Blue is the Warmest Color

Margir munu líta á þessa kvikmynd sem ekkert annað en stefnulaust, þvílíkt langdregið klám (biðjið fyrir ykkur þá þegar Nymphomaniac kemur út) og það að hún sé frönsk virðist lítið stökkva henni til varnar. Ég ætla ekki að segja að þetta fólk hafi rangt fyrir sér – jú, víst! – en ef ekki þá er þetta óvenjulega falleg, snilldarlega leikin, stingandi klámmynd þar sem „söguþráðurinn“ er miklu meira spennandi heldur en nokkurn tímann kynlífið. Ég sé þessa nett-grafísku, þriggja klukkustunda „lessuepík“ sem eina bestu karakterstúdíu, sögu um (fyrstu) ástina og samkynhneigð sem ég hef séð í mörg ár.

Fólk má að vísu lengi deila um hvor titillinn passar betur, en La Vie D’Adèle (Líf Adèle: Kaflar 1&2…)/Blue is the Warmest Color er annars ekki mynd sem óhætt er að mæla með handa hverjum sem er. Það sama mætti segja ef kynlífsatriðin væru ekki einu sinni til staðar í henni, og aðalleikkonurnar mega bóka langt líf í blaðsíðum kvikmyndasögunnar, í það minnsta á klámsíðum eða sem oft skoðaðir fælar inná trilljón strákatölvum. Allt óhjákvæmilegt.

LVA_37Persónulega hef ég út á lítið annað að setja við þessa mynd heldur en nákvæmlega svokallaða klámið í henni, því ljósblá verður hún, í samanlagðar 13 mínútur eða svo, að frátaldri aukanekt. Þegar maður er orðinn fastur í ótrúlega grípandi, náinni, über-raunverulegri, tilfinningaríkri þroska- og ástarsögu þá dettur maður alveg út úr skjánum þegar sjúg-og-sleik sessjónar eru komnir út í aðeins of mikið af því raunverulega.

Ridley Scott sagði þetta eiginlega best sjálfur: “Kynlíf er leiðinlegt nema þú sért sjálfur þátttakandi í því.” Til hvers þurfti Blue að nota t.d. fimmtíu skot af sömu stelpum stynja úr sér vitið þegar helmingi færri rammar hefðu léttilega dugað og komið því sama til skila? Þá í mynd sem er í alvörunni að sækjast eftir hágæðum og nær þeim að almestu. Mér gengur vel í að sannfæra sjálfan mig um það að atriðin þjóna vissum tilgangi en þau draga óþarfa athygli frá öðrum, mikilvægari gæðapunktum við þessa mynd. En annars er hún svo hrikalega löng að þetta týnist allt innan um eitthvað eftirminnilegra. T.a.m. er þetta klárlega ein best leikna myndin sem ég hef hingað til séð á árinu, og það eitt hversu langt stelpurnar leyfa sér að ganga fyrir þessi hlutverk gefur þeim hundrað sinnum fleiri stig fyrir hugrekki sem þær þegar sýna með því að berskjalda sig bæði andlega og líkamlega.

Ég las að leikstjórinn Abdellatif Kechiche, sem einnig framleiðir og skrifar handritið eftir teiknaðri skáldsögu, væri sannkallað eðalfífl og fór samkvæmt sögusögnum ekkert voða kurteisislega með leikkonurnar. Mig hálfpartinn langar ekkert til að gefa honum allt þetta hrós sem hann á skilið eftir sumt sem ég las en finn enga leið hjá því. Þar að auki væri Blue augljóslega ekkert án þeirra Adèle Exarchopoulos og Léu Seydoux (úr Ghost Protocol, muniði?) og þeirra þátttaka nær alveg helmingsvægi á móti leikstjóranum. Óaðfinnanlegar saman, báðar tvær, kemistrían áreynslu- og gallalaus en stærri ábyrgðin hvílir á leikkonunni sem aðalpersónan er nefnd eftir, og óskaplega mikil hetja er hún.

LVA_22Með öllu afli treður Kechiche bókstaflega öllu því mannlega og eðlilega framan í áhorfandann. Leikarar eru myndaðir í miklum nærmyndum, frá kynþokkafullum og heillandi hliðum til hinna talsvert minna fegruðu. Þetta er allt þarna, og beint í fésinu; nektin, m.a.s. átið, gráturinn. Adèle er einmitt mikill stórmeistari í því að væla beint framan í kameruna, ekki með þessum bíómyndalegu sexí-tárum, heldur snýtir hún sér nánast með henni. Aldrei eru tilfinningar kreistar út með dramamúsík, bara brútal einlægni, vandaðri leikstjórn og trúverðugum samræðum sem aldrei virðast vera teknar af blaði. Handrit leikstjórans gefur þessum stíl heilmikla persónulega nánd, jafnvel þótt lopinn sé teygður á fleiri stöðum en bara í rúminu.

Maður finnur fyrir lengdinni en fyrir mitt leyti þótti mér setan aldrei of langdregin. Ég gæti þó aldrei sagt að þetta sé sérlega skemmtileg mynd, en hún hélt mér  við efnið 95% af tímanum og áhrifin hennar eru langvarandi, með hugrænum sorgar- og gleðitárum sem myndast í heilabúinu við tilhugsunina um hana. Tveggja kafla uppbyggingin gerir rennslið þægilegra og þykir mér magnað hvernig allur tilfinningaskalinn hjá krúttinu henni Adèle er dekkaður í gegnum tvær mismunandi sögur á 180 mínútum.

Blue is the Warmest Color er algjört brill, og gerð fyrir áhorfendur sem eiga nokkurn veginn að vita hvað þeir eru að leggja í. Tilfinningarverur sem taka með opnu hugarfari á móti raunveruleikanum á hvíta tjaldinu ættu að kunna að meta hana, ekki síst þeir sem halda mikið upp á kvikmyndir sem breyta áhorfendum í flugu á vegg. Aðrir myndu eflaust draga línuna á svona mynd þó hún væri jafnvel klukkutíma styttri. Svo eru auðvitað þeir sem vilja bara halda sig við “bestu partana” og hafa ekkert með hitt að gera. Ég hvet sem flesta sem hafa náð að klára þessa umfjöllun frá toppi til táar að athuga hvort þeir falli í hinn hópinn og hvort þessi metnaðarfulla litla saga skilji ekki eitthvað eftir sig með margbrotnu rólegheitum sínum.

brill

Besta senan:
Vil’ekki segja, en sagan breytist mjög mikið eftir sterkasta kaflann.

Sammála/ósammála?