The Bling Ring

Sofia Coppola er ekki alveg komin þá leið að vera eins tilgerðarlega artí og flöt og pabbi hennar er orðinn í dag en hún siglir beint þá leið með þessu áframhaldi hvort sem hún veit af því eða ekki.

Hún vill greinilega skara fram úr, og hún gerir það; myndirnar hennar eru sannfærandi, þunglyndar, persónulegar, sérstakar, yfirleitt pínu athyglisverðar og fallegar, en verður grey kellingin oft svo týnd, taktlaus og stundum alveg mökkleiðinleg. Lost in Translation er eina undantekningin að mínu mati, því þar náðu einhvern veginn allir kostir Coppola-konunnar að hrúgast saman og móta eina dýrmæta perlu, en síðan þá finnst mér eins og hún sé enn að reyna að finna sig. Það er alltaf nóg til að dást að, dáleiðast yfir í stuttan tíma en lítið til þess að skapa samræður um eftirá, frá mínum enda að minnsta kosti.

The Bling Ring, eins og flest annað frá Sofiu, er ein af þeim myndum sem aldrei skal horfa á ef einhver þreytumerki eru komin, nema ætlunin sé fyrst og fremst að sofna yfir henni. Ég myndi hins vegar ekki mæla með því. Myndin er vissulega róleg en tónlistarkippirnir myndu pirra sofandi manninn til lengdar. Heppilega vissi ég betur fyrirfram en að leggja þreyttur í þessa mynd (enda sá ég Somewhere og kom þ.a.l. undirbúinn). Aftur á móti tókst henni prýðilega að gera mig viðbjóðslega þreyttan eftirá; á bæði ómeðvitaða tómarúminu sem leikstýran myndar og öllu mannkyninu, sér í lagi dekruðum, semi-óheillandi ungmönnum sem mér og myndinni er alveg sama um.

Myndin er byggð á grein úr tímaritinu Vanity Fair og efnistökin virðast hafa bætt mjög litlu við, án þess að ég þekki til greininnar. Raunasagan segir frá fimm óheppilega heppnum, stelsjúkum unglingum (eða heldur sagt hormónabólum við það að springa úr útlitsdýrkun) sem, af ástæðum sem ég NEITA að trúa, vaða reglulega (án þess að hylja andlit) inn í ómönnuð (þjófavarnarlaus!) heimilishús hjá mismunandi celebum og gera hvað sem þeim sýnist. Vissulega fattast þetta á endanum, eftir skuggalega langan tíma, og þarna er handritið að sýna hversu lágt unglingar geta lagst með celeb-þráhyggju en fúli hluturinn er að myndin heldur að hún hafi svo miklu, miklu meira að segja heldur en bara það. Ég tek því sem kaldhæðni að kvikmynd um materialisma og yfirborðsdýrkun skuli vera svona dýptarlaus og að auki upptekin við það að dáleiða áhorfandann með… ósköp litlu.

Sofiu-stíllinn fær alveg að anda út og hver og einn einasti einstaklingur á skjánum er mjög náttúrulegur og trúverðugur, en fyrir utan eina almennilega celeb-ið í leikhópnum er ekki erfitt að rugla sumum stelpunum saman. Fyrir mér eru þær allar sami persónuleikinn því handritið sá litla þörf fyrir því að gera persónur úr þessu fólki eða leggja sterkari áherslu á hvern og einn. Maður kemst varla inn í hausinn hjá neinum og beint í kjölfarið verður þolinmóða atburðarás myndarinnar virkilega áhrifalaus. Myndin er sem betur fer ekkert voðalega löng.

Það er eiginlega fátt sem The Bling Ring hefur fram að færa sem var ekki betur sagt í t.d. Spring Breakers (sem er líflegri, furðulegri og margfalt athyglisverðari “art-gelgjumynd” í þokkabót – og gerð af sömu framleiðendum). Ef Coppola vill halda sér í fjarlægð þá þarf hún að virkja heilann meira og vanda betur til verka í samfélagsrýninni, annars væri alveg þægilegt aftur að sjá mynd frá henni sem hægt er að elska, þar sem fólkið í alvörunni myndar tengingu við mann. Orðrómarnir um að konan hafi ekki sjálf skrifað handritið sem veitti henni Óskarinn eru farnir að selja mig meira en áður. Kannski einhver ætti oftar að aðstoða hana?

fimm

Besta senan:
Leslie Mann ræðir um „character development“ og mikilvægi þess. Fyndið.

Sammála/ósammála?