Blue Jasmine

Hér eru þrjár staðreyndir um margar Woody Allen-myndir: Það er mikið af framhjáhöldum í þeim, fólk heilsast óvenju mikið og að meðaltali eru flestar þeirra ekki nema „fínar.“ Skiljanleg niðurstaða svosem þegar einn kvikmyndagerðamaður skóflar stöðugt út árlegum myndum.

Ekki veit ég hversu langt Allen á eftir en mikið er ég alltaf feginn þegar stutt líður á milli almennilega góðu myndanna hans, þessara sem hafa kramið sér á milli hinna djöfull ómerkilegu – eins og From Rome with Love sem kom í fyrra. Þar áður var Midnight in Paris seinasta perlan og hún var með þeim skemmtilegri og ljúfari frá þeim gamla í mörg, mörg ár. Bókstaflega fór hún á staði sem maður bjóst aldrei við en Blue Jasmine er aftur á móti best heppnaða alvarlega myndin frá honum í u.þ.b. 8 ár og gæti vel verið ein af hans 10 bestu myndum, af rúmlega 40. En auðvitað er sú fullyrðing þýðingalaus hjá þeim sem hafa lítið myndað tengsl við Allen-myndir.

Langflestir gæðapunktarnir koma (kannski óhjákvæmilega?) frá Cate Blanchett. Að auki er handritið frábært og gaman er að sjá þægilega öðruvísi tökutakta hjá Woody eftir að ganga oftast í sömu skóm. Blanchett hefur annars reglulega haldið þeirri venju uppi að sýna manni annað slagið hversu hæf og æðisleg hún er, enda oftast verið með vit á handritsvali. Hún leikur sér snilldarlega að besta efninu sem hún fær og virðistsem Woody hefur vandað sig og komið sér í betri gírinn þegar hann skrifaði þessa persónu sem hún leikur. Eitthvað elska ég líka við tvöföldu merkingar titilsins, eins og hvernig hann stafar út andlega ástandið hjá hinni flóðgölluðu Jasmine.

Síðast þegar Woody leyfði aðeins einum leikara að dóminera svona mikið skjáinn, með viðveru sem reyndi á ákveðnar taugar, var þegar Larry David gekk alla leið með fýlupúkann sinn í Whatever Works. Jasmine er hins vegar með þrívíðari, sorglegri og athyglisverðari persónum sem Allen hefur skrifað í áratugi. Ef pissudúkkan Penélope Cruz komst upp með það að vinna heilan Óskar fyrir eina allra ofmetnustu mynd leikstjórans þá á Cate allra minnsta kosti skilið eina tilnefningu á næsta ári. Jasmine er ein af þessum lagskiptu persónum sem krefjandi er að líka við en ómögulega hægt að vorkenna ekki. Prófíllinn er afskaplega breiður og leikkonan slær á kómískar nótur jafnt og dramatískar.

Líkja má Jasmine við stórt vodka-gleypandi ílát af ósorteruðum vandamálum. Að vera þröngsýn, tillitslaus og ofdekruð taugahrúga gerir málin ekkert skárri þegar grimm sjálfsblekking og hátt hrap á botninn bætist við. Jasmine er erfið, ekki alfarið vonlaus, en umfram allt áhugaverð, trúverðug týpa og handritið gætir sín á því að breyta henni aldrei í einvíða truntu, og það hjálpar að sýna mismunandi hliðar hennar með frásögn sem gerist á sitthvorri tímalínunni. Blanchett geislar óaðfinnanlega út, oft í óslitnum tökum, en nýtur góðs stuðnings úr öllum áttum. Í þessari sögu skiptir líka skelfilega miklu máli að aðrar persónur skilji eitthvað eftir sig, svo maður sitji ekki eingöngu uppi með elítistafantinn sem gerir allt verra í kringum sig.

Þó Blanchett eigni sér allt sem hægt er að brennimerkja sig með í þessari mynd þá vil ég ekki taka það frá aukaleikurunum hvað þeir bæta miklu við. Sally Hawkins er t.a.m. virkilega sterk í hlutverki yngri, tífalt sjálfstæðari systur Jasmine. Dice-maðurinn Clay, í sinni fyrstu bíómynd í rúman áratug, er líka ómissandi sem maðurinn hennar og eðlilega meira tónaður niður heldur en ég vandist honum í æsku. Ég hef heldur nákvæmlega ekkert nema über pósitíft að segja um Bobby Cannavale, Peter Sarsgaard og ávallt er hressandi að sjá Alec Baldwin, Louis C.K. og Michael Stuhlbarg. Eins og gerist oft í Woody Allen-myndum eru sumir viðstaddir eingöngu upp á puntið og leikararnir eru í rauninni mun betri heldur en flest aukahlutverkin bjóða upp á.

Það helsta sem hefði betur mátt laga í flæðinu eru skiptingarnar á milli atriða í nútímanum og „flassbökkum.“ Allen gæti hafa rótað aðeins í tímalínunni til að forðast meiri samanburð við ódauðlegu sögu Tennesse Williams, A Streetcar Named Desire, því Woody sækir ekki bara innblástur í þá sögu, heldur langstærsta hluta hennar og beinagrind, en gerir það aftur á móti svo vel og hleður Blue Jasmine sínum eigin einkennum á móti. Það sést líka á stílnum að Woody hafi fundið aðeins dýpri listamann í sér heldur en flest öll árin. Að fráskildu efninu er þetta þriðja myndin hans sem leyfir sér að nýta breiðtjaldsformið til fulls (s.s. 2:35:1 – hinar sem notuðu þetta aspect ratio voru Anything Else og Manhattan) og niðurstaðan leyfir myndinni að standa aðeins út úr þessum einstaklega langa lista af titlum sem Woody hefur safnað sér.

Ég vildi eiginlega óska þess að leikstjórinn myndi láta volgu verkefnin sín í friði, taka oftar sinn tíma – svona síðustu árin – og frekar gera fleiri í líkingu við þessa mynd, með húmor í alvarleikanum. Hún situr a.m.k. eftir í minninu og verður betri fyrir vikið.

atta

Besta senan:
Sú síðasta.
Elska þegar það gerist.

Sammála/ósammála?