The World’s End

Hinn einstaki Cornetto-ísþríleikur tekur hér enda og mega þeir Edgar Wright, Simon Pegg og Nick Frost kalla sig ansi sátta með þessa bragðríku heild. Shaun of the Dead og Hot Fuzz voru ekkert grín til að fylgja eftir en The World‘s End mannaði sig upp og stóðst þá áskorun. Og fyrir þá sem ekki vita þá er Cornetto-ísinn talinn ein besta þynnkulækning sem til er samkvæmt leikstjóranum. Skál fyrir því?

Wright er mikill meistari í því í að bomba saman mismunandi bíógeirum í staka, misstóra afþreyingarússíbana og halda stöðugu jafnvægi á húmornum að auki. Ekki nóg með það heldur er bröndurum oft svo snilldarlega stillt upp fyrir seinni tíma senur. Frá og með Spaced hefur þetta smámunasama nörd mokað í sig fleiri hæfileikum með árunum. Í tengslum við Cornetto-myndirnar þá sá Shaun um að taka zombí-geirann fyrir með rómantískum lystauka og Fuzz (sem ég álít vera trompspilið í trílógíunni) tók meistaralegan snúning á löggu/morðgátuklisjur og almennt hasarmyndareglur. Eins og nafnið gefur mögulega til kynna þá setur The World‘s End sér það háa markmið að klára þrennuna með miklum stæl, sumsé sci-fi ívafi að hætti Body Snatchers ásamt fleiru. Og hún er geðveik.

Snjöll, flippuð og undarlega dökk – talsvert meira heldur en hinar tvær. Hún er samt mikill farsi, en farsi sem er svo grimmdarlega ferskur og hugsar um persónur sínar. Það segir líka heilmikið um skrifin þegar tekst að búa til kómíska, hasardrifna „sæfæ“ mynd með stórum hugmyndum þegar persónusköpunin sker sig úr og tekur upp allan fókus. Hjartað slær og alvarleikinn er meiri heldur en ég bjóst við. Pegg virðist eiga leiksigur sem ýtinn, sjálfselskur partídrengur í fullorðnum líkama, eða svo virkar í fyrstu. Vinirnir álitu hann kónginn á hormónaárunum en svo óx hann upp í aumkunnarvert fífl sem lifir í fortíðinni og hefur ekkert breyst síðan. Við þekkjum öll þessa týpu.

Pegg gerir það ekki auðvelt fyrir mann að líka vel við – eða halda upp á – þennan gæja. Upp úr miðju vissi ég að eina leiðin til að gera hann að einhverjum sigurvegara væri að taka mjög mannlegt og áhugavert dýptar-tvist á hann með tímanum, sem tókst helvíti ánægjulega og er m.a.s. undirstaða einnar bestu senunnar í lokahlutanum. Pirrandi karakter eða ekki, Pegg óneitanlega neglir þessa rullu, eins og yfirleitt allar sem eru skrifaðar sérstaklega fyrir hann. Frost er lítið slakari þar sem þeir vigta hvorn annan oftast út með skemmtilegum hliðstæðum. Þeir eru alltaf bestir þegar þeir eru saman en Frost myndar sterkustu tenginguna við áhorfandann að þessu sinni. Alveg eins og félagi sinn þá hefur aldrei staðið sig betur áður á skjá, virkað sjálfsöruggari eða komið sér í betur skrifað hlutverk.

Pegg hefur hingað til verið oftast séður sem „þroskaði“ gaurinn úr tvennunni og þess vegna er ánægjulegt að sjá hvernig spilað er með hlutverkaskiptin hjá honum og Frost. Stuðningurinn sem þeir fá hins vegar frá Paddy Considine, Martin Freeman og Eddie Marsan, sem leika allir félagana, er ómetanlegur, Rosamund Pike ekki síður. Hver og einn fær sína örk, bætir miklu við og skiptir heildarpakkanum miklu máli. Leikstjórinn hefur alltaf kunnað að sjá um marga leikara og passa að allir skíni aðeins. Gestahlutverkin eru sérglaðningur eins og vanalega.

Það er margt úr hinum myndunum sem þessi stelur kurteisislega frá en sagan er skemmtilega möppuð út og hlandfull af litlum tengingum, duldum eða öskrandi myndlíkingum og fyndnum smáatriðum, að ógleymdum króknum að persónur myndarinnar eru sótölvaðar út hálfa lengdina á meðan yfirtaka geimvera vofir yfir. Hasarinn verður stundum einhæfur og mætti vera brenglaðri en Wright, sem fyrr, djúsar eins mikilli orku og fjármagnið býður upp á með klippi- og tökustíl sem smellpassar (Bill Pope klikkar seint á kamerunni!). Maður sér algjörlega áhrifin sem hann hefur fengið úr fyrri myndum sínum og heldur í sína fínustu takta. Ég kann mikið við hvernig litalúkkið á hverri mynd er í takt við bragðtegundirnar á ísnum sem þær vitna í.

Tónlistarvalið er æðislegt ef og ber dásamleg Doors-nýting af ásamt Suede. Spaced-dýrkandinn í mér var einnig sjúklega sáttur með það að heyra í remixaðri útgáfu af Magic Roundabout-þemanu, sem er aðeins ein af hundrað vísunum í eitthvað af eldra efni Wrights. Þessi maður kann virkilega að gleðja sína unnendur og myndirnar hans verða undantekningalaust alltaf betri því oftar sem maður horfir á þær, yfirleitt líka út af þeim fjölda layera sem hann plantar laumulega. Greinilega hefur hann samt aldrei gert fullorðinslegri mynd áður heldur en World’s End, og þar skorar hún hjá mér flestu stigin, ekki í húmornum, þó hún sé sjúklega fyndin!

Wright dregur mann inn með metnaðarfullum skrípaleika en einblínir svo sterkt á mannlegu mómentin. Shaun og Fuzz höfðu sitt og hvað af alvarlegum undir- og yfirtónum en miklu meira er náð út úr persónunum og þemanu hér. Climax-atriðin klóra sig aldrei upp í einhverjar topphæðir en endirinn er allavega meiriháttar, og öðruvísi.

Þetta er næstum því eins og öfugt en sambærilega dökkt svar Wrights við Attack the Block frá 2011. The World‘s End á fullkomið erindi inn í þennan veisluþríleik og það er epískt hrós út af fyrir sig. Hún er ekki sú fyndnasta í röðinni en engu að síður hugrökk, persónuleg og blæðir út kjánalegu fjöri með gríðarlega breskum (pöbb)anda. Þeir sem hafa líka fylgst með Pegg og Frost árum saman fá extra ánægju úr bró-þróuninni og kemistríu þeirra hér. Annars gerir Wright aðallega bara (frábærar) myndir fyrir ýmsar týpur af nördum, og þess vegna er erfitt að segja að þessi nái að hitta í mark hjá öllum. En það á svosem engu að skipta. Njóttu þín bara!

Há, konungleg átta.

atta

Besta senan:
– „Whisky Bar“ lagið
– Frost útskýrir plottið og brýtur rúðu
– Leyndarmál Garys

Sammála/ósammála?