2 Guns

Það er alltaf hressandi að sjá leikara sem eru oftast alvarlegir taka kómískan snúning á venjulegu ímyndir þeirra (svo framarlega sem þeir breytast ekki í Robert De Niro), jafnvel þótt myndirnar séu ekkert voðalega góðar. Alls staðar annars staðar í heiminum myndi ég segja að 2 Guns væri óttalega ómerkileg bíómynd. Fyrir íslenskan kvikmyndagerðarmann er þetta auðvitað eitthvað sem á sér ekkert fordæmi, virkilega jákvætt fyrir okkur – en ég leyfi sennilega öðru fólki en mér sjálfum að skála fyrir því. Það hefði verið skemmtilegra að sjá myndina leika aðeins meira með efnið en ég fékk samt út úr henni fínustu popp-og-kók mynd, eða nachos og Krystalsmynd í mínu tilfelli.

Baltasar Kormákur hefur mér alltaf þótt æðislega kaldur en misgóður leikstjóri. Oft getur þessi kuldi gert hlutina þrefalt meira niðurdrepandi í íslensku myndunum hans en mér finnst þetta svínvirka í gegnum Hollywood-filterinn. Það var ekkert sem gat bjargað pirringnum sem fylgdi hinni auðgleymdu Inhale en Balti lærði margt af henni og masteraði þessa „ticking clock“ formúlu margfalt betur í Contraband. Sú mynd gekk allan tímann út á söguþráðinn og leikararnir sáu um að stýra honum út í gegn. Í 2 Guns er það hins vegar öfugt. Nú eru það leikararnir sem reyna að burðast með hundgamalt og andstyggilega óspennandi plott, en leikstjórinn keyrir atburðarásina án þess að stoppa. Hún flæðir vel, sleppir öllu kjaftæði og reynir bara að vera eins töffaraleg og hún vill. Oftar en ekki nær hún því.

Ég á erfitt með að ímynda mér að nokkurri manneskju geti fundist 2 Guns vera frábær mynd en sem hæ-og-bæ afþreying er varla hægt að kvarta, helst ef maður er karlkyns og elskar að sjá stælgæja berja, skjóta og svíkja hvorn annan, eða skiptast á flottum frösum. Við Balti drekkum greinilega sama teið en hann er að stuða svakalegri orku í tiltölulega dautt innihald. Myndin skorar ákveðinn skammt af kúl- og one-liner stigum þótt hún sé ómögulega eins graníthörð og hún heldur (greinilega sá Balti aldrei „Cool Guys Don‘t Look at Explosions“ vídeóið) en hún heldur rétta andanum, þrátt fyrir að handritið sé nokkuð þurr og auðgleymd óreiða.

Flækjurnar gera samt myndina líka býsna skemmtilega og lykillinn sem bjargar þessu öllu frá ófrumleika á miðjumoðsskala er eðlilega að finna í byssumönnunum Washington & Wahlberg. Mark er sjálfsagt mun reyndari í húmornum en laumast í rulluna eins og hann kunni ekkert betur. Denzel hefur að mínu mati lengi þurft á einhverju svona léttara að halda en til að stíga ekki of langt út fyrir það sem hann þekkir passar hann alltaf að vera sá svalasti á skjánum, sama hversu ljótum skyrtum hann gengur í. Erfitt er að segja til um hvort Balti beri ábyrgð á flotta samspili þeirra eða hvort fagmennirnir hafi bara leikstýrt sér sjálfir, en gírinn sem þeir eru í er undirstaða þess að ræman verður aldrei bensínlaus. Það er sterkasta hrós sem ég get gefið langsóttri mynd sem mér var drullusama um allan tímann.

Aukaleikararnir eru ágætlega nýttir. Það er líf í flestum en engin springandi orka. Paula Patton hefur samt alltaf farið pínu í taugarnar á mér, fyrir það eitt að vera alltaf á sömu stillingu (af hverju hættir hún aldrei að brosa??). Hún er ekki einu sinni í myndinni til að vera einhver persóna, heldur plottpunktur. Í þessu partíi tekur testósterónið yfir, en Patton er að vísu svo elskuleg að sýna að henni er ekki vitund kalt í rúminu með Denzel. Balti hefur einmitt svo lengi verið gjafmildur á tilgangslausa nekt í sínum myndum. Guð blessi þennan víking.

Tæknivinnsla myndarinnar kemur fínt út, fyrir utan nokkra hluti sem draga alltof mikla athygli að sér, eins og lýsingin í sumum senum, nokkur ósannfærandi brelluskot og asnalegt slow-mo, sem leikstjórinn hefur fengið eitthvað æði fyrir eftir Contraband. Annars er áhugavert að sjá manninn bæta á sig hæfileikum og taka létta en engu að síður karlmannalega glæpamynd í stíl við Elmore Leonard eða Butch Cassidy, bara í B-mynda útgáfu með A-leikurum.

Sjö gjafmildar byssur af tíu.

byssurBesta senan:
Denzel, Mark og klessubílarnir.

Sammála/ósammála?