Thor: The Dark World

Því skrípalegri sem hugmyndin er, því erfiðara er að framkvæma sjónarspilið með tilheyrandi tilfinningum, kúli og mannúð – augljóslega. Hér áður gat Marvel aldrei fyrirfram reiknað með því að léttilega yrði hægt að flytja bandaríska hasarblaðatúlkun á norrænni goðafræði á bíótjaldið með svölum og sannfærandi hætti.

Kenneth Branagh gerði nákvæmlega þetta. Þrumuguðinn hefur frá byrjun verið stærsta áhættan fyrir stúdíóið en leikstjóraleikarinn rúllaði þessu upp með sínum Shakespeare-töktum ásamt því að gera makalaust grín að efninu á réttum stöðum. Ef myndin hlær sjálf að skrípaleikanum er það pottþétt í lagi fyrir okkur hin og ef eitthvað auðveldara að finnast þetta þvílíkt töff.

Ég trúði því varla fyrst hversu vel heppnuð fyrri Thor-myndin var (hún ber hiklaust af í pre-Avengers seríunni – en það er ekki alltaf vinsæl skoðun) og leikstjórinn átti allan þátt í því að taka erfiðan grunn og móta úr honum einhverja albestu óbeinu endurgerð á Masters of the Universe sem ég hef séð. En þó teinarnir séu lagðir (t.a.m. öll hönnun, allir leikarar o.fl.) er það ekki sjálfsagður hlutur að tónninn gangi áreynslulaust upp í annarra manna höndum.

Ég kenni meira eða minna leikstjóraskiptingunni – eða þessum tiltekna leikstjóra sem varð fyrir valinu öllu heldur – um að Thor: The Dark World sé ekkert voðalega góð mynd. Enginn er svosem að fara að segja að hún sé ekki margfalt flottari en sú upprunalega þegar kemur að brellum og magninu af þeim. Epíkin er það mikil og myndin hefur ágætis skemmtanagildi en sérstakt er hversu mikið er í gangi miðað við hversu lítið verður úr henni yfir heildina. Troðin mynd en samt algjör beinagrind. Eitthvað minnir það mig á Iron Man 2 veikina, bara með sex hundruð sinnum stærri hasar.

Alan Taylor er núna staðgengill Branagh, eða í rauninni staðgengill leikstýrunnar Patty Jenkins sem átti að taka við (og feministinn í mér hefði alveg viljað sjá hana ganga alla leið). Taylor hefur leikstýrt sex dúndurgóðum Game of Thrones-þáttum og saltar hann Thor 2 með aðeins grófari pallettu heldur en seinast. Lúkkið er í fínu lagi en manninum skortir allan töfraandann og sjarmann sem Branagh flutti inn og gerði hann veröldina að einhverju öðru en bara grænum tjöldum, ýktum settum og tölvuskotum. Bryan Tyler er heldur ekki alveg að ná sömu gæsahúðanótum með sinni tónlist eins og Patrick Doyle gerði, en nálægt því. Taylor höndlar sig með prýði en hefur lítið nennt að slípa handritið betur til og veit stundum ekki hvenær á að hætta eða ganga lengra.

Fyrir utan nokkur óvenjulega stór plottgöt og aulareddingar í handritinu er það stór vandi hversu mikið er verið að þjappa öllu fólkinu fyrir án þess að leyfa helstu aukapersónum að anda betur, eða yfirhöfuð. Hér um bil allir sem voru í fyrri myndinni eru komnir aftur, og sumum er farið að leiðast meira en öðrum, eins og Anthony Hopkins. Það sitja allir á varamannabekknum, koma bara og fara þegar boðið er upp á eitt eða tvö gott móment og síðan hverfa þeir, ef þeir eru svo heppnir. Það lendir heilmikið útskýringar-dömp á öllum öðrum, oftast sömu aðilum. Ég skal að vísu alltaf þiggja Idris Elba í hvaða gullituðum skömmtum sem hann kemur í og nú eykur Heimdallur kúlið en hann ásamt Jaimie Alexander (Vannýtt með stóru vaffi) og hennar teymi kemur aðallega út eins og uppstilling fyrir eitthvað stærra ævintýri. Þannig leið mér líka síðast með þau í hinni myndinni. Á að framlegja þetta endalaust eða er Marvel bara í sjálfu sér frekar sama um alla hina?

