Insidious: Chapter 2

Vonbrigði eru óhjákvæmileg þegar virkilega traust hrollvekja hefur getið af sér framhaldsmynd – eða óþarfa „framlengingarmynd“, eins og tilfellið er hér – en einhvern veginn vonaðist ég til þess að James Wan yrði frávikið að þessu sinni.

Þegar hrollvekja finnur sér aðdáendahóp er yfirleitt hefðin sú að skipta út lykilaðstandendum fyrri myndarinnar þegar stefnt er á nýtt eintak. Heldur má ekki gleyma þeirri hefð að vinsælt (og æskilegt, að mati framleiðanda) þykir að óbeint endurgera alla fyrri myndina og tóna allan metnað og áhuga niður í mínus. Skringilega vill svo til að raunin er alls ekki þannig hér; myndin er gerð af sama fólki, hún lendir ekki í gildrunni að kópera gamla plottið, allir gömlu leikararnir snúa aftur og sýnist mér ekki betur en að mikill áhugi hafi verið fyrir þessum kafla. En áhuginn er ekki alltaf nóg þó hann dragi á eftir sér ýmis góðvildarstig sem sýna að þetta snérist um það að vilja halda áfram í stað þess að sækjast beint í peningana.

Leikstjórinn og handritshöfundurinn (þ.e. Leigh Whannell – sem leikur í báðum myndum) vilja meina að hitt hafi bara verið forsmekkurinn og að nú sé fjörið komið í gang. Eitthvað er kannski til í því en áherslurnar hafa breyst, vinnubrögðin hrörnað óskaplega og stefnurnar orðnar bjánalegri. Sú fyrri var aldrei eitthvað meistaraverk en sem hrollvekja sló hún fyrir mér á flestar réttu nóturnar og gerði a.m.k. eitthvað spennandi.

Insidious: Chapter 2 er helslöpp en ekki alveg ónothæf. Það skrýtna finnst mér að myndin virðist algjörlega fara í sínar eigin áttir, til að aðskilja sig betur frá þeirri fyrri (hún var meira (ó)dæmigerð “draugahússmynd” á meðan þessi er komin út í yfirnáttúrulegra “pabbi-er-orðinn-klikk!” þema) en festist samt í öllum leiðinlegu gildrunum sem lélegar framhaldsmyndir gera oft, og meira til. Í fyrsta lagi er leikstjórinn búinn með helstu brögðin sín og reiðir skuggalega oft á endurtekningar, bregður og yfir höfuð mjólkar til blóðs bestu trikkin sem fóru í hina myndina.

Wan kunni betur hræra í væntingum áhorfandans fyrir tveimur árum en fór síðan aðeins hefðbundnari leiðir með The Conjuring (sem kom ekki út nema rúmum mánuði á undan þessari mynd!). Nú er þessi leikstjóri – sem í mínum huga mun alltaf líta út og hljóma eins og hann eigi heima í kínveskri drengjahljómsveit – kominn hringinn og orðinn fyrirsjáanlegur, þó svo að hann reynir greinilega að vera það ekki. Skrækjandi músík-tónarnir, klikkuðu kamerubrögðin og myrka, auða rýmið er alfarið hætt að virka á mig þegar þetta var betur gert fyrr, og vissulega í mynd sem er töluvert betur heppnuð og notaði gimmick-in meira sparlega. Ef eitthvað finnst mér húmorinn ganga betur upp í þessari heldur en allt hitt, þó útlit og sviðsmyndahönnun sé ennþá óneitanlega töff.

IL1A2907.CR2

Chapter 2 finnst mér síður vera úthugsuð kvikmynd og virkar frekar eins og útteygð framlenging sem flæðir sömuleiðis furðulega sökum innihaldsleysis. Það er svosem nóg um að vera; dauðir punktar eru fáir og seinni helmingurinn losar rækilega um sig en sálin er hvergi og persónufókus er í ruglinu. Þessi kafli drýgir líka þá dauðasynd að reyna að sýna forveranum virðingu með því að róta í honum og víkka út söguna en endar á því að eyða megninu af dulúðinni á bakvið hana, spúndra sniðugum hugmyndum, útskýra sumt alltof mikið, annað sama og ekkert (hvað varð um Darth Maul-demóninn?!) og þar af leiðandi (*dæs*) eyðileggja hana smávegis. Hata þegar það gerist. Nýja myndin er ekki einu sinni ÞAÐ mikið sorp. Hún fer bara vitlaust að mörgu.

Næst þegar ég horfi á Insidious, hvenær sem það verður, mun ég reyna mitt besta til að skrúfa fyrir minningarnar af öðrum kaflanum. Það er of margt jákvætt í honum til að skila af sér sæmilega fríkaðri draugaupplifun og það er aldrei sjálfsagt í þessum geira að leikararnir líti út eins og þeir séu almennilega að nenna þessu, en hér virðist svo vera. Nýju andlitin eru annars vegar ekkert spes og í hvert sinn sem sagan reynir að gramsa í fortíðinni tapar myndin öllum alvarleika sínum með campy-hallærisleika, sem gerist nógu oft þegar. Hrikalega var það vont skref að láta Lin Shaye döbba yngri útgáfuna af sjálfri sér, jæks.

