Jurassic Park (3D)

Þann 6. nóvember s.l. hélt ég á vegum bíóvefsins míns sýningu á sérstakri 3D-endurútgáfu einnar bestu, áhrifamestu og langlífustu popp-og-kók-myndar síðustu áratuga. Gekk síðan eftir sú beiðni að sýna hana allavega eitt kvöld, til að halda svona létt og nördalega upp á 20 ára afmæli hennar. Eftirá voru hátt í 200 manns sem svifu gjörsamlega út úr salnum – eftir að þeir klöppuðu. Góð tilfinning. Ég get nú ekki ímyndað mér fjöldann af þeim stórmyndum sem hafa verið gerðar síðan ’93 og vildu óska þess að þær eltust eins vel og Júragarðurinn gerir.

Fyrir mér er gríðarlegt kikk að sjá þessa mynd jafnháværa og stóra eins og Steven Spielberg ætlaðist alltaf til að hún yrði á tjaldinu. Langt líf hennar stafar líka svolítið af því að mörgum fullorðnum leið eins og krökkum þegar þeir sáu hana fyrst, fullt af krökkum sem sáu hana á sínum tíma – þar á meðal var ég – og gátu ekki slitið nostalgíutengslin við hana seinna meir og stöðugt eru ungir sem hellisbúar enn að uppgötva hana í fyrsta sinn. Svakalega hlýtur Spielberg að verða þreyttur á því að höfða hvað eftir annað svona ruglað mikið til, vægast sagt, breiðra hópa. Ef það er eitthvað sem ég gleymi seint þá er hversu brjáluðu risaeðluæði myndin kom af stað.

Jurassic-Park-3D
Tekjuhæstu stórmyndir leikstjórans eiga þó í flestum tilfellum skilið velgengnina og „game changer“ sess sinn í bíóbókunum. Jurassic Park er kannski ekki toppmyndin hans, jafnvel ef horft er innan geirans, en hún er og verður alltaf ógleymanleg. Engan veginn fullkomin en þarf heldur ekki að vera það, fyrst og fremst, því þetta er „skrímslaspennumynd“. Handritið má vera vísindalega langsótt og með einhverjar plott- og lógíkholur því flæðið bætir allt upp og mannlegi fókusinn og náttúruhjalið gerir rússíbanann að einhverju meiru. Myndin er búin að vera ósigrandi í tvo áratugi vegna þess að þetta er skothelt dæmi um hvernig á að gera svona myndir rétt.

Það er eitthvað af þungum handritsgöllum, eins og tiltekin skyndiinnkoma í einu lokaatriðinu. Kannski fullnægjandi á sinn hátt, en ódýr skyndilausn á blaði („deus ex…“). Spielberg hefur reyndar oft dottið í þann pytt að hafa enga hugmynd um hvar eða hvernig hann á að enda myndirnar sínar. Tónlistin reddar þessu samt í þessu tilfelli að mestu, enda ódauðlegir John Williams-tónar sem myndin væri næstum töfra- og eirðarlaus án. Ég veit ekki enn hvort Spielberg er heppnari að hafa Williams svona nátengdan sér eða öfugt, en brellu- og hönnunarteymið hjá Stan Winston heitnum á ekki síður hrós skilið. Allt eru/voru þetta miklir snillingar sem föttuðu snemma að best er að fara milliveginn að nota bæði tölvubrellur í viðeigandi skömmtum á móti þessum praktísku. Hljóðbrellurnar hjálpa líka slatta við það að gæða risaeðlunum líf og hegðunarmynstur til að halda þeim þannig.

15137314_0
Algengt er í skrímslamyndum að lítið sé einblínt á persónur eða í það minnsta gerð tilraun til þess að aðgreina þær í ljósi þess að þær eru oft tilvonandi skepnufóður, en Jurassic Park spilar frábærlega á alla góða takta í uppbyggingu persóna með einfaldleikann í fyrirrúmi. Takmörkuð dýpt er hjá hverjum einasta karakter en aftur á móti er hver og einn eftirminnilegur á sinn hátt. Prófílarnir eru sterkt teiknaðir og áherslur á fatnað, persónuleika og almennt hlutverk í plottinu heldur þeim ómerkilegustu uppi. Ég hef sömuleiðis alltaf kunnað að meta hversu fáir í myndinni líta út eins og leikarar sem hafa verið klipptir út úr tímariti, en kannski á Michael Crichton eitthvað í því lofi líka. Allir eru mjög eðlilegir, sannfærandi og í rauninni svo sannfærandi að aðstæður sem byggjast í kringum risaeðluhættur verða helmingi trúverðugri og meira spennandi.

Það er sama hversu raunverulegar þessar eðlur eru gerðar, ef leikararnir selja áhorfandanum ekki hræðsluna er brellan ónýt. Leikararnir gera allt sem þeir eiga að gera með það sem þeir hafa og meira, en það fylgir yfirleitt með hjá mönnum eins og Sam Neill, Jeff Goldblum, Richard Attenborough og Samuel Jackson, svo einhverjir séu nefndir. Laura Dern hefur líka alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér í myndinni, þótt mér líði eins og hægt hefði verið að finna meira að gera handa henni, og Goldblum eiginlega líka þegar líður á seinni helming hennar. Krakkarnir komast einnig merkilega hjá því að vera pirrandi til lengdar. Þeir eru það fyrst en þeirri skoðun deilir maður  með einni aðalpersónu sögunnar á þeim tímapunkti og hún kemur þeirri tilfinningu nokkuð mátulega til skila.

Þegar öllu er á botninn hvolft er Jurassic Park í rauninni bara Jaws nema stærri, skemmtilegri og með minni persónusköpun. Spielberg notar eitthvað af sömu brögðum (eins og hvernig hann „felur“ snareðlurnar þangað til á rétta sjokk-mómentinu, eins og gert var með hákarlinn) og gekk í garðinn vopnaður ævintýrafjörinu sem hann öðlaðist eftir Indiana Jones-þríleikinn. Sem betur fer er Park líka óvenjulega tónuð niður í Spielberg-væmninni og held ég einfaldlega að kallinn hafi ofkeyrt sig í henni þegar hann gerði Hook stuttu áður.

Niðurstaðan er umfram allt blanda af hans bestu Hollywood-töktum og þann dag sem ég hætti að fá smá gæsahúð yfir múskíkinni (sérstaklega í þyrluatriðinu við lendingu) þá er ég e.t.v. kominn með leiða á ræmunni. Hingað til hefur það ekki gerst. Kannski eftir 20 ár, sjáum til.

atta
Ég mæli annars mikið með þessari 3D-útgáfu, ótrúlegt en satt. Hún dýpkar umhverfið og rammana svakalega, dekkir þá aldrei og styrkir almennt rennslið. Hún er einhvers staðar fáanleg á Blu-Ray og er eflaust skyldueign fyrir alla sem eru með þrívíddarsjónvörp. Það voru nokkrar senur sem ég hefði í alvörunni getað trúað að voru skotnar í þessu formi til að byrja með.

Besta senan:
Þó svo að sagan færir rök fyrir því að T-Rex’inn sé ekkert nema stór, fjaðralaus kjúklingur er bílaatriðið algjört legend.

Sammála/ósammála?