A Perfect Getaway

(ATH. Þessi umfjöllun inniheldur létta spoilera. Ekkert grafalvarlegt en gæti eyðilagt hina „hreinu“ upplifun)

A Perfect Getaway lítur út í fyrstu fyrir að vera klisjukenndur spennuþriller sem gerir lítið annað en að kynna persónur til leiks áður en stanslaus eltingarleikur fer í gang. Kom síðar í ljós að myndin er bara nákvæmlega þannig en samt er hún miklu lúmskari en mætti halda. Handritið – sem vitnar reglulega í alls konar spennumyndaformúlur – er fullkomlega meðvitað um það frá fyrstu mínútu hvað sagan er hefðbundin, og það fílar hún, og ég.

David Twohy (The Arrival, Below og Riddick-myndirnar) hefur alltaf haldið sig við ákveðnar formúlur en bragðbætir þær yfirleitt með nægilegum smotteríum til að blekkja væntingar þeirra sem horfa á mikið af bíómyndum. Hér reynir Twohy að gera fyrir „úti-þrillerinn“ það sem t.d. Scream gerði fyrir hryllingsmyndir. Afraksturinn er ekki nærri því eins vel heppnaður, en myndin má eiga það að hún náði að spila svolítið með mig og þegar hún kláraðist var ég bara nokkuð sáttur.

Keyrsla myndarinnar er nokkuð spes. Í næstum því klukkutíma er ekkert merkilegt á seiði og ég var m.a.s. við það að missa áhugann á efninu. Svo allt í einu rýkur myndin af stað á óvenjulegum tímapunkti, botnar bensíngjöfina og þverneitar að hægja á sér það sem eftir er. Það er eins og hún hafi sparað orkuna og ákveðið að taka þennan endasprett með stæl. Lokahlutinn gefur manni líka allt aðra ímynd á þeim fyrri. Þær senur sem virka rosalega ómerkilegar fyrst eru síðan ekki eins tilgangslausar og maður heldur. Twohy leikur sér líka svolítið að persónusköpuninni á nokkuð frumlegan hátt – ekki í fyrsta sinn á hans ferli. Ég taldi það vera nokkuð augljóst hver helstu fórnarlömb myndarinnar eru en síðan er mottunni kippt undan manni og skyndilega byrjar myndin að fjalla um allt aðrar persónur.

Twohy er samt ekki eins sniðugur og hann heldur, því lokafléttan – sem öll myndin snýst í kringum – er alltof fyrirsjáanleg. Kannski er það því gerð er aðeins of áberandi tilraun til þess að hylja yfir hana, sem er ávallt pínu fúlt þegar um svona einfaldan söguþráð er að ræða. Twohy skýtur sig líka í fótinn með því að láta persónur tala um þær formúlur sem hann mun seinna nota eða snúa út úr. Timothy Olyphant minnist til dæmis á plott-twist og „red herring“ blekkingar í bíómyndum, sem er stór feill því það nokkurn veginn auglýsir það sem koma skal. Aðstæður myndarinnar eru einnig svo einfaldar og persónur svo fáar að það gerir það skítlétt fyrir mann að átta sig á hvað gæti gerst.

Þessi galli er samt ekkert til að missa sig yfir, því lokaþriðjungurinn er svo hraðskreiður og klikkaður (fullbúinn manískum klippingarstíl sem kemur alveg upp úr þurru) að maður nær að halda sér í sætinu án þess að iða, þvert öfugt eitthvað. Leikararnir eru líka allir í gírnum (þar á meðal Milla Jovovich, spes) og persónurnar þeirra eru flestar nógu athyglisverðar til að uppfyllingarnar ekki leiðinlegar. Olyphant-urinn stendur samt upp úr sem athyglissjúkur og magnaður senuþjófur.

thessi

Besta senan:
Endakippurinn.

Sammála/ósammála?