Ekki minn leikur

Hæ, ég heiti Tommi og ég fæ ekkert út úr því að horfa á íþróttir …

Við erum öll bara samansafn af því sem við höfum upplifað, lært, gert, feilað á og notið, ekki satt? (þetta er tekið úr Trance, btw). Hvernig ég persónulega upplifi þá tilfinningu að sitja yfir fótboltaleik (svo eitthvað sé nefnt) er allt öðruvísi en kannski algengt er í kringum mig, sérstaklega á svona litlu landi. Ég hef sannarlega fundið fyrir því.

Án þess að nota það til samanburðar þá get ég rökstutt það í botn hvers vegna ég tel kvikmyndir æðsta miðilinn en það kostulega við heiminn er hvort sem er sú staðreynd að ekki eru allir eins og ég, og fyrir það er ég ævintýralega þakklátur.

Það sem mig langar til að hella út úr mér minnir mig í raun á frekar bragðlausan en sannleiksríkan brandara:
Par nokkurt var að horfa saman á sápuóperu í sjónvarpinu. Maðurinn var orðinn ansi pirraður á því hvernig konan gat tekið atburði sápunnar svona nærri sér.
-Hvernig geturðu setið hér og grátið yfir gervivandamálum fólks sem þú hefur aldrei hitt?
-Á sama hátt og þú getur hoppað upp og öskrað þegar einhver gaur sem þú þekkir ekki neitt skorar mark!

Jebb, satt, en þetta stóra hvernig er auðvitað það sem öllu máli skiptir.

Kvikmyndir hafa fyrir mér valdið til þess að breyta því hvernig við hugsum og eins er þetta magnaðasta leiðin til að toga fólk bæði úr raunveruleikanum, betur inn í hann, varpa ljósi á mikilvæg málefni og skilaboð, og því bitastæða, því betur geymist það í kollinum.

Vissulega geta þær einnig gert okkur heimskari, í vissum skömmtum en skyndibitar eru hvort eð er alltaf kærkomnir annað slagið. Hver einstaklingur metur sinn fullnægjandi skammt. Að geta átt reglulega kost á því að taka heilann með og skilja hann eftir heima er ógurlega ljúft.

Svo ég komi mér að punktinum þá hefur mitt áhugasvið, minningarnar þar í kring og væmnu tilfinningaböndin, sjaldan verið á boltaleikjum og þar af leiðandi skortir mig þessa bólu. Þjóðarstoltið í mér er líka eitthvað sem ég þarf að laga. Talandi sem hálfur útlendingur þá stimplaði ég mig alveg út úr íþróttum þegar kom einhvern tímann að því að sjá Ísland keppa við Ítalíu, því þá leið mér eins og ég væri með klofinn þjóðernispersónuleika að skylmast.

Aftur á móti finnst mér alltaf gaman að henda mér út á einhvern ljótan völl með sveittum félögum og er ég almennt bundinn þeirri hugsun að ánægjulegra sé að spila en að glápa. Þetta á líka við um allt innan svefnherbergisveggja og bílhurða. Þegar ég horfi á flesta íþróttaleiki finnst mér ég sjá aldrei mikið meira en þetta.

Ég er löngu orðinn vanur þessum fasta svip sem ég fæ alltaf þegar ég svara sömu spurningunni með sama svari: „hvaða leik?“ en á móti er ég orðinn betur staddur í því að stúdera viðbrögð sums fólks (til að athuga hvenær ég týni því) þegar ég útskýri hvað „aspect ratio“ þýðir. Óneitanlega er þó gaman að sjá hvað íþróttahobbíið á auðvelt með að peppa upp hina svörtustu daga hjá mörgum nánustu félögum mínum og það yljar mér í sálinni pínulítið. Ég deili því með þeim, bara á minn hátt. Það er æði.

Sammála/ósammála?