Bad Grandpa

Þetta er eitthvað sem ég bjóst aldrei við að sjá: „Jackass mynd“ með söguþræði, eða einhverju sem líkist línulegri frásögn réttar sagt.

Hinn viðkunnanlegi og alls ekki hæfileikalausi Johnny Knoxville tekur „Sacha Baron Cohen-inn“ á þetta með sannfærandi afagervinu sínu og kokkar upp einhverja klisjusögu í kringum búta með földum myndavélum, nema bara oft minna feikað og í afmarkaðra djókformi en hjá Cohen. Fyrir vikið er þetta örlítið bitlausara en ómetanlegt er það samt að fylgjast með alvöru viðbrögðum fólks við lauslega sviðsettu stönt og sjokk-gríni. Myndin gæti samt breyst í mikla martröð fyrir hina meðvirku. Það eru bestu meðmælin!

Ekki er hægt segja að (Jackass Presents:) Bad Grandpa skili ekki því sem hún lofar. Gamlingjadjókið hefur aldrei verið í mínu mesta uppáhaldi þegar ég horfi á Jackass, allra síst þegar Spike Jonze klæðir sig upp sem gömul kella (það krípar mig í alvörunni út hvað hann fílar sig fullmikið í því gervi). Knoxville er sem betur fer annað mál og er miklu hugmyndaríkari og skemmtilegri þegar kemur að myndavélinni, og með kjarkaðri maga. Það er aftur á móti ekki vondi en meinfyndni afinn sem stelur senunni og sýnir mesta hugrekkið heldur svokallaða afabarnið. Ég kem betur að honum.

Þó svo að öll myndin gangi út á það að flytja sömu brandarana aftur og aftur tekst henni óvenju ágætlega að sauma saman sitt aulalega vegamyndaplott úr vel skipulögðum atvikum þar sem saklausir „bæstanderar“ stýra svolítið stefnu og hlátursgildi senanna. Knoxville er nokkuð skarpur og er það í sjálfu sér bein ávísun á ómetanleg viðbrögð þegar gamall perri og ungur drengur brjóta formleg viðmið í alvöru umhverfum. Þetta er eins nálægt því og maður kemur að því að hlæja og benda að ókunnugu fólki. Ekkert að því!

Mest skil ég ekki hvernig þessi blessaði krakki nær að halda eðlilegu andliti eins og reyndustu spunaleikarar og ég krefst þess að einhver gefi honum einhvers konar verðlaun fyrir að trompa flesta jafnaldra sína í dirfsku. Myndin væri líklegast öll búin að þynnast út án hans vel fyrir klukkutímamarkið, því afinn getur bara haldið út áhuga manns í x langan tíma (feisum það, hann er enginn Borat). 90 mínútur eru algjörlega á mörkum þess að teygja á pungnum, en þetta sleppur. Kreditlistinn er annars góður, eða þ.e.a.s. myndefnið í honum.

Ég hefði samt örugglega tapað augunum úr hlátri ef trailerinn hefði ekki skemmt fyrir mér magnaða bútinn með fegurðarsamkeppninni. Meira að segja er spillt fyrir manni langbesta „peningaskotið“ (jebb, meint bókstaflega). Bad Grandpa er ein af þessum myndum sem aldrei verður eins fyrir manni eftir fyrsta glápið og þess vegna er best að halda sjokkinu sem mestu þá. Sýnishornin spilla hins vegar miklu vegna þess að gullmolarnir eru ekkert svakalega margir. Hlátursköstin koma þó í föstum sveiflum á milli og sem betur fer þurrkast millitíðaglottið ekki af manni nema rétt stöku sinnum.

Það helsta sem gengur ekki upp við hana, fyrir utan það að dragast á langinn á köflum með sama grínið, eru tilraunir hennar til þess að vera aðeins „hlýrri“ í tengslum við þessa svokölluðu frásögn og allar uppfyllingarnar í kringum hana. Slíkt hefur aldrei verið stíll Jackass, ætti aldrei að vera og þess vegna þýðir lítið að byrja núna. Góð falin myndavél samt.

thessi

Besta senan:
Eins og ég sagði, ef spill-stiklan hefði ekki skemmt fyrir mér lokahápunktinn þá væri það neglt niður. Annars er glaðningurinn á veitingastaðnum þvílíkt frábær.

2 athugasemdir við “Bad Grandpa

Sammála/ósammála?