Prisoners

Fólk sem kann gott að meta held ég að eigi afskaplega auðvelt með að festast í Prisoners. Umfjöllunarefni hennar er spennandi og kafar djúpt út í móralskar flækjur með kuldalegum en ávallt áhugaverðum hætti og óaðfinnanlegum leik í þokkabót. Lagskipta handritið heldur heilanum oft giskandi, rassgatinu föstu við rangan enda sætis og spyr áhorfandann reglulega sömu spurninguna: hvað myndir ÞÚ gera?

Það er voðalegur júró-þriller tónn á þessu en ríkjandi David Fincher-andi líka, en það er meira hrós til afbragðsleikstjórnar og andrúmslofts sem innsiglar öll óþægindi og gerir það léttar að sogast inn í myndina og rúlla með dekkri stefnum hennar. Í þokkabót missir hún lítið dampinn, sem er aldrei verra þegar lengdin er komin upp í rétt rúmlega tvo og hálfan tíma.

pris

Prisoners heldur manni að alflestu leyti í myrkrinu. Sumar flétturnar eru gegnsærri en aðrar en sagan gengur hvort eð er frekar út á andlega ruglinginn heldur en plottið. Myndin er eiginlega barnasporum frá því að vera meistaraverk á meðan stefnurnar eru óvissar; þá er hún mest kröftug, grípandi og viðeigandi grimm. Sem dyggur unnandi hægfara dökkra gæðamynda er hún nánast allt sem hægt er að biðja um. Síðan koma svörin og þá er klessandi realisminn kominn í skottið og tekur þá við eitthvað sem hallast meira að þessari “týpísku” krimmasögu, og lausnir detta úr hinum furðulegustu áttum á því bili og jafnvel töluvert fyrr. Aðeins þessi vandamál hindra æðra stig því þetta er svolítið úr takt við það sem byggt var upp áður.

Raunsæið í myndinni á að vera svo þungt að ofurpabbataktíkin hjá Hugh Jackman í sögunni á sér mjög ljótar og eðlilegar afleiðingar. Hann er ekki alveg þessi dæmigerði bíópabbi í leit að týndri dóttur sinni og dansar hann svo sterkt á “vondu” línunni eftir að hafa verið stilltur upp sem eins sympatísk fígúra og getur hugsast. Stefnurnar sem hann tekur eru á tíðum sjokkerandi en þróunin er svo sóðalega trúverðug. Áhorfandinn missir sjaldan skilning á þeim drastísku ákvörðunum sem hann tekur, þó hann sé ekki endilega sammála þeim. Svona martraðarkennd blanda af sorg og óvissu getur augljóslega fokkað allsvakalega í manndýrinu og foreldraeðli þess.

Jackman getur léttilega sett Prisoners á listann með The Fountain og Ley Mis (kannski Kate & Leopold?) yfir kröftugustu tilþrifin sem hann hefur sýnt á bíótjaldinu. Líklegast hefur hann aldrei verið betri eða í það minnsta athyglisverðari sem persóna en finnst mér samt Jake Gyllenhaal bera af og eiga myndina. Hann virðist vera þangað kominn að geta ekki staðið sig illa í neinu, í svefni þess vegna.

Eins og áður nefndi er í rauninni ekkert sem ég get sett út á í tengslum við leikin og það er eðalkostur þegar hlutverkavalið er svona gallalaust og allir grafnir inn í sitt móment. Það veltur eiginlega mest á karakterunum hversu föstum tökum þeir halda manni og þar koma í sjálfu sér bara Jackman og Gyllenhaal til greina, en lágstemmda persónubreytingin sem Jake gengur í gegnum er trúlega einn besti faktorinn við myndina, eða að minnsta kosti hvernig hann selur hana. Agalega vorkenni ég samt boxpúðanum Paul Dano, fyrir að vera stöðugt fastur í því að leika sjúkt pirrandi fífl eða varnarlausan aumingja – og öfugt. Það þarf þó alltaf einhver að brillera í þessu, og það gerir hann.

Það hversu vel leikstjórinn stendur sig segir allt um hversu sama manni getur verið þegar manni finnst maður hafa séð þetta mest allt áður. Gyllenhaal-karakterinn vekur vissulega upp mestu Zodiac-straumana en koma í staðinn áhrif frá tveimur öðrum Fincher-myndum líka, önnur ný, hin talsvert eldri. Pyntingartaktar Jackmans vekja upp (að mínu mati betur) nokkrar realískar slettur úr Zero Dark Thirty, þessar klassísku siðferðisflækjur ef misþyrming í garð óvinarins á að leiða til einhvers góðs á endanum. Allir sem sáu hollenska tryllinn Spoorloos (sem seinna var endurgerð sem hin glataða The Vanishing, m. Jeff Bridges) ættu að fá gott endurlit á hana einnig.

Það að finna ferska, gallalausa og almennilega spennandi mynd í þessum dúr er fágætt, en Prisoners er að öllum líkindum sú traustasta síðan kóreska brenglunin I Saw the Devil kom út. Kvikmyndataka Roger Deakins er – eins og alltaf – mögnuð og hver sem þessi Jóhann Jóhannsson er virðist hiklaust snúa áhorfandanum upp á sinn fingur með drungalegu og gæsahúðarvekjandi score-i.  Endaspretturinn, eða skriðið réttara sagt, er samt heldur aumt og að auki fremur snyrtilegt miðað við gjöðveika tilfinningarússíbanann sem á undan kom. En að frátaldri allri neikvæðni er þetta ein af toppmyndum ársins og má helst ekki missa af henni.

atta
Besta senan:
Það eru aðrar, en ég verð samt að segja tómaturinn.

Ein athugasemd við “Prisoners

Sammála/ósammála?