Kannski er það bara fínt eftir allt saman að Wan hafi ákveðið að láta horror-geirann eiga sig í framtíðinni. Ég geri þó ekki ráð fyrir að allir Insidious-aðdáendur séu álíka kröfuharðir og ég enda mynd sem ég álit aðeins meira en bara gott fjör í myrkri. Viðkvæmustu taugarnar munu fá allt sem þær sækjast eftir úr Chapter 2, svo framarlega sem það sé ekki góð mynd. Hún telur sig bæta svo miklu við fyrri kaflann en bætir samt einhvern veginn engu merkilegu við þegar upp er staðið og þess vegna ranghvolfi ég augunum yfir tilhugsuninni að þriðja myndin sé komin í vinnslu.

fjarkiBesta senan:
Barnaherbergið læsist. Svona shit-just-got-real móment.

6 athugasemdir við “Insidious: Chapter 2

 1. Hún var ekki svona slæm, hélt mér allavega alla myndina þar sem ég gat ekki beðið eftir að komast heim því ég var örlítið hrædd og ég er þaulvön hryllingsmyndum. Þarf mikið til að hræða mig og þessari tókst það!

 2. Pff… Til hvers vera örlítið hræddur þegar maður vill vera SKÍThræddur :D ?

  Annars er ég nokkurn veginn sammála en sat samt að mestu svona:

  http://i.imgur.com/qh14c.gif

  Insidious 2 fer eftir mjöööög reglubundinni uppskrift (*trítl, trítl, trítl* HÁVAÐI!) og um leið og maður tekur eftir henni þá er eiginlega myndin ónýt fyrir manni. Leikstjórinn byrjaði að nota þessa taktík í Conjuring og heldur henni áfram hér. Munurinn hér er samt sá að myndatakan og settin gera þetta gimmick aðeins meira krípí en það er.

  Gat aldrei horft framhjá þessu gimmick-i og held ég að Wan hafi fengið aðeins of mikið út úr því að sjá fólk alltaf bregða á sýningum hjá sér. Tók hann þá skrefið og setti það í hærri gír.

  (já og ég lít aldrei á „hrollvekju“ og „hryllingsmynd“ sem sama hlut. Hrollvekjur eru gæsahúða/horror-myndirnar fyrir mér (ergó „vekja hroll“) á meðan hryllingsmyndir ganga töluvert meira út á hryllinginn… þ.e.a.s. ógeðið, og sverja sig í ætt við slasher, gore-veislur og pyntingarklám – persónuleg smámunasemi útaf takmarkaða orðaforða tungunnar)

 3. Ég fýlaði fyrri myndina mikið, eiginlega mun meira en ég hafði áttað mig á. Þó svo að Insidious sé skrifuð að einhverju leyti á mjög sniðugan hátt þá finnst mér hún gefa alltof mikið upp og reyna stækka söguna of mikið. Allt í kringum plottið fannst mér ekki jafn scary þegar það var búið að útskýra það vandlega fyrir manni. Fyrri var mun dularfyllri, hrárri (skiljanlega svosem) og ferskari. Ásamt því þá dregur þetta sequel mjög mikið úr krafti endirsins í fyrri myndinni.

  Verst fannst mér þó hvað horror-in var ekki að ná til mín í þessari. Sú fyrri gaf mér gæsahúð en þessi verður fyrirsjáanleg og notar brellur sem við sáum í fyrri myndinni og Conjuring. Það komu senur þar sem mér fannst ég bókstaflega vera að horfa á senur úr 1 mixaðar saman í eina senu hér. Ásamt því er James Wan virkilega ekki að fylgja eigin ráðum hér þar sem hann hefur sjálfur talað um að tálbeitu jump horror sé vitleysa, samt er hann farinn að nota það sjálfur.
  Kveðja, vonsvikinn aðdáandi Insidious 1

 4. Hæ Arnór!

  Ég geri þá ekki ráð fyrir því að þú hafir verið ánægður með framhaldsbeituna í lokin á þessari?
  Og er það góður hlutur að Wan sé farinn (en sami höfundur verður áfram) eða bara ávísun á enn meiri hugmyndaskorti?

  Kasta ég núna mæknum til þín.

 5. Tja..loka senan var hálf bjánaleg fannst mér. Fannst þetta ódýr leið til að halda þessu opnu og ég bjóst svo sem alveg við þessu, en fannst þetta cheap. Svo nei ég var hreint ekki ánægður með framhaldsbeituna.

  Leigh Wannell er alls ekki vonlaus handritshöfundur svo það er ef til vill ágætt að hann sé áfram. Ég hugsa að brottför Wan sé jákvæður hlutur. Hann hefur gert fína hluti fyrir geirann, Saw í hryllingnum og Insidious með horror-in. Conjuring var líka fín en ég var hinsvegar einn af þeim sem fannst hún töluvert hæpuð og var hún oft predictable. Við áhorf Insidious 2 fór mér að líða eins og hann væri búinn með brellurnar sínar og virkilega búinn að sprengja sig. Það er eflaust fínt að gefa öðrum leikstjóra tækifærið með sama handritshöfundi, þó svo að best væri að láta þetta vera og breyta þessu ekki í Saw seríu fyrir horror geiran.

Sammála/ósammála?