We’re the Millers

Léleg en fyndin. Það þarf ekki flóknari orðaforða til að lýsa We’re the Millers í allri sinni dýrð þar sem þessi mynd hugsar aðeins um tvennt: ruddalegt crowd-pleaser gildi og einhvers konar fílgúdd-væb sem á að skila sér út um þessar svokölluðu hjartarætur sem hún hefur. Þau spil sem hún heldur á eru í það minnsta nógu góð til að gera myndina ekki áreynslumeiri en hún þegar er, sem er í rauninni bara snobbuð leið til að segja að það er nógu mikið af fyndnum atriðum til að gera setuna þess virði en ódýr og þreytandi verður hún einnig.

Ef lágmarkstillit til handritsgerðar á ekki að skipta máli í gamanmyndum af þessari gerð, þá er We’re the Millers lítið að gera hlutina auðvelda fyrir mann. Hér er það skemmtilegt fólk sem togar illa unnið handrit upp á bærilegar hæðir (og nokkrir subbulega fyndnir hápunktar fylgja með!), en þegar þvinguð mynd – sem er þegar sett saman úr mörgum klisjum – reynir að sýna „blíðari“ hliðar án þess að leggja svo mikið sem hálfan svita í handritið þá ná heildarmeðmælin ekkert brenglað langt.

Grunnurinn gengur upp, leikararnir eru allir í fullum gír en formúlan er alltaf sú sama. Að vísu þarf að gera sér grein fyrir því áður en horft er á myndina að hver einasti karakter í henni er annaðhvort heimskingi eða fáviti. Það er allt í lagi, því fólkið gertur verið tussuskemmtilegt. Versta er að formúla myndarinnar eyðileggur svolítið stemninguna þegar maður sér í gegnum hana. Það kæmi mér ekki á óvart ef aldrei hefði verið gert annað draft að handritinu (að frátöldum spuna) og að höfundarnir hafi skrifað þetta allt í beinni röð án þess að vita framhaldið. Lykilmarkmiði persónanna er náð áður en myndin er hálfnuð og þá hefst ekkert nema endalaus uppfylling sem leiðir ekkert að neinu svo merkilegu, en sleppur svosem. Samt er alltaf eins og myndin sjálf steingleymi því oft að það eigi að vera plott í henni. Trúlega voru brandararnir skrifaðir fyrst og „sagan“ svo.

Myndin er að auki fyrirsjáanlega ófyrirsjáanleg. Í hvert sinn sem fríkaðslega kómískar, massíft vandræðalegar (og spennandi?) aðstæður myndast og koma að þann punkti að maður spyr sjálfan sig: „hvernig í andskotanum munu þau koma sér út úr þessu??“ þá er alltaf vippað upp einhverja aulalega undralausn til þess að geta beint hoppað í næsta djók. Svona endurtekur þetta sig, aftur og aftur. Myndin heldur hins vegar alltaf markmiðinu að halda brandarasprengjum dælandi og skammast sín ekkert fyrir einfaldleika sinn. Músíkvalið er sömuleiðis gott, fyrir utan tilfelli þar sem Sweet Emotion með Aerosmith er sóað í strippdansatriði sem er fylgir allt öðrum takti en lagið. Í einum trailernum var m.a.s. miklu betri tónlist notuð við senuna. Ég veit reyndar ekki einu sinni af hverju ég er að kvarta yfir þessu. Betra svona heldur en enginn strippdans.

Kameran slefar öll fyrir Jennifer Aniston og hún er ekkert að hata þessa aukaathygli. Fésið segir fertugt en líkaminn lúkkar helmingi yngri (vei?). Persónulega hefur mér aldrei fundist hún vera einhver geislandi fegurð en gaman er að sjá Aniston loksins í bíómynd sem er ekki leiðinleg eða væri betri án hennar. Hún stendur sig fínt, og Jason Sudeikis líka þó það velti eflaust á einstaklingnum hvort það sé gott eða slæmt að hann geri nákvæmlega það sem hann gerir alltaf. Ég hef allavega alltaf kunnað við hann, enda einn af kannski tveimur í heiminum sem fílar myndina Hall Pass . Krúttið hún Emma Roberts kemur sér þokkalega á plan með eldra settinu, ekkert sérstök en engan veginn leiðinleg. Mest ómissandi aðilinn er Will Poulter (sem lék magnaða fíflið í Narniu-myndinni sem enginn sá). Frábær drengur, frábært andlit. Ef ég myndi nenna því væri þess virði að ræða fullt af öðrum leikurum. Ég læt það duga að gefa Nick Offerman kredit fyrir að tryggja betra bros, að venju.

Leikstjórinn Rawson Marshall Thurber (harður að heita þremur eftirnöfnum) er allt annað en vonlaus gæi í þessum geira, þar að auki trúði ég að hann gæti gert aðra fyndna mynd eftir Dodgeball. Tæpum áratugi síðar (hvar varstu??) virðist ég hafa rétt fyrir mér en næst skal hann halda sér á aðeins einni línu. Dodgeball vissi hvað hún var og lét ekkert stoppa sig í grilluðum kjánaskap. We’re the Millers þykist bæði komast upp með það að vera stolt greddumynd í anda Hangover – þar sem við eigum að hlæja að persónunum, ekki með þeim – og einnig há-bandarísk vegamynd með fjölskyldumóral og karaktera sem á að elska. Í þessu tilfelli hefði verið mun betra að velja aðeins aðra stefnuna, og ég veit hvora ég hefði sleppt. Myndin er alltof löt til að keyra sig á einhverjum sjarma en þegar smekklausi prakkaraskapurinn byrjar er ekki þorað að ganga nógu langt.

Oft leið mér eins og það vantaði dósahlátur á milli brandara… en skítt með það, ég hló. Slök mynd, því miður, en ég hló. Væntingar skulu vera lágt stilltar og heilinn sæmilega dofinn.

fin

Besta senan:
Hárgreiðslustofan eða kossaatriðið.

Sammála/ósammála?