Chris Hemsworth er enn að rokka þessa rullu út í eitt og skín best ef mótleikarar hans eru í stuði. Tom Hiddleston hefur engum áhuga tapað í hlutverki Loka en samspilið þeirra fer í gegnum fullmargar gamlar rútínur án þess að opna fyrir einhverju áhugaverðara á milli þeirra, eins og sagan og dramaflækjurnar í henni býður upp á. Engu að síður eru þeir sterkir saman og margir bestu bútarnir koma frá Hiddleston að venju. Ég vildi að það sama væri hægt að segja um Natalie Portman, sem greinilega er meðvituð um hvað hún fær lítið til að vinna úr. Þar af leiðandi er hún flöt, býsna leiðinleg og út hálfa söguna fær hún ekkert að gera annað en að leggja sig. Kemistría hennar hefur dalað verulega við Hemsworth, skiljanlega. Að sjá hana stadda í öllu þessu mikilfenglega Star Wars/Tolkien umhverfi vekur stundum upp of margar minningar af öðrum fantasíumyndum með henni sem fóru klúðurslega að sínum efnistökum. Myndin gerir það eiginlega líka ósjálfrátt.

Það sem ég dýrka aftur á móti er hvernig fantasíufaktorinn hefur verið fjölfaldaður út í allar áttir og þegar fókusinn er allur á goðaheimunum lýsist myndin öll upp. Stærstu atriðin í Ásgarði eru öll í kringum þennan miðkafla sem seinna gengur ómögulega að toppa. Lokahasarinn, sem er að megnu til á jörðinni, er hress en eitthvað svo ófullnægjandi í samanburði. Það þarf síðan að ræða þessa tónaflækju sem myndin er eitthvað föst í, ef miðað er við undirheitið, dramatísku stefnurnar í söguþræðinum og illmennin vinnur það frekar mikið gegn myndinni hversu einkennilega létt hún er. Mér þykir þó alltaf jafn krúttlegt að heyra Kat Dennings segja „Mjö-Mjö.“

Hingað til hafa síðustu þrjár Marvel-myndir verið sóðalega fyndnar en sjaldan á röngum tímapunktum. Þessi Thor-mynd er svo yfirgengilega ákveðin í því að vera helmingi fyndnari en sú fyrri að þetta er á mörkum þess að breytast í fyrstu gamanmyndina frá stúdíóinu. Það hljómar ekkert illa, en handritið er bara ekki alltaf nógu fyndið og greinilega ekki leikstjórinn heldur. Hverjum góðum „brandara“ fylgir kannski einn la-la, og einn vandræðalega dauður. Húmorinn dregur rosalega úr krafti myrku hliðanna í sögunni, og plottið er nú þegar nógu óspennandi, og aðalillmennið ekkert síður.

Reynslan hefur sýnt að það er ekki skynsöm hugmynd að láta Christopher Eccleston leika skúrk í stórmyndum. Hvorki handritinu né leikaranum sjálfum tekst að gera býsna nettan svartálf eitthvað athyglisverðan og það er ekki séns á því að taka svona þunga dótafígúru alvarlega í svona bjartri ræmu. Ég er samt ánægður með það að Rene Russo hafi fengið aðeins meiri skjátíma, en hún átti hiklaust meira skilið.

Annar magnaður kostur við Marvel-fasana er allur þessi gígantíski pakkadíll sem þræðir saman allar einingarnar, sama þótt myndirnar séu ekkert allar meiriháttar. Það þýðir ekkert fyrir neinn lengur að halda sig eingöngu við t.d. Thor-myndirnar án þess að stækka við sig og taka á móti þessu öllu (s.s. í stuttu máli: ef einhverjir ætla sér að hoppa beint úr Thor 1 yfir í 2 – gleymið því!). Stækkunin á bíóheiminum verður stöðugt girnilegri og er kannski skiljanlegt að einhverjar myndir lenda á því að þurfa að þjóna tilgangi sem millistopp til að dæla út upplýsingum á meðan sú næsta hleður rafhlöður sínar. Þannig er þessi skemmtilega en eitthvað furðu áttavillta Thor-mynd.

Ég er allur fylgjandi því að ofurhetjumyndir eigi ekki alltaf að taka sig of alvarlega en það er ekki eins og tónninn sé eini gallinn hérna. Sem betur fer kætir afþreyingin augað út í gegn, heldur flæði og býður upp á ýmsa geggjaða hápunkta. Hún á ekkert ógurlega mikinn séns í síðustu þrjá sigurvegarana frá Marvel en þegar stærri heildin er skoðuð er fínt að hafa hana. Aðra, takk!fin

Hey, áður en ég gleymi… vill einhver segja mér hvernig þeim tókst svona léttilega að koma Bifröst í gang aftur?!

