The Conjuring

Það er alltaf gaman að baula úr hræðslu yfir bíómynd og enn betra að rekast á hrollvekjur sem eru í alvörunni góðar en ekki bara kvikmynduð draugahús sem eru sniðin handa fjölmenni til þess að titra í stressandi sameiningu, öskra síðan og hlæja eftirá til að losa spennuna. Það er ágætis sport – þó að stelpur geri þetta mun oftar en strákar – en svoleiðis myndir verða aldrei neitt meira en aum bregðubrella ef sögurnar trekkja ekki eða andrúmsloftið. Auðsjáanlega hefur The Conjuring miklu meiri metnað í sér heldur en standard myndir af sömu tegund en hún er ekki nógu sterk, hugmyndarík eða almennt eftirminnileg til að skara of langt fram úr.

Markmiðin eru á hreinu, framleiðslan er vönduð, leikinn er varla hægt að setja út á og handritið grípur en ekki nema í skrefum. Myndin verður oft fyrirsjáanleg, óspennandi til lengdar og tekur ekkert voðalega á taugarnar heldur eins og hún ætlar sér. Tense, vissulega, og drungaleg en varla nógu mikið til að tryggja vondan svefn. Anti-climax pestin plagar hana líka svolítið mikið miðað við hvað hún virðist vera að byggja mikið upp.

James Wan er annars einn af örfáum leikstjórum í dag sem hefur hingað til reynt að spila aðeins með væntingar áhorfenda í þessum geira, á góðan hátt. Þrátt fyrir að vera einn af þeim sem gaf pyntingarkláminu nýtt líf með fyrstu Saw-myndinni (þegar sá tími var þegar maður hugsaði mjög jákvætt til þess merkis) er Wan áberandi einhver sem hefur mikið horft á hrollvekjur, þá þessar af gamla skólanum sem léku sér meira með ímyndunarafl heldur en blóð og viðbjóð. Ég segi það sem manneskja sem virkilega fílar síðustu myndina hans, Insidious, að honum hefur farið ágætlega fram varðandi stíl og atmó. Það er megahrós og mikið sagt þótt ég myndi segja að Insidious sé sterkari, fríkaðri og óvenjulegri myndin af þessum tveimur. Og miklu meira krípí ef aðstæður eru réttar.

Kvikmyndatakan í The Conjuring er annars í mikilvægu aðalhlutverki. Wan fangar kuldalegan en hentugan retró-blæ, stillir upp frábærum skotum og nýtir lýsinguna eða auð rými til þess að ýta undir óþægindin sem einkenna alla stemninguna. Leikstjórinn veit oftast hvenær áhorfandinn býst við að verða brugðið og mjólkar mómentið oftast í örfáar sekúndur lengur. Þetta virkar ofsavel þangað til hann ofnotar taktíkina. Brögðin hans eru nokkur en maður sér með tímanum í gegnum þau; kannski hefði ég pælt minna í þessu ef sagan eða persónurnar hefðu náð mér aðeins betur.

Það sem Insidious og The Conjuring eiga báðar sameiginlegt er að leikstjórinn sýnir með föstum tökum að hans sýn getur tekið úldin handrit upp í sæmilegar hæðir. Seinast var hann reyndar með gamalt handrit sem fiktaði við fáeinar nýjungar en allt fer eftir grundvallarreglu núna og lítið pláss fyrir ferskleika, væntanlega til að selja manni betur þá hugmynd að þetta eigi allt að vera byggt á „sönnum“ atburðum. Hvort sem öll sagan er ein stór ýkja eða ekki, skiptir í sjálfu sér engu máli og það hversu alvarlega einstaklingurinn tekur orðin veltur á því hvort hann sofi með ljósin kveikt frammi eða ekki.

The Conjuring er, þegar öllu er á botninn hvolft, ekkert sérstök en fagmennskan gerir hana rétt svo þess virði að fórna setunni á, jafnvel þótt þetta sé í rauninni ekkert annað en samansafn af ágætlega kortlögðum bregðum. Margir munu ákveða fyrirfram að upplifunin sé miklu meira truflandi en hún er og öfunda ég þá fyrir að fá þær martraðir sem mér gekk ekki að fá.

sex

Besta senan:
Klapp-trappið.

Sammála/ósammála?