Trance

Líta má á Trance sem annaðhvort hausverk eða brenglaða bíóvímu. Að mínu mati er hún svo geðveik að hún er næstum því brilliant, í rauninni sú besta frá Danny Boyle í háa herrans tíð, umdeilanlega síðan þessi umræddi herra gerði Trainspotting. Komandi frá miklum Boyle-aðdáanda er það nokkuð mikið sagt en eftir að hafa melt þennan kolruglaða teknó-þriller, sem  ekki er ósanngjarnt að stimpla eins konar hæper nútíma-Vertigo (hugarástand gölluðu „hetjunnar,“ minnisleysisplottið og þráhyggjuþemun innsigla það) finnst mér vera aðeins of margt við hana sem lengi helst í minninu og e.t.v. dáleiðir, eins ódýrt og það kannski hljómar. Segjum frekar að þetta sé andstyggilega töff (og taumlaus) trans, og frábær sem slíkur.

Eitt gláp er fyrir mér alls ekki nóg; þó myndin sé í grunninn einföld, reyndar að mörgu leyti dýptarlaus er hún að sama skapi svo margbrotin í efnisflutningi, lifandi, hlaðin litlum ruglandi blekkingum, vísbendingum og flýtur mestmegnis á einhverju skotheldasta stílrúnki sem tilheyrir þessu ári. Þar innifalið er gjörsamlega meiriháttar soundtrack sem á allan ef ekki gríðarstóran þátt í þessu geðsjúka flæði sem myndin hefur. Þessar 100 mínútur eru alls ekki lengi að líða, heldur ekki svo þegar horft er á hana í annað sinn, þegar nánast önnur upplifun tekur við þegar maður er betur kominn í hausinn á persónunum og markmiðum þeirra frá fyrstu senu, í stað þess að vera stöðugt óviss.

trance-image03
Það er eins og Boyle hafi afhent mér púsluspil með flashy, hráu tónlistarvídeói blastandi í spilun yfir mér allan tímann. Leikstjórinn reynir prakkaralega að grilla höfuðbú áhorfenda sinna án þess að glata þeirri hugsun að myndin snýst fyrst og fremst um mjög sturlaðan ástarþríhyrning, og þ.a.l. skiptir tilfinningalegi faktorinn hjá fólkinu í honum mjög miklu máli, og mikil sál þarna grafin undir. Allur glæpaþráðurinn er meira eða minna aukaatriði. Atburðarásin rígheldur, fyrir utan langsótta lógík á einum eða tveimur stöðum og fjarlægðina sem á til að myndast þegar handrit er svona upptekið við það að vera óútreiknanlegt. Það gengur, og myndinni tókst upphaflega því ætlunarverki að halda mér giskandi og mátulega áttavilltum, og við grandskoðun er lítið verið að svindla sér leiðir. Myndin er mjög samkvæm sjálfri sér og þeim mun meira gefandi sem óvenjulegur þriller (með meiru!) fyrir vikið.

Trance er meira í líkingu við Shallow Grave og jafnvel (hina drulluvanmetnu) A Life Less Ordinary heldur en mest annað tilfinningaþyngra verðlaunaefni sem hann hefur gert síðastliðinn áratug. Þetta kann ég að meta því aldrei hefur hann mætt reyndari að rótum sínum. Músík vídeó-stíllinn er ekki alveg allra og hér gengur Boyle aðeins lengra með hann en venjulega. Það hentar samt einfalda en flækta efninu vel og frá fyrstu mínútu finnur maður fyrir stanslausa taktinum og rennur maður með þessu í nettum heljargreipum. Ég kemst heldur ekki enn yfir það hvað ég er ástfanginn af tónlistinni og púlsinum sem hún gefur helstu senum (sem þegar eru glæsilega skotnar og klipptar). Músíkmaðurinn er hinn sjúklega góði Rick Smith (úr Underworld – sem átti lokalagið flotta í Trainspotting), ásamt gestum, þ.á.m. Moby, sem ætti varla verið sáttari með staðsetninguna á sínu lagi.

Boyle-pakkinn er allur til staðar að frátöldum umbúðunum og það þýðir að hann kreistir út það sem hann getur úr leikurum sínum. Af þeim James McAvoy, Rosario Dawson og Vincent Cassel er McAvoy sá eini sem fær almennilegt hlutverk til að bíta utan um og springa almennilega út í, án þess að hrifsa það frá hinum tveimur hversu sterk þau eru. Þróun hvers og eins gerir það líka að verkum að persónurnar eru allt öðruvísi mótaðar í áliti hjá manni eftir því sem söguþráðurinn opnast meira. Cassel og Dawson eru nokkuð æðisleg og með fingurgómana inni í hverju mómenti. Dawson er sennilega hvað djörfust með sínar augnkætandi full-frontal nektarsenur, en þær þjóna undarlega miklum plott-tilgangi í myndinni. Það er alltaf… plús.

Trance er allavega snjöll og flott og – eitthvað ég greinilega vil segja oftar en einu sinni – virkilega geðveik. Á hjólandi hraða tekst henni að vera dáleiðandi, spennandi, sexí, snarklikkuð, manneskjulega sannleiksrík og huggulega blíð. Eins og ég sagði… 100 mínútur, ekki nema. Fáránlega góður díll. Og þetta sándtrakk…
atta

Besta senan:
Finndu lagið Bullet Cut sem tilheyrir myndinni. Atriðið með því er algjört standout.

Sammála/ósammála?