The Way Way Back

The Way Way Back er nokkuð dásamlegt dæmi um hvernig hægt er að segja frekar týpíska þroskasögu, sem hefur nákvæmlega ekkert nýtt að segja, og gera henni góð skil í gegnum skörp skrif, ljúfa leikstjórn og með réttu leikarana.

Þessi leikstjórafrumraun handritshöfundanna, gamanleikaranna og langtímafélaganna Jim Rash (snillingurinn sá) og Nat Faxon sýnir hversu góðir þeir eru í að fanga sterkan og skemmtilegan hversdagsleika sem prýðir eðlilegar persónur sem sýna mikinn lit. Þeir hafa góðan skilning á hegðun og gölluðum samböndum fólks sem og því að sjá húmor í alvarleika. The Way Way Back nær ekki sömu grípandi topphæðum og The Descendants (sem höfundarnir hlutu verðskuldaðar Óskarsstyttur fyrir, ásamt Alexander Payne) en hún á heima í sama nágrenni. Það er margt til að tengja sig við (hvort sem viðkomandi sér sjálfan sig í aðalpersónunni eða öðrum) og auðvelt er að festast í „fílgúddsjarma“ myndarinnar, dramanu og almennt njóta hennar eins og ljúfs vindgusts í grillandi sól … við vatnsrennibraut!

Ég hef alltaf verið veikur fyrir fullorðinslegum myndum um unglinga og hinn misskildi, vansæli, fámáli Duncan (frábærlega leikinn af nýgræðingnum Liam James) er nokkuð yndislegur karakter, ekki endilega bara vegna þess að ég sé eitthvað af sjálfum mér í honum (því miður?). Það lítur allavega út fyrir að Rash og Faxon hafa dregið upp úr eigin minningum enda efnið litað af persónuleika þeirra. Fullorðnu einstaklingarnir í sögunni tala margir niður til unglingana ómeðvitaðir um að þeir vita lítið betur sjálfir.

Það er nóg af sérvitrum karakterum en sagan er fyrst og fremst um hann Duncan litla og hans fyrirsjáanlegu en fullnægjandi þróun úr lúða á gelgjunni í ungan mann. Um leið og drengurinn er kominn í mjúkinn hjá manni er sjálfsagður hlutur að halda með honum og vonast til þess að sjálfstraust hans sigri á endanum. Hjarta myndarinnar slær óneitanlega í gegnum Duncan en ræturnar eru að finna í sambandi hans við nýju félaga hans og ekki síst móður hans sem lengi hefur fjarlægst hann. Það er eitthvað um krúttó-rómantík líka (ég elska þessi anime-augu sem AnnaSophia Robb hefur) en múttan er aðallinn. Öll þessi lýsing á sögunni er, nota bene, miklu væmnari en nokkurn tímann er hægt að segja um sjálfa myndina. Ef eitthvað, þá er hún alfarið laus við allt tilgerðarlegt melódrama. Og svo er hún líka mjög fyndin, og verður fyndnari því meira sem manni er annt um ákveðna aðila,

Allir leikarar passa þar sem þeir eru og eru flestallir góðir en eins og gengur og gerist þegar Sam Rockwell er í háum gír á hann til að varpa örlítinn skugga á aðra, líklegast að því gefnu að hann er fyndinn, endalaust skemmtilegur á skjánum og leikur sér með bestu línurnar í handritinu. Annars er eins og sé passað upp á það að enginn hverfi beint í bakgrunninn. Toni Collette er ótrúlega góð sem móðir Duncans sem sjálf gæti verið að upplifa tímamót í lífi sínu. Steve Carell er síðan undarlega fullkominn sem ósympatíski stjúpfaðir drengsins. Carell hefur óaðfinnanlega tekist að vera ljúflingur eða auli oft og mörgum sinnum en að sjá hann fara með hlutverk þurra, „vonda“ gæjans er eitthvað sem hann fer létt með, en þarna hjálpa skrifin líka helling. Persóna hans er aldrei sýnd sem eitthvert kvikindi, heldur bara fífl sem vill fjölskyldunni álíka vel og sjálfum sér en kemst samt einfaldlega ekki yfir þann þröskuld að vera meingallað gerpi innst inni.

Fyrir utan kannski Before Midnight er þetta án efa ein af „sumarlegustu“ myndum ársins, en því hrósi er beint að tökustöðunum og óskhyggju áhorfandans um að fá að vera þarna. Bjarti andinn í myndinni er svo viðkunnanlegur að handritið dettur sjaldan niður í punkt sem ekki á heima þar. Þótt myndin geri sér ekki alveg grein fyrir því að það eigi að vera komma einhvers staðar í titlinum (sem vísar í aftasta sætið sem Duncan hefur einmanalega eignað sér í fjölskyldubílnum), þá er The Way Way Back gríðarlega aðlaðandi og einlæg klisja með dramatískum vellíðunarblæ. Það er ekki mikið bit í henni en að mínu mati er skylda að sjá hana ef maður heldur The Descendants, Little Miss Sunshine og Adventureland í háu áliti. Tónalega séð er þessi eins konar blanda af þeim, sem hljómar enn betur þegar Sam Rockwell stelur senunni í kaupbæti!

atta

Besta senan:
Stóra „confrontið.“

Sammála/ósammála?