Paradise: Love

Það er sjaldgæft að rekast á svona blíðan og bjartan bíómyndatitil þegar innihaldið nálgast merkinguna með hálfgerðri kaldhæðni. Paradise: Love er hvorki elskuleg né ánægjuleg bíómynd að neinu leyti og tekur hún stundum heiftarlega á taugarnar með sínu gríðarstóra tómarúmi sem hún reynir að fylla upp í með niðurdrepandi, óaðlaðandi hversdagsleika. Þegar ég var skriðinn máttvana yfir fyrri helminginn á fyrstu myndinni í þessum laustengda Paradísarþríleik leikstjórans Ulrichs Seidl (hinar heita Faith og Hope) var ég farinn að betla eftir einhverjum almennilegum átökum; drama, rifrildi, eitthvað!

Ef bíómyndir eru vanalega gerðar til þess að leyfa fólki að flýja raunveruleikann sinn þá kemur Seidl eins og kallaður til að sjá til þess að líf áhorfandans verði þrefalt dásamlegra eftirá. Slíkt gerist oftast bara eftir ofsalega þungar myndir eða þessar sem draga mann í gegnum stóran drullupoll af engu. Það er ekkert sem Paradise: Love kemur til skila á tveimur klukkutímum sem hefði ekki verið hægt að segja á 90-100 mínútum. Onei, myndin tekur sinn tíma, eins og hver þessara mínútna sé ómissandi gull, með löngum skotum, stefnulausum atriðum og endurtekningum sem eiga að hnoða sér í einhver skilaboð sem eiga að vekja fullorðna til umhugsunar. Óneitanlega tekst það, enda sérstök saga sem tekst með skemmtilegum hætti að snúa út úr stöðluðum kynjahlutverkum og e.t.v. er þetta ein allra einkennilegasta meðhöndlun á sögu um vændi sem ég hef séð.

Seidl er eins hættulega hreinskilinn og menn geta orðið og greinilega ekkert sérstaklega bjartsýnn gæi. Álit hans á mannkyninu er næstum því eins óheillandi og tilhneyging hans til að skófla ofan í okkur langar kynlífstengdar senur af engri ástæðu en til þess að sýna hversu veruleikabundið þetta allt saman er. Seidl er ekki að reyna að segja sögu í formi bíómyndar, heldur klessir hann áhorfendum sínum upp við einfaldar en ekki óáhugaverðar aðstæður með það markmið að gera okkur að klassískri flugu á vegg. Lítið er reynt að nýta samræðurnar til að byggja upp einhverja persónusköpun og þess vegna stýrist öll myndin lengra frá því að vera kvikmynd og meira bara eins og eitthvað furðulegt innlit þar sem gerólíkar manneskjur af allt öðrum menningarheimum og stéttum stangast á í gegnum greddu og græðgi. Báðar hliðar eru sorglegar á sinn ólíka hátt.

Lykilpersóna myndarinnar er miðaldra kona sem nýtir sér fríið sitt í Keníu til að gerast „kynlífstúristi,“ m.ö.o. eltast við unga, hrausta súkkulaðistráka og spreða seðlum sínum í kynorkuna – og gerist sykurmamma í leiðinni. Umrædda konan er ekki skemmtileg manneskja né eitthvað framúrskarandi einstaklingur, heldur bara ósköp eðlileg, einmana kona sem notfærir sér aðra jafnmikið og hún lætur notfæra sig sjálfa. Af skiljanlegum ástæðum er aðalhlutverkið ferlega djarft. Margarethe Tiesel leikur þessa konu ótrúlega vel, m.a.s. svo vel að manni líður aldrei eins og hún eða neinn í kringum hana sé að leika. Þetta eru engin stórtilþrif en leikstjóranum tókst víst óaðfinnanlega að gera mig að þessari flugu. Aldrei er sérstaklega gaman að horfa á fólkið á skjánum en þróunin hjá þeim virkar a.m.k. náttúruleg. Stundum læðist smáhúmor í atriðin en ekki nógu oft.

Ef kameran væri ekki svona stabíl og skemmtilega þurr hefði hér nánast verið efniviður í gamla Dogme-stílinn. Aldrei heyrist tónlist nema hún tilheyri staðsetningu senunnar og kyrrðin er svo mikil að meira heyrist í nefandardrætti sessunautar þíns heldur en meirihluta myndarinnar. Hægar, sannleiksbundnar myndir eru oftast að mínu skapi svo framarlega sem þær hafa eitthvað merkilegt að segja eða toga mann í það minnsta inn með umfjöllunarefni sínu. Þessi gerir það að hálfu leyti og sleppur manni síðan jafnfljótt, bendandi til þess að þetta sé aðdáunarverð mynd sem skilur ýmislegt eftir sig en drepur mann allsvakalega úr leiðindum annað slagið.

fimmBesta senan:
Gamla konan ósátt.

Sammála/ósammála?