Riddick

Þó meirihluta heimsins sé afspyrnusama um það að Riddick sé snúinn aftur eftir tæpa 9 ára fjarveru, þá er það ekki eitthvað sem ég get tekið fyllilega undir. Mestu máli skiptir sennilega að Vin Diesel sé sjálfum ekki sama, og þvert á móti er það akkúrat hans áhugi sem hefur haldið blóðinu í æðum villimannsins. Það að hann skuli veðsetja húsið sitt til að geta bjargað endurkomunni úr fjárhagsveseni er ekki eitthvað sem hvaða leikari sem er myndi sætta sig við. En þótt Diesel sé augljóslega annt um töffara sinn og veröldina í kringum hann finnst mér eins og þessi viðbót gegni merkilega litlum tilgangi í „stærri“ sögunni. En mikið er fínt að heyra manninn urra aftur.

Ef ég læt hugmyndalausa heitið á myndinni í friði, og læt greinilegu takmörk sjálfstæðu framleiðslunnar ekki bögga mig heldur þá finnst mér ekki eins og neinn annar en Diesel hafi reynt eitthvað svakalega á sig. Þar á meðal er leikstjórinn David Twohy og síðast er ég vissi er honum engan veginn sama um þessa seríu. Ég er sáttur með ákvörðunina að gera „framhald“ (í anda) af Pitch Black, hvað einnig stærð og rennsli varðar en skortur á hugmyndaflugi og uppfyllingum – í þráðbeinni tveggja klukkustunda ræmu – er óásættanlega mikill. Að reglulega horfa á Díselinn vera über karlrembulega harður í 120 mínútur er gott og blessað en ekki þegar öll sóðalega heildin verður minna og minna spennandi með hverjum þriðjungi. Var þetta í alvörunni langþráða þriðja myndin sem þeir Twohy vildu gera öll þessi ár eða var bara sætt sig við það sem þeim var gefið?

Myndin er best fyrstu 20-25 mínúturnar þegar hún er sama og þögul, eða lofar a.m.k. fáránlega góðu. Miðjan er fín. Haltrandi en fín. Þeir leikarar sem eru ekki Diesel eru í góðum gír þó flatir séu og húmorinn í kringum þessa períódu er undarlega sterkur. En þegar myndin byrjar að taka sig saman í lokin þá er furðulítið í boði. Lágstemmdi tónninn hefði annars algjörlega verið í lagi ef „stóri“ climax-inn væri ekki svona slappur og óspennandi. Myndin virðist ekki sýna neinum atburðum sérstakan áhuga en samt er eins og hún sé ekkert að flýta sér heldur. Greinilega skiptir innihald litlu máli því eina spurningin sem skiptir máli er: „Finnst ykkur Riddick ekki vera ógeðfellt svalur?!“

Ojú, svalur er hann (eins svalur og nokkur gæi getur orðið sem ber nafnið Richard (Dick?) Riddick), og skemmtilegur, allavega nógu skemmtilegur til að rétt svo bjarga viðburðarlítilli og volgri ræmu. Kannski eru það bara sund(sól-)gleraugun sem gera hann svona töff en ég hef alltaf kunnað lúmskt að meta þennan villimann og Diesel hefur aldrei átt meira heima í einni rullu. Það segir mér reyndar líka að hann hefði átt að bera töluvert betri mynd undir beltinu. Þótt ég kunni að meta tenginguna við Pitch Black – eða öllu heldur pælinguna að hugsa smærra í stað þess að reyna að höfða til of breiðra hópa eins og síðast – þá hefði verið betra múv að fara í einhverjar öðruvísi áttir. Heimurinn býður svo sannarlega upp á það.

Riddick er stolt B-mynd, og heldur utan um þennan „pölpí“ sci-fi anda sem einkennir veröldina og gerir hana spennandi. Twohy er vanalega góður í því að byggja andrúmsloft og peningurinn sem fór í tölvubrellurnar hefur nýst ágætlega. Þær eru ekki alls staðar sannfærandi en tekst fínt að „fela“ þær í stærri atriðum, með aðstoð rigningar og mikils myrkurs.

Ef ekki kemur önnur mynd hefði verið í sjálfu sér betri hugmynd að láta kyrrt liggja eftir The Chronicles of Riddick, sem er að mínu mati pínu vanmetin og epískt skemmtileg camp-steypa – en hún er reyndar gagnslaus ef ekki er gripið í lengri, heilsteyptari og harðari leikstjóraútgáfuna. Riddick er umdeilanlega sísta myndin í „þríleiknum“ og án efa sú hugmyndasnauðasta. Mér líður mér eins og öll myndin hafi verið langt millistopp á milli kaflanna sem skipta í alvörunni máli fyrir aðalkarakterinn. Þetta er létt-brútal og ásættanleg kvöldafþreying en heldur ófullnægjandi á sama tíma. Þetta má samt ekki stoppa hér, því nú eru lausir endar. Mig langar í aðra!
Annar tölvuleikur á pari með Butcher Bay væri gott B-plan.

fin

Besta senan:
Haus í boxi.

PS. (SPOILER – highlight-ið stafina til að sjá)
Slæmt val (!) að setja Matt Nable í hlutverk pabba skíthælsins sem Cole Hauser lék í fyrstu myndinni. Í fyrsta lagi eiga að vera liðin liðin 10 ár á milli mynda, og í öðru er aðeins þriggja ára aldursmunur á milli leikara. Það sést.

Sammála/ósammála?