Carrie (2013)

Við þekkjum flest öll þessa sögu. Carrie lifir vægast sagt glötuðu lífi. Hún er einmana og feimin en verður fyrir stöðugu félagsáreiti í skólanum að því ógleymdu að snargeðveika og ofsatrúaða móðir hennar beitir hana reglulegu ofbeldi. Eftir að niðurlægingin og vanlíðan hjá Carrie nær blóðugu hámarki uppgötvar hún það að hún býr yfir mögnuðum mætti til að hreyfa hluti með hugarorkunni einni. Í stuttu máli: Þú fokkar ekki í Carrie. Kaldhæðnislega er þetta örugglega hugsun sem dyggir horror-unnendur með fortíðarþrá deila þegar þeir hugsa um klassíkina gömlu.

Það getur stundum verið munur á endurgerð og nútímauppfæringu. Auðvelt er að stökkva beint á þessa nýju Carrie-mynd með illu auga og afskrifa hana sem metnaðarlaust færibandsafrit. Hún er það ekki, en kemur bara þannig út því upprunalega eintakið þekkja margir betur en handabakið á sér.

Brian De Palma gerði þessa Stephen King bók að mikilli bíógoðsögn sem hefur lifað – en kannski ekki elst sem best – í bráðum 40 ár. Leikstýran Kimberly Peirce (Boys Don’t Cry, Stop-Loss) gekk greinilega í þessa endursköpun af miklum eldmóði og tekur persónulegt tvist á þráðbeinu frásögnina, þá með því að taka element úr bókinni, frumútgáfunni og fylla sjálf í nokkrar eyðurnar. Munurinn er kannski ekkert yfirdrifið mikill en samt nógu mikill til að myndin virki ekki of gagnslaus. Atburðarásin er sú sama en áherslurnar aðeins öðruvísi, og sama hvað margir fordómafullir segja þá kemur myndin alls ekkert illa út. Sú gamla var nú ekkert fullkomin heldur. Þarf ég að minna t.d. á Psycho-strengina?

Gallinn núna er reyndar bara sá að sjokkgildið sem ’76 myndin hafði á sínum tíma nær ekki alveg sömu hæðum árið 2013 ef lítið er gripið til nýjunga (spes samt hvernig við erum hundrað sinnum hræddari við að sýna gagnslausa nekt í dag miðað við þann tíma. Upprunalegi, pornógrafíski kreditlistinn er alveg horfinn). Nútímaáhorfendur eru margir líklegir til að horfa á nýju Carrie í leit að einhverjum allt öðruvísi, kannski ódýari hryllingi. Þá er ég að tala um þá ör, örfáu sem hafa ekki hugmynd um hvert sagan fer og hvernig hún endar (trailerarnir virðast ekki einu sinni leyna því!). Peirce fórnar annars ekki listræna metnaði sínum, ef svo má kalla hann, fyrir almennar vinsældir og reynir aldrei að breyta þessu í einhverja trend-hryllingsmynd. Hún hefur sjálf sagt að áður en hún kom að þessu verkefni stóð upphaflega til hjá stúdíóinu að gera þetta að „found footage“ mynd, af öllu – sögð frá sjónarhorni bekkjafélagana. Oj.

Sjálfur hef ég alltaf litið á þetta ljóta litla ævintýri sem pínulítið yfirdrifna en áhrifaríka skilaboða- eða dæmisögu sem snertir mjög auðþekkjanleg vandamál. Þrátt fyrir að gengið hefur vel að staðfæra hana yfir í nútímann (menn geta aðeins ímyndað sér hvað YouTube-byltingin hefur haft vaxandi áhrif á einelti) má hún eiga það að vera frekar tímalaus því þemun í henni eru eitthvað sem fólk mun lengi geta tengt sig við á einn hátt eða annan; einelti (augljóslega), lélegt uppeldi, félagsleg útilokun, bæling, samviskubit, réttlæti og heljarinnar hefnd. Fríkuðu ofurkraftarnir eru eins konar bónus og eitthvað sem allir hafa á einhverjum tímapunkti óskað að þeir hefðu til að geta refsað grimmum gerendum.

carrie03 (2)

Peirce er allan tímann meðvituð um það að flestir sem allir vita hvað gerist í sögunni, hvert hún stefnir og reynir hún að mjólka það sem hún getur úr uppbyggingunni en án þess að flækja hlutina of mikið eða tefja. Hún leyfir sálfræðilegu óþægindunum að naga mann aðeins áður en reiðissprengjan springur í lokahlutanum. Annað en í De Palma myndinni er reynt að koma áhorfandanum inn í hausinn á Carrie greyinu. Peirce notfærir sér þetta sem leið til að spila meira í kringum stóra uppgjörið í endann og vonandi gera það þeim mun meira fullnægjandi fyrir áhorfandann. Það gengur að vissu leyti en persónulega fannst mér bitastæðustu breytingarnar lenda á skrímslinu sem móðir hennar er, eins og best sést í upphafsatriðinu nýja. Það er ekki eitthvað sem eðlilegar manneskjur gleyma á fyrra bragði.

Það sem kippir Peirce frá því að búa til ógleymanlega endursögn er nákvæmlega sú ástæða að hún kafar ekkert mikið út fyrir klassíska rammann sem við öll þekkjum, eða reynir að minnsta kosti ekki að stíga óvenjulega mikið út fyrir helstu punktana sem sagan þarf að fylgja og hefur fylgt. Litlu breytingarnar eru ekki alltaf til hins betra, sumar óþarfar og kjánalegar og útfríkunin hjá mér var í lágmarki út áhorfið, en það sést langar leiðir að reynt var að gera góða mynd.

Það er óhugsandi að finna ekki til með titilpersónunni og vorkenna henni. Chloë Moretz túlkar hana prýðilega, með réttum tilþrifum en situr aldrei nógu mikið eftir í manni, mögulega vegna þess að hún er einum of falleg, jafnvel þó hún eigi að vera töluvert „ljótari“. Hún reynir þó aldrei að apa eftir Sissy Spacek (Moretz skortir algjörlega „klikk-augun” sem hún hafði, burtséð frá „hversdagsútlitinu“) og fer alveg sínar leiðir með rulluna. Þar að auki er hún á hárréttum aldri á meðan Spacek var farin að nálgast þrítugt þegar hún lék menntskælinginn, eins með alla hina.

Julianne Moore ber að vísu af í hlutverki mömmunar og að þeim tveimur frátöldum eru fáir sem skilja eitthvað mikið eftir sig (aðallega bara Judy Greer, enginn annar), sem enn og aftur innsiglar fyrir mér hversu mikil rútína megnið af þessu hefur verið hjá leikstýrunni án þess að hún hefur kannski gert sér eins mikið grein fyrir því. Annars er kvikmyndatakan stílísk, drungaleg og mikið lagt upp úr andrúmsloftinu, sem enn og aftur bendir til þess að myndin hefur ekki verið alfarið unnin af peningagræðgi.

Best er að horfa á nýju Carrie með opnu hugarfari og má alltaf leita til gömlu myndarinnar ef þessi gengur ekki upp að mati áhorfandans. Hún er ekki að fara neitt. Góði hluturinn er að þessi nýja svertir hvergi ímynd fyrirmyndinnar þó hún varpi óneitanlega sterkum skugga á þessa tilraun. Fínasta trilraun samt.

fin


PS
. Ég sá aldrei sjónvarpsmyndina frá 2002, en heyrði ekkert voðalega góða hluti.
En þú?

Besta senan:
Í allri hreinskilni, byrjunarsenan! Hún er sú eina sem gaf mér ósvikið sjokk.

Sammála/ósammála?