Percy Jackson: Sea of Monsters

Aldrei hef ég lesið neina Percy Jackson-bók og að minni vitund hef ég ekki einu sinni snert slíka með berum fingri. Fyrri myndin var fínasta Harry Potter-eftirherma, þar að auki gerð af slakasta Potter-leikstjóranum, en hún gerði voða lítið fyrir þá sem voru ekki 12 eða 14 ára.

Allir sem voru hvað sáttastir með The Lightning Thief geta varla átt erfitt með að taka Percy Jackson: Sea of Monsters í sátt líka, fyrir utan það að aldurinn lækkar niður í kannski 8-10 ára. Hún er heimskari, hraðari, einfaldari, fyrirsjáanlegri og hleypur í gegnum óspennandi klisjusöguþráð sem rúllar eins og stuttur tölvuleikur með ímyndunarafl en maður nennir samt ekki að spila hann. This is the End gerði hins vegar betur úr næstum því sama „endakalli.“

Eitt af því grillaðasta við fyrri myndina var hversu furðulega margir frægir leikarar fylltu út í hana, í hinum einkennilegustu hlutverkum (Pierce Brosnan sem kentár er eitthvað sem augun gleyma aldrei). Það er allt eiginlega farið hér. Eldri aðilarnir eru varla nema þrír, þar á meðal Stanley Tucci, sem er alltaf góð viðbót. Svo kemur Anthony Head tekur við af kentárnum hans Brosnans – og smellir einhverra hluta vegna eðlilegra í hófana heldur en gamla Bondinn.

Nathan Fillion er sá sem stelur myndinni í góðu cameo-i og kemur með langfyndnustu setninguna (hint: skot á Firefly). Helstu krakkarnir eru allir þeir sömu. Logan Lerman þykir mér alltaf jafnauðvelt að líka við en vinkona hans er hundleiðinleg og rasíski blökkuvinurinn er áfram hress en brandararnir hans eru flatir og sumir áratugagamlir („Try not to chop off my hands, I’m quite attached to ’em“ <— í alvöru?!). Nýi, Cyclops-krakkinn er sömuleiðis þreytandi, og ferlega kemur hann illa út.

Ég tapaði reyndar aldrei hugsuninni að þetta eigi að vera ætlað krökkum þótt fáeinar sekúndur taki af og til tillit til fullorðinna. Ég hata samt að endurtaka alltaf sama dæmið en ég skil aldrei hvernig mynd eins og District 9 gat gert svona flottar tölvubrellur fyrir minna en helminginn af fjármagninu sem fór í mynd eins og t.d. þessa. Hönnunin er ágæt og myndin reynir í það minnsta að halda eitthvað utan um þennan fantasíuheim (sem meikar að vísu voða lítið sense).

Brellurnar (að meðtöldum skelfilegum blue-screen skotum) og áhuginn fyrir því að gera þær svona takmarkað sannfærandi gefur strax upp staðreyndina að þessi mynd er aldrei að sækjast eftir því að tilheyra kvikmyndasögunni. Hún er of týpísk og gleislar af metnaðarheftri seðlagræðgi í stað þess að vanda sig örlítið meira með að kvikmynda bókaseríu sem ég hef persónulega heyrt mjög fína hluti um. Endirinn í þessari á annars að tísa áhorfendur fyrir annað framhald en missir þar fávitalega marks. Hann er viðbjóðslega asnalegur.

The Lightning Thief reyndi að minnsta kosti að segja einhverja sögu, Sea of Monsters er bara beint og barnalegt hasarhopp. Sæmileg sorka í þessu en hún hefur enga afsökun fyrir því að reyna ekki betur. Hún flýtir sér alltof mikið og þó pepp- og fjölskyldufyrirlestrarnir meini vel þá stendur fátt annað upp úr minninu heldur en ljótar brellur og atburðarás sem nær rétt svo flugi en húmorinn ekki. Og niðurtalningin er hafin um hvenær þessi tiltekna mynd gufar upp úr því minni.

fjarki
Besta senan:
Fillion, maður. Fillon.

Sammála/ósammála?