Besta senan:
Árás á Ásgarð.

2 athugasemdir við “Thor: The Dark World

 1. „Stækkunin á bíóheiminum verður stöðugt girnilegri og er kannski skiljanlegt að einhverjar myndir lenda á því að þurfa að þjóna tilgangi sem millistopp til að dæla út upplýsingum á meðan sú næsta hleður rafhlöður sínar.“

  Skiljanlegt, en ekki óhjákvæmilegt.

  Er ekki hrifinn af þeirri tilhugsun um að Marvel þræði myndirnar sínar svona klunnalega saman, en það virðist vera veruleikinn af og til. Feige er hörkuklár framleiðandi og veit hvernig á að gera stóra og fjölbreytta seríu úr massívum efnivið. En stefnan að nýta nokkrar ræmur til að byggja að EINUM ákveðnum hápunkti í hverju þrepi þarf að spreðast betur í stað þess að smyrja sérstaklega eitt brauð í bunkanum með uppbyggingu sem á sér lítinn stað í karaktersögu myndarinnar. Ef það er engin raunverulegur prógress í hverri mynd fyrir sig, þá virka þær sem klunnaleg blanda af uppfyllingarefni og sjálfstæðri genre-mynd (m.a. IM2 eins og þú nefndir).

  En þar sem ég hef ekki séð myndina er mér ekki rétt að dæma í þessu tilfelli, vona bara að þessi punktur þinn sé ekki jafn stórfeldur og ég les úr textanum. Einnig hafa Marvel hingað til haldið sig nokkuð vel frá þessari klausu (Iron Man 1 & 3, Thor og Captain America), en þegar þeim mistekst er það sáraaugljóst og tekur mann úr sjálfstæðari ævintýrum og persónuuppbyggingum teymisins.

 2. Tek (því miður?) hjartanlega undir Axel en þegar þú sérð myndina ættirðu líklegast að taka eftir því að það eru vissir punktar sem hún er eiginlega skyldug til þess að ganga í gegnum (og best sérðu „hvað“ er verið að byggja upp í mið-kreditsenunni) áður en lengra er haldið með stóru heildarmyndina.
  Það þýðir ekki endalaust að afsaka það sem er lagt til hliðar með því að segja alltaf: jájá, þetta mun allt skýrast þegar Avengers 2 eða 3 kemur.

  Hvar er fjörið í því?

  Það er alveg hægt að fyrirgefa „millistoppin“ svo framarlega sem þau koma ekki út sem mikið annað en svona „æ, við þurfum að gera þetta svo hitt muni virka í framtíðinni“ (FÁRÁNLEGA erfitt að spoila ekki, sorrí).

  Thor 2 var með fjandann allan af efni á borðinu en síðan sprettir hún í gegnum mikið umfang til þess að nota enn eitt „McGuffin plottið“ þar sem þarf að stöðva illmenni X svo hluturinn Y eyði ekki öllum heiminum. Í goðaheiminum get ég alveg trúað því að eitthvað kjötaðra og fjölbreyttara sé til á borðinu, ef ekki þá að minnsta kosti fókusera betur á mótíf og persónuleika illmennisins x til að gera söguna aðeins ríkari.

  Eins og hún stendur er Thor 2 alltof upptekin að Loka (sem fékk „reshoot“ trítmentið því, ja… hann er nördauppáhald, og orðrómar segja að Chris Eccleston hafi verið ýttur til hliðar útaf einmitt þessu), hún er ekki nógu einbeitt að eigin plotti og myrkrinu sem ætti að tilheyra því. „Set-up“ fyrst, innihald svo.

  Allt þetta Marvel prógramm er brill og ég styð stefnurnar svo framarlega sem sjálfstæðu einingarnar veiti þér heila veislu út fyrir sig (eins og t.d. Iron Man 3 gerði KLÁRLEGA), og ekki bara sjálfsagða brellu- og hasarveislu. Feige hefur sjálfur sagt að myndirnar þeirra snúast um persónurnar, ekki brellurnar. Það er engan veginn í samræmi við hvernig farið er með sumar þeirra í þessari mynd (það er svo illa farið með vesalings Sif að það er varla fyndið).

  Iron Man 2 er samt enn – sem betur fer – sú latasta frá Marvel, og vonandi helst það þannig.

Sammála/ósammála?