Rush

Ábyggilega er Ron Howard einn virtasti leikstjórinn í heiminum sem tekur sjaldan eða aldrei áhættu. Ferillinn hans hefur margsinnis blómstrað með því að vera alltaf öruggu megin við mainstream-línuna. Hann er nú sjálfur framleiðandi til margra, margra ára og virðist kunna tökin að ná til breiðra hópa. Að sama skapi þekkir hann svo marga í bransanum að hann tryggir sér alltaf frátekið sæti á Óskarnum, sama hvaða verðlaunabeitu sem hann gerir, þ.e.a.s. þegar hann er ekki að búa til afþreyingu eða sóa tímanum sínum með drasli eins og The Dilemma.

rush-picture10Rush er sannsöguleg „crowd pleaser“ afþreying í Óskarshugleiðingum. Hún fjallar ekki um sport sem er Kananum voðalega kært en tilgangur hennar er hvort eð er að gera kappaksturinn sjálfan að aukaatriði og fjalla meira um keppninautana, þ.e.a.s. James Hunt og Niki Lauda sem saman kepptu um heimsmeistaratitilinn í Formúlunni árið 1976. Fókusinn er á samkeppninni þeirra á milli, gerólíka viðhorfi, metnaði og þessari meintu óvináttu. Tilfinningalega og efnislega er myndin grunn, fullmikið svo til að vera eitthvað stórfengleg en sem afþreying þýtur hún í gegn og er langt frá því að vera áhrifalaus. Hún hefði líklegast ekki getað orðið mikið betri en þetta og það meina ég út frá glory-geiranum sem hún tilheyrir.

Ég kenni líka Hans Zimmer og Anthony Dod Mantle um að gæðastandardinn hækki, aðallega vegna þess að þeir eru orðnir ófærir um að vanda ekki til verka með kraftmikilli tónlist og stílískri myndatöku. Hvort tveggja nýtist myndinni mikið og gefur henni réttu retró-og/nútímaáferð, og ég treysti frekar á að eyra Zimmers og auga Mantles eigi hrósið betur skilið heldur en leikstjórataktar Howards, því vanalega fara þeir beint eftir bókinni. Það sem leikstjórinn gerir hér aftur á móti er að tjúna upp gamlingjaorkuna í sér með þessu flæði og einna helst kappaktursatriðunum. Þau eru kvikmynduð með svo kaótískum hraða og oft óþægindum, þannig gert svo það fari aldrei framhjá áhorfandanum hversu lífshættulega skerí – og spenanndi! – þetta sport er frá sjónarhorni ökumannsins.

Rush-stills-2Áður hef ég sagt að vel heppnaðar sögur um lítilmagna (s.s. underdogs) geta oft verið svo bætandi í sálina, óútskýranlega. Sjaldan er verra en þegar þeir eru tveir en aukakryddið að sinni er að báðir tveir eru sýndir sem meingallaðar „bíódrama-hetjur,“ haldandi í sitthvorn endann á skíthælaprikinu. Yfir höfuð miklir andstæðingar og gætu vart verið meiri andstæður. Hunt er vinsæll, myndarlegur, hrokafullur (ekkert ósvipaður sjálfum þrumuguðinum áður en hann varð ljúfur) og sækist frekar en allt annað í “rösh-ið” og partíathyglina á meðan Lauda er ófríðari, vinafár (sökum þess að vera frekar kaldur og erfiður í samskiptum), einbeittur og drifinn af stórum draumum. Það er ein heldur frábær sena þar sem hann veltir fyrir sér hvort of mikil hamingja dragi úr einbeitingunni á bakvið stýrið.

Mikil einföldun hefur átt sér stað með prófílana hjá þessum mönnum (aldrei að vita samt, því Hunt gekk víst í alvörunni í búning sem á stóð Sex: Breakfast of Champions), en þótt þetta sé augljóslega engin meistarafrásögn má ekki líta framhjá því að Howard spilar nokkuð meistaralega með þann flata einfaldleika sem hann hefur. Báðir Chris Hemsworth og Daniel Brühl gera það líka, Brühl sérstaklega, því hann er í alvörunni að gera eitthvað nýtt við hæfileika sína. Báðir líkjast fyrirmyndum sínum óvenjulega mikið og mynda einkennilegar, skemmtilegar hliðstæður og sögulegt mikilvægi innan Formúlugeirans er hálfgerður bónus ef eitthvað. Ákvörðin að gefa myndinni ört flæði og viðeigandi hraða gerir henni líka kleyft að sleppa allri óþarfri uppfyllingu og ekki síst teygðu melódrama sem hrópar “gemmér verðlaun!”

RUSHEitthvað er vissulega spilað með tilfinningar áhorfandans eins og ofnotaði (en grípandi) sellóhljómurinn sem oft heyrist undir, en ef Howard sjálfur léki á slíkt myndi ég segja að hann væri farinn að mastera og stilla hann betur með aldrinum. Ef hann hefði látið Dilemma alveg eiga sig (aldrei sjá þá mynd. Aldrei!) mætti segja að hann hefði sjaldan verið betri og nýlega. Handritshöfundurinn kemur þar eitthvað inn og trúi ég að Rush hefði orðið að mikilli “flöff” mynd ef maður eins og Peter Morgan sæi ekki um samtölin. Þetta er sá sami og skrifaði The Queen og Frost/Nixon, bæði sviðssýninguna og mynd Howards, sem mér finnst persónulega vera hans besta.

Rush er yfir heildina nokkuð formúlubundin Formúlumynd, hvorki framúrskarandi í skrifum þó skörp sé, né finnur hún upp dekkið en á sinn Hollywood-hátt gengur hún glæsilega upp. Aldrei langdregin, flott unnin, fantavel leikin, fyndin á köflum og leyfir sér sömuleiðis að ganga lengra með aldursstimpilinn en mátti reikna með. Ég bað ekki um fullkomna mynd en fullnægjandi og lífspeppandi hasardrama skal ég algjörlega sætta mig við.

atta

Besta senan:
Lauda og lungað, eða þegar Hunt ræðst á blaðamann.

Ein athugasemd við “Rush

  1. algjörlega sammála.. fannst Chris Hemsworth leika sérstaklega vel í þessarri mynd sem hann hefur ekki verið að gera síðustu dagana (ber að nefna Thor og The Avengers) hann er miklu meiri karakter í þessarri mynd.. Þrusu flott mynd ef maður þekkir söguna á bakvið þessa menn örlítið. Niki Lauda verandi einn af mínum uppáhalds mönnum, þá var gaman að já Bruhl leika þennan karakter og náði því ótrúlega vel

Sammála/ósammála?