127 Hours

127 Hours er önnur myndin frá 2010 sem ég hef séð sem er einungis borin uppi af einni frammistöðu, þar sem ætlast er til þess að áhorfandinn fylgist bara með einum leikara í vægast sagt erfiðum aðstæðum.

Hin myndin er vissulega Buried, en síðan er annar survival-dramatryllir frá sama ári sem spilar með svipuð átök, sem er Frozen. 127 Hours er eiginlega föst (*fliss*) á milli þessara tveggja mynda ef ég ætti að lýsa hversu afmörkuð hún er. Frásögnin er ekki nærri því jafn krefjandi og lokuð og í Buried, en hún hefur heldur ekki jafn margar persónur og Frozen. Kaldhæðnislega er hún líka rétt á milli þeirra í gæðum að mínu mati, en það sem aðskilur hana frá þeim er að hún er ekki þriller, heldur sannsögulegt drama. Og þegar maður hugsar til þess að þetta hafi allt gerst í alvöru verða sumir kaflar ennþá erfiðari til áhorfs.

Danny Boyle, einn besti og fjölbreyttasti leikstjóri samtímans, beinir athygli okkar beint að James Franco út alla myndina (ekki að það sé annað í boði), og Franco nær strax til okkar áður en langt um líður. Þessi leikur er óaðfinnanlegur og það kemur jafnvel á óvart hversu lagskipt frammistaða þetta er, þrátt fyrir ótal takmarkanir og litla hreyfigetu. Boyle er samt ekki alveg jafn djarfur og t.d. leikstjóri Buried (sem yfirgaf aldrei líkkistuna sem Ryan Reynolds lá í) því hann reynir eins og hann mögulega getur til að sjá til þess að okkur leiðist ekki, og þá með eins mörgum brögðum og hann finnur, bæði frásagnarlega séð og sjónrænt séð.

Við fáum hérna flashback-senur, einkennilegar draumasenur, faldar auglýsingar, kvikmyndatöku sem gerir bókstaflega allt sem hún getur til að vera fjölbreytt og síðast en ekki síst ljúft fetish fyrir split-screen skotum til að krydda upp á einfalda innihaldið. Sumt af þessu virkar rosalega vel, enda Boyle þekktur fyrir að nota vélar sínar vel ásamt hæfileika fyrir flottri klippingu og tónlistarnotkun, en annað er kannski aðeins of mikið og á ekki alveg heima þarna. Franco er svo viðkunnanlegur og grípandi með leik sínum að það þurfti í rauninni ekki annað til að fanga áhuga minn. En eitthvað af skrautinu er svosem fínt.

Á yfirborðinu fjallar 127 Hours bara um adrenalínfíkil sem festist í einhverjum kletti. Punktur. Kafið aðeins dýpra og þá sjáið að þetta er grimm saga um lokaðan einfara sem endaði í frekar kaldhæðnislegri stöðu, sem bókstaflega reyndi á lífsviljann. Hann drekkir sér í endurlitum og hefur engan nema sjálfan sig til að tala við (og, tæknilega séð, grjótið – sem er klárlega besta illmenni ársins 2010). Franco er hiklaust heillandi og skemmtilegur, þar að auki svo áhrifaríkt sannfærandi því meira sem örvæntingin vex. Ofan á þetta bætist við einhver sú ógeðfelldasta og erfiðasta sena (þið vitið vel hver!) sem ég hef séð í mörg ár, en bráðnauðsynleg og mögnuð.

Þarna er hér komin uppskrift að virkilega minnisstæðri mynd – um heldur betur kjarkaðan og aðdáunarverðan mann – sem hittir beint til manns. Myndin mætti vera örlítið styttri en hún er samt mikil upplifun, og ég er viss um að allir sem sjá hana munu ganga út af henni nokkuð sáttir með það að vera á lífi. Þeir sem gera það ekki eru líklegast gerðir úr grjóti.

atta

PS. Vel gert af Boyle að nota lag eftir Sigur Rós í lokin. Það er orðið að klisju hvað leikstjórar hlaupa oft til þessarar hljómsveitar til að fá dramatíska áherslu á lokasenurnar þeirra.

Besta senan:
*Skera sker*

Sammála/ósammála?