Mud

“Persons attempting to find a motive in this narrative will be prosecuted; persons attempting to find a moral in it will be banished; persons attempting to find a plot in it will be shot.”

Kvótið kemur frá Mark Twain úr inngangi Huckleberry Finn bókarinnar hans (sem ég las þó aldrei en sá hana oftar kvikmyndaða heldur en Oliver Twist) og notaði hann þessa furðulegu orðamyndun sem eins konar viðvörun til lesenda. Þar sem Mud er í lausum dráttum nútímaendursögn á þessari langlífu Twain-sögu er í lagi að segja að viðvörunin lauslega endurspegli hvernig hægt er að líta á þessa kvikmynd, að frátalinni þessari skapstóru hótun. Að hálfu leyti er ég sammála þessu.

Mud fjallar kannski ekki um mikið ef atburðarásin er lögð út, því það er nákvæmlega ekkert plott í henni, lítill boðskapur og framvindan líklega svæfandi fyrir suma. Aftur á móti þýðir þetta engan veginn að myndin fjalli ekki um neitt, hún gerir það bara með vönduðum, rólegum (kannski aðeins of…) og hlýjum hætti, bókstaflega. Allan tímann er hún líka svo kuldalega fullorðinsleg, sem er oftast áhugaverður vinkill þegar hæg drama-/ævintýrasaga er sögð frá sjónarhorni tánings. Eiginlega má segja að þessi mynd sé karakterstúdía um fjórtán ára dreng sem neyðist til þess að takast á við vissar raunsærri hliðar lífsins. Með besta vin sin í för mætir hann viðkunnanlegum útlaga sem gæti þurft á því sama að halda. Ýmsar litlar flækjur varðandi hitt kynið eru þarna innifaldar.

Ég geri mér grein fyrir því að myndir hljóma sjaldan voða spennandi þegar maður notar orðið þroskasaga en Mud er óneitanlega ein svoleiðis og glæsilega heppnuð sem slík út frá flestum köntum, t.d. fullorðinslegum þemum, andrúmsloftinu, almennt handritinu að frátöldum leiknum sem er ansi óaðfinnanlegur, eins lágstemmdur og hann er.

Sviti Stykkilberja-Finns finnst best á skítuga en eitthvað svo sjarmerandi suðurríkjaandanum. Þetta eru ekki tökustaðir, heldur svæði sem áhorfandinn er fastur inn í, í frekar langan tíma. Rakinn er næstum því áþreifanlegur en öll þessi áferð leikstjórans og tíminn sem hann tekur sér til að gefa myndinni ákveðna kyrrð leyfir helstu persónum að njóta sín betur og endalokin verða meira fullnægjandi. Myndin flæðir yfirhöfuð eins og góður vestri (eða e.t.v. „suðri“ – sem ég vona innilega að sé komið til að vera) og veitir jafnvel þá kurteisi að leyfa sér að springa út með lítilli byssuhríð eins og flottur vestri á lokametrunum.

Freistandi er að segja að Matthew McConaughey sé „drullugóður“ í titluðu (auka?)rullunni en burtséð frá löngun minni að klína þessu orði við þessa mynd á íslenskri tungu þá er dettur lýsingin úr gildi því leikarinn er klárlega aðeins meira en það. Að auki eru unglingarnir tveir (Tye Sheridan og Jacob Lofland) alveg fáránlega góðir. Þegar strákar á þessum aldri taka upp svona mikinn skjátíma er það guðsgjöf mikil þegar þeim tekst að vera sannfærandi og hvað þá skemmtilegir. Það eru ekki allir sem ættu möguleika í stórstjörnuna sem skarar mest fram úr.

