldrei fyrir of miklum skaða. Kannski er ég bara of hrifinn af því sem á undan kom.

Peningarnir hafa vissulega margt að segja en engu að síður á Hugh Jackman skilið gott klapp á sitt massaða bak fyrir að sýna titilrullunni svona svakalegan áhuga. Hann er auðvitað orðinn samvaxinn henni (eðlilega, eftir fjórar lotur) og með aðeins meiri dýpt ásamt vinkli sem hefur verið aldrei tekinn fyrr á karakterinn kemur varla á óvart að hann hafi aldrei eignað sér hlutverkið betur. En þó öll myndin snúist um Jackman eru aðrir leikarar þokkalega skipaðir á sinn stað, fyrir utan þessa rússnesku gellu með sem lætur eins og hún sé stödd í rangri Wolverine-mynd.

Flestir aðrir eru rétt valdir þar sem þeir eru, og ég var heldur ekki lengi að negla það niður að Tao Okamoto er ein fallegasta kona sem ég hef nokkurn tímann séð í X-Men-mynd. Ýmsir hefðu reyndar mátt fá meira til að gera, en kannski hefði átt að hugsa það betur út áður en einhver ákvað að troða fjögurra (?) metra háum vél-samúræja í söguna. Heildin væri örugglega betri án hans. Það er enginn tilgangur með þessu dóti nema bara til þess að passa upp á það að krakkarnir verði ekki sofnaðir þegar myndin er búin. Talandi um lokin samt; Bónus-kitlið í miðjum kreditlistanum peppaði mig talsvert upp fyrir næsta kafla.

Öll þessi blessaða X-Men-sería hefur verið rosalega dugleg að flækja allt continuity-ið og mín vegna hefði The Wolverine pottþétt mátt afskrifa Origins-myndina beint og láta eins og hún hefði aldrei gerst (þurftum við í alvörunni á þessum bjánalegu beinklóm að halda aftur?). Þessi afrakstur hefði samt getað hallast sterkt í sitthvoru áttina. Jú, auðvitað hefði verið snilld að fá R-stimplaða Wolverine-mynd sem hefði haldið „rólega“ flæðinu og skipt út stórum hasar fyrir meiri lágstemmda spennu og betri persónusköpun. Aftur á móti hefði öll myndin einnig getað komið öll út eins og bardagasenurnar í lokin. Myndin eins og hún stendur gengur prýðulega upp. Ég vil eindregið þakka Mangold, ekki Fox, fyrir að gefa mér Wolverine-mynd sem fer skemmtilega út fyrir X-heiminn og er hægt að mæla með.

thessi

Besta senan:
Opnunin var eiginlega ótoppandi. Því miður.

Sammála/ósammála?