Gravity

Það er svosem ekkert nýtt að búa til mynd um lífsbaráttu í óhugnanlegum aðstæðum, en hvernig Alfonso Cuarón kvikmyndar sína geimsögu er ekki aðeins nýtt heldur árum á undan sinni samtíð. Það er eins og hann hafi horft á myndir eins og Buried, Frozen (’10) og 127 Hours og hugsað með sér: „Þetta er alltílæ, en helvíti skal ég toppa þetta…“

Cuarón er einn af þessum fáeinu meistörum sem mikið hugsar í táknmyndum, óhefðbundnum lausnum og hefur listræna smámunasemin hans hefur klárlega aukist til hins betra með aldrinum. Með Gravity kom varla annað til greina miðað við margslungnu og sjónrænt séð byltingarkenndu framleiðsluna, og hver einasti einstaklingur sem kom að henni getur borið höfuðið örlítið hærra í faginu sínu. Hún er alveg búin að planta flaggi sínu sem fyrirmynd um það sem framtíð kvikmyndagerðar getur boðið upp á.

Seint mun ég gleyma ég þessari yfirþyrmandi gæsahúð sem ég fékk yfir Gravity þ.s. þetta  er greinilega eitthvað það svakalegasta sem hefur komið í bíó síðustu árin. Dettur mér nokkrar lýsingar í hug; vísindatryllir (bara „sæ,“ ekkert „fæ“), ferðalag, rússíbani, tilfinningarússíbani, metafóra, martröð, tæknilegt og sjónrænt undur, sem eitt og sér gerir hana að stórmerkilegu skylduáhorfi. Bíónördar geta eitt skiptið enn hneigt sig fyrir þessum tryllta mexíkanaleikstjóra, og snargeðveika kamerumanninum hans.

Cuarón krefst þess að myndarinnar sé ekki notið öðruvísi en á stærsta skjánum sem er í boði, og í 3D. Þar að auki hefur hann sagt að tvívíddarútgáfan veiti þér ekki nema 20% af tilfinningunni sem ætlast er til að fólk fái, en ég er ekki sammála því. Myndi ég horfa á Gravity á spjaldtölvu fengi ég samt eitthvað af “vá” tilfinningunni en augljóslega ekki alla, því útlitslega er hún til fyrirmyndar og meira, en flytur þig tvímælalaust á staðinn þegar ramminn teygir sig yfir allan sjóndeildarhringinn þinn.

gravityMyndatakan er ótrúleg! Enginn er eins góður í því að gera óbrotin, löng, fáránlega flókin skot og Cuarón þegar hinn ómissandi Emmanuel Lubezki er við hans hlið, og að þessu sinni flakka óslitin skot úr fyrstu persónu yfir í þriðju persónu eins og ekkert sé sjálfsagðara. Gravity, á 90 mínútum, er ekki sett saman úr nema einhverjum 156 skotum eða svo (og opnar á einni ROSALEGRI 13 mínútna lengju), og með því að brjóta skotin svona lítið upp er oft eins og kameran sé sjálf svífandi með í þyngdarleysinu. Þetta gefur myndinni ofsalega fljótandi, grípandi flæði og stíllinn veldur bæði hnúti í maga og kemur manni beint upp við andlitið á einu manneskjunni sem fær það erfiða djobb að halda myndinni á lofti með erfiðri frammistöðu, í mynd sem augljóslega hefur ekki verið auðvelt að gera, hvað þá í löngum tökum. Það besta sem hægt er að biðja um í svona „litlu“ sjónarspili er sterk, dramatísk tenging við mannlega eðlið, og Sandra Bullock sér að megnu til um þá tengingu.

Óskarinn hljóp aldeilis á sér þegar konan fékk heldur óverðskuldaða styttu fyrir The Blind Side. Helst ætti hún bara að skipta henni út fyrir grip sem væri þá núna merktur helmingi betri mynd. Hún hellir sig alveg út andlega. Það er stór pöntun þegar persónan er viðkvæm, í ógeðfelldri dauðahættu við hvert horn í átt að kalda, stjörnuprýdda tómarúminu sem umkringir hana. Harmleikurinn í sögunni er hvernig persóna hennar var þegar farin að missa tök á því að lifa lífi sínu er feisuð við það að þurfa að grafa eftir styrk sem hún vissi ekki að hún hafði.

