The Smurfs 2

Einkunnargjöf skiptir núna engu máli og almennt allt sem neikvæðir gagnrýnendur segja um The Smurfs 2 er gagnslaus, þroskaheft útrás vegna þess að fólki er flestu strumpandi sama. Þetta er augljóslega ekki bíómynd sem er gerð fyrir fyrir þá sem meta listform kvikmynda (allavega ekki enn!), heldur er þetta heilt kíló af barnasykri sem krakkar eiga fullan rétt á að missa vitið úr ánægju yfir.

Sakleysið og almennt meinlausi andinn styður við þessa mynd og lætur hana skera sig örlítið út frá öðrum svipuðum þar sem ágætir leikarar niðurlægja sig fyrir framan tölvuteiknaðar verur (enn fæ ég martraðir eftir Yogi Bear…). Margir fullorðnir eru gríðarlega viðkvæmir fyrir öfgakenndum barnaskap í myndum sem taka lítið tillit til fullorðinna, en að mínu mati er til margt átakanlegra heldur en Strumpamyndirnar og ég væri að ljúga ef ég segði ekki að þær hefðu sinn sjarma líka ef viðkomandi hatar ekki þessa knúsanlegu blámenn.

the-smurfs-2Besti mælikvarðinn fyrir svona „beint-eftir-númerum“ söluvöru eins og þessa er hversu pirrandi hún er, eða réttara sagt hversu pirrandi hún er ekki, og þessi er alveg merkilega ó-pirrandi – og stundum þægilega meðvituð um eigin kjánaleika. Jú, myndin er stundum þreytandi, oft ófyndin, frekar hugmyndalaus, áreynslulaus og kemur augljóslega af færibandi. Engin viðurstyggð svosem, en hvernig í ósköpunum lenti Sony í þeirri gryfju að borga heilum fimm handritshöfundum fyrir framhaldsmynd sem er að mestu leyti beint afrit af forvera sínum (a.m.k. varðandi ALLAN strúktúr). Sama kaka, nýtt krem og aðeins öðruvísi skreytingar.

Einhvern veginn tókst mér ekki að móðgast eins mikið við glápið á fyrri Strumpamyndinni eins og margir aðrir, oftast bara þeir sem áttu ekkert erindi fyrir framan hana til að byrja með. Burtséð frá því að höfundurinn Peyo hafi verið líklegast kvennahatari mikill (en engin merki eru um slíkt hér) þá er ferlega gott gildi í þessu barnaefni. Ég skil samt ekki hvers vegna aldrei var frekar tekin sú ákvörðun í byrjun að gera teiknimynd í fullri lengd í stað þess að fara svona hálfbakaðar, klisjukenndar leiðir með þessar báðar sem til eru.

Alltof margir karakterar setjast á varamannabekkinn. Ég næ ekki hugsuninni að gefa hundrað Strumpafígúrum ekkert að gera í þorpinu sínu og heilum meðfylgjandi ævintýraheimi á meðan nokkrar þeirra drepa tímann í ofnotuðum stórborgum, eins og New York eða París. Sjálfur hefði ég haldið að markhópurinn myndi hugsa: því fleiri strumpar, því strumpaðra! Fleiri hljóta samt að deila þeirri skoðun að sjálfkynhneigði Hégómastrumpurinn sé betri í mjög litlum skömmtum. Ekkert að því að stokka aðeins í persónunum og bæta við nýjum, en af hverju ekki breyta þá aðeins meira til í stað þess að taka út þessa sem voru ekkert svo leiðinlegir? Ef framleiðendurnir hefðu einhverjar hreðjar myndu þeir setja passíf-agressiv strumpinn í stærra hlutverk.

Myndin er stútfull af slapstick-i án þess að tala of mikið niður til manns, væmin en með jákvæðan boðskap, löt en samt vel tekin upp, og alveg eins og í seinustu mynd þá er elskulegur kjarni þarna einhvers staðar sem er of ljúfur til að hrinda myndinni frá. Einnig virðast vera of margir leikarar sem mér líkar vel við – sem eru greinilega flestir að skemmta sér – til að draga Smurfs 2 á einhvern haug.

Hank Azaria hefur alltaf virkað á mig. Hann mjólkar galdrakarlinn Kjartan áfram með bestu lyst og gerir allt sem hlutverkið krefst af honum; vera ýktur, lúðalegur og þorparalegur. Persónulega fannst mér hann örlítið fyndnari í hinni myndinni, en þessi grínleikari á sínum versta degi er margfalt skárri heldur en fjandi margt annað. Neil Patrick Harris og Jayma Mayes eru áfram geislandi af hressandi krúttleika (hver í helvítinu skírir samt son sinn Blue?? krakkinn var hræðilegur), hinn ávallt skemmtilegi Brendan Gleeson er í notalega háum gír og Strumparaddirnar eru flestar góðar. Jonathan Winters (sem því miður lést fyrr á þessu ári) ber klárlega af sem Æðstistrumpur. Ef enginn var búinn að fatta það þá sá ég myndina á ensku. Hefði ekki lifað hana af öðruvísi.

Leikstjórinn Raja Gosnell er ekki fagmaður í hefðbundinni merkingu  en í þeim geira að sameina brellur við alvöru leikmyndir er hann orðinn meira en vanur. Hann kann í það minnsta að setja saman bíómynd sem lítur ágætlega út, hefur einfalda og beina sögu með hjartarótum. Gosnell hugsar fyrst og fremst um börnin en leyfir sem betur fer örlitlum bröndurum að laumast í gegn af og til handa eldri hópum svo þeir stimpli sig ekki alveg út. M.a. má nefna tilvitnanir í mun eldri myndir, tvo eða þrjá pungbrandara, orðagrín  og hvernig t.d. “smurf” kemur í stað blótsyrða. Á móti fullorðinsflippinu dælast samt mjög æpandi auglýsingar, til að minna mann sífellt á það að þessi mynd er gerð til að moka inn haug af grænu með blárri nostalgíu.

31-smurfs-2The Smurfs 2 skal láta helst í friði ef áhorfandinn á sér ekki æskuminningar eða í það minnsta spriklandi ungabörn til að dást að svona sykurpúðaskemmtun sem þessari. Þeir sem hötuðu nr. 1 eru býsna veruleikafirrtir ef þeir leggja í þessa án þess að búast við meira af því sama en bara aðeins verra. Leyfum bara þeim litlu að njóta sín, aðrir mega strumpa sér.

fimmBesta senan:
Testacle-brandari nr. 2, eða 3…

PS.
Ég skrifaði meira en 850 orð um Strumpamynd. Nú er ég officially orðinn geðveikur.

Sammála/ósammála?