This is Sanlitun

Varla er ég eina manneskjan sem líður eins og Ísland hafi bara hreinlega fengið svolítið leið á Róberti Douglas, óvenjulega stutt inn í ferilinn þ.e.a.s. Hann gerði eina ágæta mynd, aðra ágætari, síðan eina fratleiðinlega (sem er ein af tveimur myndum sem ég hef á ævi minni gengið út af). Svo hvarf hann í 8 ár og mín vegna má kameran halda sér í Kína og myndirnar langt frá klakanum ef planið er áfram að endurgera gamla dótið. Ég gæti alveg trúað manninum til þess því hann hefur þegar stolið frá sjálfum sér nógu oft, og þeir tugir þúsunda Íslendinga sem hafa séð hans fyrstu mynd geta sleppt þessari.

Útlendingar eru svosem einnig hvattir til að kíkja á „originalinn“ í staðinn fyrir þessa, þó ég sjái varla fyrir mér hvað þeir hefðu með mynd frá Róberti að gera til að byrja með. Hann er samt örugglega fínn gæi sem greinilega veit hvers konar týpur af myndum hann reynir að gera. Ég kann allavega að meta smekkinn hans út frá þeim erlendu áhrifum sem hann tekur frá.

Kínverski draumurinn ætti myndin frekar að heita, eins hræðilegur titill og það er, en This is Sanlitun er hvort sem er verri titill (sem oft þarf að endurtaka við fólk – það þekki ég af reynslu) sem á sér takmarkaða tengingu við sjálfa myndina. Reyndar gerist nú myndin að mestu leyti í þessum titlaða bæ en lítil tilraun er gerð til þess að gera hann eitthvað minnisstæðan og kemur ekki nafnið upp nema einu sinni. Myndin hefði allt eins bara getað heitið „Svona er Peking“ en sá titill hefði ekki síður virkað sem skyndilausn, sem á líka við um myndina í allri sinni heild. Manneskjuleg er hún en ferlega uppiskroppa með tilfinningar, hnyttni og „nennið.“

Tökum út fótboltann og skiptum honum út fyrir eitthvað annað sem er leikstjóranum víst afar persónulegt (hár), stækkum hlutverk Jóns Gnarrs, breytum öðrum litlum smáatriðum og þá er söguþróunin og tilheyrandi hápunktar eiginlega þeir sömu. Heimildarmyndakeimur Róberts er líka kominn aftur, sem er glatað því þetta fannst mér persónulega draga Drauminn niður. Ég skil pælinguna með þessu en ég sé ekkert nema hálfkláraða reddingu hjá Róberti til að skjóta með einföldum, ódýrum hætti og öll innskotin þar sem karakterar tala beint framan í skjáinn eru lítið annað en tættar leiðir til þess að koma upplýsingum til skila sem handritið hefði getað bjargað með eðlilegri hætti.

Róbert hefur verið duglegur að sérhæfa sig í myndum um aðeins-of-bjartsýna aumingja en þó Sanlitun geti á köflum verið býsna fyndin, þá er varla hægt að sitja í gegnum suman aumingjaskapinn sem hér er dreginn upp. Heilu plottþræðirnir verða til úr alveg hreint óskiljanlegum og hálfvitalegum ákvörðunum sem teknar eru, eins og þær séu þarna til að keyra söguþráðinn áfram frekar en að draga hann liggjandi. Sóst er eftir óhefðbundnum vellíðunarsjarma þegar líður nær lokum en úr þessu verður bara tómt útlendingaprump með raunsæislykt.

Eini „leikarinn“ sem er í rauninni einhvers virði í henni er einhver óreyndur ástrali – sem lítur út eins og bústinn tvífari Jason Biggs – að nafni Christopher Loton. Með steiktum og dauðum flutningi sér hann einn um allar fyndnustu línurnar í myndinni, þannig að hann á í rauninni mest allt kredit sem ég get gefið heildarklabbinu, sérstaklega þar sem hann er titlaður handritshöfundur og væntanlega bjargað sér með miklum spuna. Nokkur Carlos Lottery leikur hins vegar aðalaumingjann í myndinni, og þótti mér mjög sannfærandi sem slíkur, næstum of, en aldrei nógu elskulegur á blaði. Af öllum óspennandi mannskapnum virðist samt fáum leiðast jafnmikið og syni leikstjórans.

Douglas-myndir eru samt alltaf peppaðar trúverðugum hversdagsleika í samspili leikara og áferð. Handritin kortleggja alltaf vissa sögupunkta en vita stundum aldrei hvernig skal stefna að þeim. Sanlitun fellur beint í þann hóp að teygja óspart á fókuslausum atriðum. Annars er einfaldlega klárt mál að þetta sé afar persónulegt en engu að síður tilgangslaust verkefni hjá Róberti. Sanlitun er tekin nánast í bakgarði hans og fjallar myndin um sköllóttan útlending – breta í þessu tilfelli – sem reynir að meika það í Kína og vingast síðan við annan útlending (þ.e. ástralinn) sem hefur búið þar í ágætan tíma. Sést þarna strax að Róbert módelar báðar þessar fígúrur út frá sjálfum sér. Bætist svo að sjálfsögðu við sonurinn og örugglega haugur af kunningjum. Ég skal samt gefa honum það að hafa valið góða tökustaði sem hann hafði örugglega ekki leyfi til að skjóta á.

Burtséð frá umhverfum og slíku er varla hægt að gagnrýna þennan ósamræma, næstum því amatör klippi- og tökustíl (innifalið er dramatískt dolly-skot sem passar engan veginn við rest, og jú, stöðug ofnotkun á „fade out/in“ effektum). Ef fólk kann annars að meta eins og hálfs tíma langt „ekkert“ þá væri þetta afar framandi val. Síðan er stór galli við þessa Woody Allen-strauma sem myndin sækist í að fanga, þetta gerir nefnilega ekkert nema að fá mann til þess að hungra í Allen-mynd í staðinn. Bara einhverja! Sorglegt það.

fjarki

Besta senan:
Chris Loton les upp úr dagbók sinni.

Sammála/ósammála?