Hross í oss

Til þess að geta metið Hross í oss til fulls er eflaust nauðsynlegt að vera á kafi – og ekki lítið – í hestamennsku og finnast gaman að stara út í flatt tómarúm í hálfan annan tímann án þess að nokkrar kröfur séu gerðar til stefnu, innihalds, persónusköpunnar, skilaboða eða ánægjugildis. Að horfa á myndina er reyndar aðeins skemmtilegra en að horfa á auðan vegg. En væri þetta spurning um að horfa á einhvern klessa hestaskít utan í auðan vegg, mjaka honum með berum höndum svo úr því væri listaverk þá myndi ég frekar kjósa þann möguleika heldur en að leggja á mig þessi töltandi leiðindi aftur.

Það eina sem mér tókst að fá út úr myndinni var ágæt myndataka, nokkur kostuleg stönt-atriði, fínir leikarar (…að gera mjög lítið) og mesta undirliggjandi hrossablæti sem ég hef séð varpaða síðan Zoo kom út – þ.e. þessi sem fjallaði um Mr. Hands. En ef Hross í oss slær ekki í gegn í umræðum á Laufskálaréttum þá er hættulega lítill tilgangur með henni á þessu landi. Hún er öll sett saman úr litlum „smásögum“ sem eiga einhvern veginn að undirstrika dýrslegar hegðanir mannsins, mannleg einkenni hestsins, leggja upp úr tengingu fólks við náttúruna ásamt öðru tilgerðarlegu bulli sem hún afsakar sig með til að fela það að hún spilast út eins og teygt verk sem fór hálfklárað í tökur.

Það er lítið gert til þess að skapa einhverja betri sveitalega hópstemningu með svona fínu liði leikara (enda öll ræman upptekin við það að mynda hrossin (eins fjallmyndarleg og þau eru) frá hverju mögulegu sjónarhorni!) og fékk ég þá tilfinningu að Benedikt Erlingsson, bæði sem leikstjóri og handritshöfundur, hafi ætlað sér að skrifa umfangs- og þýðingarmikla sögu en einungis endað á því að strengja saman aðstæður og ekki vitað hvernig á að móta neina heild úr þeim. Hlutir bara gerast og öllum er sama, a.m.k. mér. Ég hef sjaldan séð eins lítinn áhuga verið lagðan í það að gefa persónum í íslenskri mynd svona einvíð einkenni. Það eina sem Helgi Björns gerir t.d. í allri myndinni er að keyra traktor og ég er ekki frá því að það teljist sem tiltölulega breiður prófíll í þessari mynd.

Tónninn er einkum furðulegur, næstum því fjarverandi, og gengur afskaplega illa að finna mörkin á milli húmors og drama. Þessi tónn er eiginlega fastur á milli og hvort tveggja missir marks, burtséð frá því að varla er neitt til staðar sem hægt er að kalla drama til að byrja með (eða nokkurn skapaðan hlut annan en einfaldlega… „aðstæður“) en samt er hún allan tímann þurr og leiðinlega alvarleg burtséð frá því að bæði titillinn og plakatið er algjör brandari. Húmor læðist stöku sinnum inn en tekst sjaldan á loft fyrir utan eitt eða tvö bros. Ég hélt annars í smástund að myndin teldi sig vera of góða fyrir orðagrín með sögninni „að ríða“ en þar skjátlaðist mér stuttu áður en hún kláraðist. En vei. Hún allavega kláraðist!

Þetta er ein sú alvarlegasta mynd sem nokkurn tímann getur hugsast sem inniheldur reiðmann sem verður óvart „samlokaður“ á milli merar og graðhests í miðjum hasar. Skondið atriði, glæsilega útfært en hefur lítil áhrif á heildarsöguna því það er fyrst og fremst engin almennileg heild. Ég get því ekki fyrir mitt litla líf kallað þetta kvikmynd, heldur tilraun. Ágæta en áttavillta og almennt grútleiðinlega tilraun. En hafa skal það í huga að þetta kemur frá mér sem einstaklingi sem hefur aldrei nokkurn tímann farið eða sýnt áhuga á að fara á hestbak, sennilega í ljósi þess að mér var alltaf kennt  maður ætti aldrei að leika sér að matnum.

thrir

Besta senan:
Steinn Ármann að vera Steinn Ármann.

Ein athugasemd við “Hross í oss

Sammála/ósammála?