MudMcConaughey hefur mér alltaf þótt vera einstaklega sterkur þegar kemur að því í að leika að leika sjálfan sig en aðeins upp á síðkastið hefur hann brillerað með sína gömlu takta en loksins í almennilega frábærum hlutverkum, þar sem í boði er fyrir hann að leika alvöru karakter. Í Mud sprengir hann ekki neinar æðar en gerir samt í sjálfu sér allt með því að gera skemmtilegri, forvitnilegri persónu góð skil . Vitaskuld tekst manninum að vippa sér úr skyrtunni – með miklum… ö… tilgangi – á einhverjum tímapunkti, en miðað við Alabama-hitann hefði ég búist við því töluvert oftar. Líklega má segja að McConaughey hafi aldrei verið fullorðnari á skjá. Gerviframtennurnar sjá til þess að hann verði aldrei of aðlaðandi.

Allir í smærri hlutverkum nýta sinn tíma eins og þeir geta, á góðan hátt. Reese Witherspoon og Sarah Paulson sinna sínum hlutverkum gallalaust, og gaman er að muna að Óskarsdúkkan Reese getur stundum verið alvöru leikkona, en hlutverkin bjóða ekki upp á ótrúlega margt. Ray McKinnon og Sam Shepard eru til fyrirmyndar í betur skrifuðum rullum sem gera báðum kleyft að segja svo ótrúlega margt um sínar persónur með mjög litlu. Michael Shannon bregður einnig aðeins fyrir, en lítið, þó alltaf sé betra að hafa hann heldur en ekki ef hann á heima í verkinu. Hann er næstum því gagnslaus hér, en ég nenni ekki að kvarta. Annars mæli ég innilega með honum í Take Shelter, frá einmitt sama leikstjóra.

Það kemur væntanlega ekkert á óvart að Jeff Nichols líti á Mark Twain sem einn af sínum uppáhalds rithöfundum. Áhrifin eru mjög sterk í mynd sem greinilega rýkir mikil umhyggja fyrir, á handritsstigi, í leikstjórninni og vissulega ekki síst gagnvart því að gera gamla heimabæ Nichols sinn að minnisstæðu sögusviði.

Maður spyr sig hvort megi saka myndina fyrir að sýna flestar kvenpersónur myndarinnar (og þær eru ekki nema þrjár!) í fullneikvæðu ljósi. Áhorfandinn skilur samt (eða á að skilja) þær ákvarðanir sem þær taka í stærra samhenginu, þó einhverjir ásaki þetta örugglega sem vægt kvenhatur. Sjálfur túlkaði ég þetta ekki þannig, því sagan heldur mjög sterkum fókus á drengina í forgrunninum en ég get heldur ekki sagt að þessir „einhverjir“ hafi rangt fyrir sér. Skarpari fókus á dömurnar hefði hugsanlega eitthvað hjálpað en myndin er þegar nógu lengi að líða og kemur því helsta til skila sem hún ætlar sér, sem er m.a. að stinga svolítið vel í pælinguna um „sanna ást,“ eða a.m.k. hvernig fjórtán ára krúttsnáði ímyndar sér hugtakið.

Mud er ekki eina myndin á árinu til að vekja upp ákveðna strauma frá Stand By Me (hin er The Kings of Summer) en hún er allavega betri myndin. Hún er hljóðlát og teygir stöku sinnum á þessum hágæðalopa en rólegi tónninn vinnur sömuleiðis þvílíkt vel með efninu á öðrum stöðum. Þetta er ekki besta eða ófyrirsjáanlegasta mynd leikstjórans (þó betri útgáfa af Huck Finn hefur þannig séð aldrei verið kvikmynduð) en jarðbundin, manneskjuleg, lúmskt grípandi og eftirminnileg er hún.  Fullt af fólki skilur ábyggilega ekkert í hæpinu í kringum hana en ég mæli hjartanlega með henni fyrir unnendur góðra, einfaldra mynda með örlitlu biti í sér.

atta

Besta senan:
Búmm-skotið.

2 athugasemdir við “Mud

  1. Þarna hefurðu rangt fyrir þér, Tommi. Skekkjan í tanngarðinum gerir gæjann bara sætari fyrir þennan snáða.

  2. þætti vænt um að sjá þessa sömu skekkju í The Wolf of Wall Street og sjá hversu langt hann nær að bera Texas-sjarmann.

    Kannski er frekjuskarð málið næst.

Sammála/ósammála?