Kick-Ass 2

Kick-Ass fannst mér alltaf vera ein af þessum stóru litlu nördamyndum sem kom, sá og sigraði – eða réttara sagt, sparkaði með þrumu – enda sjálfstæð framleiðsla byggð á grafískri myndasögu sem helstu stúdíó þorðu ekki að taka sénsinn á. Helst var það út af ungri, hættulegri stúlku sem aflífaði fullorðna með einni handahreyfingu og blótaði eins og dvergvaxin mella.

Úr þessu varð til kvikindislega flippuð og útlitslega geggjuð ræma frá Matthew Vaughn sem fór létt með það að vera dökk, svöl og sjúklega fyndin til skiptis. Hún skildi mann eftir langandi í meira og beint hrynur í kjöltuna akkúrat það sem beðið var um. Og ef ég myndi líkja framhaldinu við góðan bjór þá væri hann ekki eins kaldur og sá fyrsti en bragðast engu að síður vel í stofuhitanum án þess að verða nokkurn tímann of flatur. Dugar mér.

Líta má á þessar sögur Marks Millar sem brútal, siðlausar unglingafantasíur um ofurhetjur en tapa aldrei tengingunni við raunheiminn eða manneskjulegt eðli. Varla er hægt að kalla þetta auðvelda uppskrift, en þetta kemur út eins og öflugt vegasalt á milli ofbeldisdýrkunnar í paródíustíl og kjaftshöggva um hvernig afleiðingar ofbeldis lýsa sér í veruleikanum hjá sjálfskipuðum ofurhetjum. Þeir sem renna ekki með smekkleysunni eiga fullan rétt á því að fara í fýlu, því ef bíómynd býður upp á illmenni sem heitir The Motherfucker þá er ansi bókað að hún fari ekkert sérlega fínt í hlutina.

Forverinn hefur yfirhöndina í ferskleikanum en Kick-Ass  2 er ruglað skemmtileg framlenging samt sem áður. Hún tekur fyrri söguna og persónurnar í henni upp á annað, klikkaðra stig í stað þess að fara í gegnum of mikla endurvinnslu. Plottið er viðburðaríkara, meira er í húfi og ef einhver er maður í það að fylla upp í Nicolas Cage-lausa tómarúmið (eða svo gott sem) þá er það Jim Carrey. Hlutverkið er smærra en hjá Nic átti en maðurinn er óborganlegur í öllum sínum atriðum og ekki í eins athyglissjúkum gír og maður hefði haldið.

Sáttastur er ég við það að nr. 2 skuli ekki missa þennan pung sem sú fyrri sveiflaði með góðu glotti. Myndin hefur svipaðan tón, stíl og húmor og svíkur fá loforð þegar kemur að rassaspörkum, blóðslettum og fleiri nastí árásum. Maður tekur ofbeldið alvarlega á réttum stöðum og peppast upp yfir því á öðrum. Það gengur hins vegar ekki frábærlega að setja klósetthúmor í mynd sem inniheldur nauðgunarbrandara.

Í síðustu lotu tókst Vaughn að laga marga galla í býsna traustri bók. Það að hann hafi ekki snúið aftur í framhaldið voru upphaflega fúlar fréttir sem versnuðu síðan þegar ég barst út að Jeff Wadlow kæmi í staðinn – bæði sem leikstjóri og handritshöfundur. Eins mikið og ég dýrka Never Back Down fyrir að vera dásamlegur gelgjusori með flottum slagsmálasenum, þá er erfitt gigg að fylgja Vaughn eftir. Wadlow stóðst samt þessa áskorun mikið betur en ég þorði að reikna með.

Vaughn gerði stílinn beittari og meira töff, og Wadlow reynir aðallega bara að herma eftir honum í stað þess að taka sjálfur áhættu og dekkja hlutina örlítið meira í takt við umfjöllunarefnið. En það að honum tókst ekki að klúðra því að kópera Vaughn þykir mér vera ákveðið afrek út af fyrir sig í þessu tilfelli. Sándtrakkið passar og sem fyrr er ég brjálæðislega hrifinn af þessari björtu, poppandi litaáferð  (veit, er með litafetish) sem leggur einhvern veginn sterkari áherslu á hversu mikið stuð þessi grimmd á að vera. Myndasögur Millars eru flottar á sinn hátt en bíómyndirnar gleðja augað betur. Leikstjórn Wadlows er orkumikil, slagsmálin faglega skotin, skemmtanagildið lendir aldrei á dauðum punkti og smellast báðar myndirnar saman eins og partur af sömu heildinni.

Wadlow fylgir samnefndu bókinni nánast þráðbeint, vefur einnig sjálfstæðu Hit-Girl söguna drulluvel inn í handritið, og gerir oft litlar breytingar sem mér finnst persónulega vera til hins betra. Segja má að myndin sé fullþjöppuð og fær hún þess vegna ekki að anda eins vel út og hin. Þessi er sömuleiðis styttri og hefði hefði nauðsynlega þurft á lengri tíma á að halda. Aðeins meira fjármagn hefði líka hjálpað helling. Oftast eru framhaldsmyndirnar lengri og dýrari. Ekki hér, þó sagan sé stærri. Fúlt.

Gengið er annars mátulega langt með allt ofbeldi en haldið samt alltaf utan „glossy“ stílíseringuna. Myndasögustíllinn myndar líka fullkomið jafnvægi við þessa svokölluðu raunsæisnálgun í efninu og fyrir mitt leyti eru bíómyndirnar betri en bækurnar af sökum þess að þær rýma aðeins fyrir sálinni innan um alla reiðina.

Carrey er, jú,  velkominn í sínum skömmtum en unga fólkið spjarar sig fínt og meira en það. Þeir sem eru orðnir vanir sínum hlutverkum eru allir komnir á efra level og fullkomlega geim í það. Aaron Johnson, fullskorinn og læti, er hættur öllum lúðaskap og gerir það að persónulegu markmiði að standa undir titlinum sínum. Chloë Moretz hættir ekki að vera æði. með nóg af atriðum til að skína, og Christopher Mintz-Plasse hefur sjálfur aldrei verið betri. Drengurinn er einn stærsti hápunktur myndarinnar sem aumingjalegi, truflandi skúrkurinn.

Í kringum þessa lykilþrenningu er ómetanlegt úrval af skrautlegum aukafígúrum (John Leguizamo, Morris Chestnut, Iain Glen og Turk eru þarna meðal annarra), og sú harðasta af þeim er vöðvastælt blondínutröll að nafni Mother Russia. Lindy Booth (þ.e. Night Bitch) bætir líka eitthvað smávegis við, og ég krosslegg fingur með þær vonir að dömur taki hana til fyrirmyndar í búningapartíum á næstunni.

(Annars er nokkuð bókað hver vinnur þessa búningakeppni.)Hvort að þessi er eitthvað mikið grófari en hin er eitthvað sem amma mín þyrfti að svara betur. Þetta kemur allt að manni eins og fátt sé sjálfsagðara. Hún nær ekki eins mikið að sjokkera en hafa skal það í huga að þetta kemur frá manneskju sem las bókina, og aðlögunin er eins trú henni og hún þorir að vera. Bestu mómentin í sú fyrri verða ekki toppuð  en samt er Kick-Ass 2 bjánalega mikið fjör. Þéttpakkað, yfirdrifið, létt sadistalegt nördafjör sem rétt nær að standa undir nafni.

thessi

PS.
Ekki beila áður en kreditlistinn er búinn. Aukasenan er gull.


Besta senan:
Stúlka gegn móður.

Sammála/ósammála?