Don Jon

Joseph Gordon-Levitt, hvílíkur gæi. Enn á ég eftir að hitta þá manneskju sem líkar ekki ósköp vel við þennan fjölhæfa ljúfling sem hefur leikið allt sitt líf og að megnu til átt ekkert nema blússandi feril að baki (að ógleymdum sínum sterka indí-bakgrunni). Vinnumetnaðurinn í honum stefnir sífellt hærra upp, neitandi alfarið að sætta sig við annað. Það sem Don Jon gerir er að marka fyrsta „Ben Affleck-skrefið“ í átt að breiðari möguleikum. Reyndar man ég sjálfur eftir að hafa séð Angels in the Outfield (í bíói! almáttugur…) fyrir löngu þar sem hann lék á móti Tony Danza, sem hann er nú farinn að leikstýra, 19 árum seinna.

Hvað þessa ákveðnu kynslóð varðar slæst JGL endalaust við Ryan Gosling um fjölbreytni, brilliant val á handritum og bræðandi sjarma í minni bók. Don Jon er annars vegar eitthvað það besta sem gat komið fyrir ferilinn hjá dreng… manninum. Hann ber alla þessa þrjá hatta sína (s.s. með því að leikstýra, skrifa og leika) eins og ekkert sé honum eðlilegra. Hann hefur aldrei verið annað en „kommittaður“ drengmaður. Að skrifa heilan karakter fyrir sig er einhver albesta ákvörðun sem hann hefur tekið. Hann þekkir sínar bestu hliðar en kemur líka með einhverjar glænýjar, mjög „röff“ og nett djarfar. Hérna er hann  kominn út í eins konar kómedíu-Shame, jú með meiru.

Samfélagið segir að allt sé gott í hófi en hvorki ég né titlaði Doninn Jon virðumst vera sammála því. Ég díla endalaust við þessa bíófíkn mína en sögupersónan hér er hættulega háð netklámi. Þegar saklaus ávani er orðinn að stjórnlausri þörf er meira gert en sagt að snúa sér frá skjánum. Jon er í kjarna sínum snilldarkarakter sem viljandi lítur út fyrir að vera beint stiginn út af Jersey Shore. Einfaldleiki hans gerir hann magnaðan og takturinn á myndinni kemur því fullkomlega til skila hversu miklum endurtekningum hann er fastur í. Klámfíknin er augljóslega ekki lífsskaðandi vandamál  eins og margt, margt annað; segjum t.d. almenn kynlífsfíkn (eins og ég sagði, „kómedíu-Shame“), og þess vegna tók myndin þá hárréttu ákvörðun að hlæja að þessu vandamáli. Strákar geta hlegið, kannski vandræðalega mikið, vegna þess að þetta er satt og stelpurnar yppa í þá af sömu ástæðu.

Ef endalaust vídeógláp og „netsörf“ getur smátt og smátt haft áhrif á tilfinningalegu samskipti okkar við annað fólk, hvers konar áhrif ætli þá fleiri tugir smella á klámsíðum hafi á einkalífið? Hinn yfirleitt einstæði Don sér enga ástæðu til þess að hugsa um afleiðingar utan íbúðinnar nema þegar kærasta kemur loksins í spilið. Þá gerir tilraun til þess að kanna hvort það að vera á föstu með einni flottustu konu í heiminum minnki þörfina fyrir hlaðborði internetsins. Augað hans lendir á Scarlett Johansson, sem gæti þarna ekki passað betur (og einmitt þegar ég hélt að einn kvenmaður væri ekki nú þegar nógu helvíti laglegur), og Jersey-skinkubeibið sem hún leikur myndar grillheita, gallalausa kemistríu við aðaltöffarann. Hún er að vísu engu skárri en hann, bara á öðruvísi leveli.

Eins og Jon er nú litaður af sandpappírsþunnu og glamúruðu kynlífsímynd klámsins, þá er „tían“ sem Johansson leikur heilaþvegin af rómantískum Hollywood-myndum. Hún gerir ósanngjarnar kröfur til kærasta síns, en hans vandi gerir hlutina augljóslega lítið skárri. Það sem slær mig við þessa pörun er hversu gríðarlega vel JGL tekst að koma með sambandsráð og skilaboð um hlutgervingu kvenna (og karla) inn í flotta, líflega og oft fáránlega fyndna “and-rómantíska” gamandramamynd. Óhefðbundna og með klúrt hjarta.

Gordon-Levitt hugsar með báðum hausum og leyfir sér að vera eins gröðum og einlægum og hann vill (þó mér skilst nú reyndar að myndin hafi verið eitthvað klippt til, eftir að hún var áður afhjúpuð undir nafninu Don Jon’s Addiction). Handritið leikur sér líka svo skemmtilega að þessum raunsæju stereótýpum. Julianne Moore er sú eina sem er ekki á meðal þeirra og í fyrstu er persóna hennar heldur þreytuleg og tímafrek, eða að minnsta kosti þangað til maður fattar hvaða tilgangi hún þjónar. Það gerist sjaldan að maður veit aldrei hvert myndin stefnir en gerist þó nokkrum sinnum. Formúlan er einföld og auðútreiknanleg, eins og sjálfur Jon, en klisjurnar eru oftast látnar vera svo hægt sé að kynna sér þær og gera grín að þeim.

Don-faðirinn Danza stelur klárlega senunni en rétt skarar fram úr frábæru litlu úrvali af leikurum og sérstakt props fer til Anne Hathaway og Channing Tatum fyrir að gefa sinn tíma til að brillera í klisjuparódíu sem Scarlett skælir yfir. Ég man heldur ekki hvenær ég sá seinast mynd með þvílíkan húmor fyrir bíóplakötum.

Almennt tekst Don Jon að ná manni á sitt band, allar þær leiðir sem hún fer, eða þ.e.a.s, þær sem karakterinn fer, því á 90 mínútum hverfur aldrei áhuginn á honum. Mónólógar hans skjóta út sannleikanum og ég sem áhorfandi jánkaði alltaf með þessum faðmanlega aula. Athugavert samt hversu mikil áhersla er lögð á rútínu aðalgæjans en láta svo vinnustaðinn alveg í friði. Ég myndi segja að myndin haltri kannski mest á seinustu 20 mínútunum en aldrei svo mikið að það geri skilin of mikil. Það segir öllu heldur þá bara meira um hve góð hún er út sterkari partinn. Annars bara ánægjulega beitt, skemmtileg og hreinskilin mynd yfir höfuð. Ég tel heldur ekki ólíklegt að margur maðurinn eigi eftir að rjúka beint í „Clear history“ í browsernum að henni lokinni.

attaBesta senan:
Grændið er helber snilld og margar sannleiksbjöllur hringja þegar Don talar um leiðindin við það þegar sést of mikið í „gaurinn“ í kláminu. Gull!

Sammála/ósammála?