Sandra kemur sér á myrka staði í hausnum og áhorfandinn sýnir henni linnulaust stuðning í átakanlegri hræðslubaráttu. Maður kippist til ef eitthvað klessir á hana, spennist upp ef hún sleppir óvart taki á einhverju og finnur almennt óþægilega til með henni í gegnum allar hindranir. Leikkonan tapar aldrei einbeitingunni en gengur einu sinni eða tvisvar yfir ofleiksmörkin, ekkert of alvarlega þó. Fyrir minn smekk þykir mér hún líka aðeins of slétt og bótoxuð til að nota allt andlitið í pressandi nærmyndum (og þetta dregur aðeins úr „hversdagsleikanum“ hennar fyrir mér) en tekur sig hins vegar frábærlega út í lausu lofti á nærfötunum.

George Clooney hefur ávallt verið góður að losa sig við stjörnuglamúrinn sinn en ekki þennan venjubundna sjarma sem honum fylgir. Hans tími er ekkert gríðarlega mikill en nógu vel nýttur. Fyrir utan Gogga er geimumhverfið í allri sinni dýrð og tilheyrandi útsýni sem er í aukahlutverkinu á móti Söndru. Með jörðina annað slagið í bakgrunninum blasir svo alltaf við manni stærðin og þ.a.l. þessi hugsun hvað við erum heimskulega smá úti í hinum mikla alheimi í kring. Tónlistin frá Steven Price (The World’s End) og hljóðvinnslan yfir höfuð þjónar einnig stórfenglegri rullu og víkkar út speisið á sinn hátt.

Annað en útlitið þá er handritið ekki alveg flekklaust, örugglega í ljósi þess að Gravity er meira beinskeyttur survival-þriller heldur en nokkurn tímann djúp karakterstúdía á manneskju sem tekur tómlega lífi sínu sem sjálfsagðan hlut og er í hættu á að tapa því. Það eru nokkur raunsæisbrot sem reyna á þunga trúverðugleikann þó allan tímann sé sannfærandi veruleikatenging í „andrúmsloftinu.“ Skal eiginlega bara orða það þannig að Sandra er ekkert sjaldnar óheppin í þessari mynd heldur en hún er heppin, og þá fer heilinn að pæla: ókei… hentugt.

Ég tek annars vegar lógíksvindlin betur í sátt þegar ég lít yfir heildina í stærra samhenginu. Burtséð frá þunga symbolismanum gengur Gravity út á það að flytja þig bókstaflega út fyrir heiminn í hálfan annan tíma, grípa þig föstum tökum frá byrjun til enda, hrista þig til, hræða, sjokkera eitthvað og tala til þín í millitíðinni með vonir um að þú verðir sáttari að vera á lífi eftirá. Einnig er ljúft að geta lesið í myndrænu líkingarnar sem Cuarón fyllir rammana með, sumt á mörkum þess að vera yfirdrifið en vanalega guðdómlega fallegt og layerað. Ég get ekki sagt að Gravity sé eins gefandi fyrir sálina og t.d. Children of Men, sem verður líklega alltaf besta mynd leikstjórans, en það er varla hægt að finna betri, meira spennandi eða sannfærandi bíógeimferð í þriller- eða þrívíddarformi.

brill

Cuarón er sömuleiðis kominn í fárra manna hóp sem skilja hvernig skal notast við þrívíddina sem „tól,“ til að styrkja góða frásögn. Helst eru það leikstjórarnir sem eiga að taka frumkvæðið með þrvíddina, ekki framleiðendur. Þetta er sú allra flottasta sem ég hef séð hingað til. Bless að sinni, Avatar.

Besta senan:
Get ekki valið, nú leggst ég í fóstursstellingu – í miðju lofti.

Ein athugasemd við “Gravity

  1. algjörlega frábær mynd! í alla staði.. ég var alveg að missa það úr spenningi og lotningu yfir þessu

Sammála/ósammála?