Prince Avalanche

Eins og á við um Contraband frá Balta er Prince Avalanche ein af þessum myndum sem íslendingar sjá í aðeins öðruvísi ljósi heldur en restin af heiminum, eða þeir örfáu landsmenn og útlendingar sem sáu Á annan veg í þessu tilfelli. Talan fer samt heppilega vaxandi enda ein af betri og huggulegri myndum sem við höfum getið af okkur síðustu tíu árin. Allir sem sjá endurgerðina á undan fá ofsalega ljúfa og manneskjulega mynd sem ekki rassgat gerist í, en hversdaglegu samræðurnar og persónurnar eru nógu áhugaverðar til að fylla upp í sultuslaka speisið.

Þessir sömu kostir einkenndu frummyndina og mér líður að hluta til eins og ég eigi frekar að skrifa um hana, beinþýða svo greinina á ensku, skipta út nöfnum, landsslagslýsingum og röfla aðeins um nýja leikstjórann. Sköpunarprósessinn hér ristir álíka grunnt. Svona semsagt lítur út bíóútgáfan af Google Translate-þýðingu, kannski í snyrtilegri kantinum. Það að mér hefur tekist að knúsa þetta afrit segir heilmikið um litla sjarma hennar.

vegaprins

Þegar allt kemur til alls snýst þetta í rauninni bara um það hvora leikaranna áhorfandinn fílar betur, þá íslensku eða bandarísku? hvaða landslag hentar betur og leikstjórnarstíll. Nú, í ljósi þess að Hafsteinn Gunnar Hafsteins leikstýrði ekki eingöngu frummyndinni heldur skrifaði hana þá finnst mér hann eiga listrænt forskot. Önnur er þó ekki endilega betri en hin vegna þess að báðar segja nákvæmlega sömu „sögu“ ósköp vel, með sama díalog. Kostirnir eru náttúrulega þeir sömu en gallarnir aðeins ólíkir. Erlendi titillinn er að vísu kátur, en ótrúlega fatlaður.

Sagan um hvernig öll myndin varð til er nokkuð skondin. Leikstjórinn David Gordon Green uppgötvaði einhvern þvælutitil í draumi: þ.e. Prince Avalanche, datt svo í hug að hann langaði til að búa til bíómynd með þessu heiti. Stuttu síðar ákvað hann að honum langaði til að skjóta myndina í Texas, án þess að vera kominn með neitt efni. Ég veit ekki alveg hvað skeði þarna á milli (úps, maður á ekki að segja „skeði“ – skv. Steina Bach) en einhvern veginn lenti Green á óttalega „obscure“ íslenskri perlu sem hann kynntist undir nafninu Either Way.

Maðurinn var gjörsamlega blindur á þann heilaga sannleika að upphaflegi titillinn er nokkuð fullkominn í enskri þýðingu en eftir að hann uppgötvaði myndina hófst ferlið að kópera hana, skref fyrir skref – en sem betur fer ekki ramma fyrir ramma. Gerðar eru örfáar litlar breytingar en Green má eiga það að hafa tekist að lagfæra örlítil smáatriði og betrumbæta það sem frummyndin náði ekki alveg tökum á. Sem dæmi var heilt voice-over tekið út í kringum miðjuna, og það var einn slakasti parturinn í hinni.

Ef Green hefði þorað að ráðast meira á upprunalega handritið og séð fleiri litla galla til þess að laga þá hefði hann mögulega getað breytt myndinni í mini-meistaraverk, en ég stórefa það. Þessi leikstjóri hefur ekki alltaf átt sína daga og ég kemst ekki hjá því að finnast eins og Prince Avalanche hafi reynt ofsalega lítið á hvaða hæfileika hann hefur sem leikstjóri eða penni. Pínu gaman er samt að sjá hann aftur snúa sér að smærri, sérkennilegri myndum eins og hann var þekktur fyrir áður en stóner-grínmyndirnar (Pineapple Express og Your Highness) tóku við. Texas-landslagið er bjartara en kalda landsbyggð Klakans og myndatökustíllinn einnig mun hlýrri hér.

Það er ávallt krefjandi að gera mynd sem heldur athygli manns þegar sögurpersónurnar eru aðeins tvær og einungis kjaftandi. Þessari sögu tekst það, þó hún sé hvorki áhrifarík né sérlega eftirminnileg (en á íslenskum skala er hún aftur á móti afar minnisstæð – pæld’í því). Karakterarnir tveir eru eðlilegir, trúverðugir og ekki beinlínis þessar týpísku kvikmyndapersónur. Annar „leiðinlegur“ og þurr og hinn bara leiðinlega óþroskaður, en báðir viðkunnanlegir á sinn máta og tekur fljótt að venjast þeim. Þróun þeirra er fyrirsjáanleg í augum allra, á báðum tungum, en samspilið smellir.

Persónulega er ég örlítið hrifnari af Paul Rudd og Emile Hirsch í þessum hlutverkum (og alltaf er indælt að sjá Rudd drama sig aðeins meira upp), þó Sveinn Ólafur og Hilmar hafi staðið sig frábærlega. Á móti er ég mun hrifnari af Steina Bach heldur en hliðstæðu hans í þessari. Það er alls ekki sanngjarnt að bera alla mennina saman, en þegar maður stendur frammi fyrir báðum myndum í huganum er annað erfitt.

Prince Avalanche gengur a.m.k. upp þó framleiðslan lykti augljóslega ekki af listrænu hugmyndaflugi. Öllum ætti að vera sama, því á ensku gegnir sagan fínu hlutverki og fullnægir mátulega hinum létthugsandi afslappaða áhorfanda.

thessi

Besta senan:
Rudd og Hirsch ná hæðum í þrasinu.

Sammála/ósammála?