Philomena

Ef hægt er að bóka að eitthvað geri daginn betri, er það mögnuð, mannleg, hlý og hjartarífandi sönn saga, ef henni er gerð góð skil. Það er strax jákvætt ef hún er kvikmynduð af sama manni og gerði m.a. The Queen og High Fidelity og aldrei getur neinn sagt nei við Judi Dench og Steve Coogan þegar þau sýna sínar bestu hliðar. Að leyfa þessum tveimur að leggja undir sig heila mynd í sameiningu var æðisleg ákvörðun og að kvikmynda þetta efni var eiginlega betri hugmynd.

Philomena gæti líklega verið ein besta „crowd pleaser“ (mömmu)mynd sem hef horft á síðan ég komst í fullorðinna manna tölu. Hún er alveg hreint viðbjóðslega ómótstæðileg og skilar þér sálinni í betra standi eftirá, en rífur hana einnig niður og – það sem mér finnst verulega mikilvægt – vekur upp margar reiðar tilfinningar til illra nunna. Og Spoiler: ég táraðist pínu. Því, ef ekki er hægt að væla smávegis fyrir Dench þá er það ekki hægt, punktur.

Nauðsynlegt er að rekja aðeins „söguþráðinn“. Dench leikur hina titluðu og rammkaþólsku Philomenu, kölluð Phil, sem verður ólétt á unglingsárunum þá búsett á Írlandi í byrjun sjötta áratugarins. Hún er send í klaustur, enda „fallin“ kona, sonur hennar er sama og hrifsaður af henni þriggja ára að aldri og seldur til Bandaríkjanna til ættleiðingar. Henni er talin trú um að ekkert sé athugavert við þetta og því grimmt haldið að henni að hún þurfi áfram að gjalda fyrir „mistök“ sín í garð trúnnar. Fimmtíu ár líða og Phil hefur margoft reynt að leita sonar síns en án árangurs. Þá kynnist hún léttfúla blaðamanninum Martin, sem verður strax gripinn af sögu hennar og reynir að hjálpa henni við leitina, og í leiðinni skrifa hina ótrúlegustu mannlífssögu. Saman ferðast þau til Bandaríkjanna sem vonandi endar eins vel og Phil þráir, og áhorfandinn.

philomena
Ókei… Í röngum höndum hefði verið auðvelt mál að gera þetta að fiðluleikandi „væluklámi“ (sem er því miður fáránlega algengt þegar magnaðar raunasögur eru gerðar að myndum) eða melódramatískri vegamynd um kostulegar andstæður og tilfinningaævintýri þeirra. Eins og stendur er þetta eitt besta hjartafaðmlag sem ég hef óvænt fengið allt árið. Þó það sé kannski óhjákvæmilegt að eitthvað sé leikið á tilfinningarnar á vissum tímapunktum með ákveðnum einföldunum er meðhöndlunin á umfjöllunarefninu svo einlæg og fagleg frá öllum hliðum séð að harðir fýlupúkar tel ég eiga erfitt með að standast áhrifin sem Philomena hefur.

Þótt dramað hefði ekki náð neinum hæðum væri húmorinn og blíðan í Philomena alveg nóg til að tryggja henni sterk meðmæli. Dench og Coogan mynda hátt í fullkomið „odd couple“-skjápar, sennilega það besta síðan tveir ólíkir, skemmtilegir og viðkunnanlegir einstaklingar sameinuðust í Intouchables, sem reyndar er einnig byggð á sannri sögu. Ekkert ósvipaðar myndir heldur, nema þessi er átakanlegri.

Coogan er meiriháttar góður með sína föstu, svartsýnu Coogan-takta. Hann er annars þægilega lágstemmdur, myndar beina tengingu við áhorfandann og segir stundum beint út það sem maður sjálfur hugsar (og í raun ALLIR) en það er frammistaða Dench sem gefur myndinni þennan mikla hjartslátt. Að gera Phil að sympatískri persónu er vitanlega ekki erfitt en leikkonan hellir sig alveg út með ótrúlegri hlýju og smá hint af krúttlega kölkuðum ömmutöktum, en bjartsýni persónuleiki hennar gerir hana ógleymanlega. Ég hef ekki séð hana svona góða í langan tíma né í knúsanlegra hlutverki.

philomena05
Það er kostulegur einfaldleiki hjá báðum aðalleikurunum en persónurnar eru ávallt manneskjulegar og eðlilegar. Hliðstæðurnar sem handritið mótar úr þeim gerir þær einstaklega huggulegar og fyndnar að horfa á. Deilur þeirra um trú, ólík sjónarmið og sýn á lífið verða aldrei nokkurn tímann predikunarlegar, fullmjúkar eða tilgerðarlegar þegar leikararnir eru svona mikið í essinu sínu, saman eða sitt í hvoru lagi – en oftast saman.

Ég get ekki ímyndað mér hversu margar sannar sögur sem þegar hafa verið gerðar að sykurpúðamyndum hefðu getað orðið að einhverju sígildu ef tónninn væri eins frábær og hér. En burtséð frá því er þessi mynd einfaldlega of sorgleg, of fyndin og alltof hjartnæm til þess að vera afskrifuð sem eitthvað annað en skyldugláp á sviði sínu. Sömuleiðis gæti þetta verið ein af ekki mörgum myndum sem við móðir mín getum grenjað yfir án þess að ég þurfi að skammast mín fyrir það.

niu

Besta senan:
Vídeóið fer í gang.

2 athugasemdir við “Philomena

  1. Sá hvergi favorite-hnapp, þannig ég læt komment nægja.

    Vindurinn hefur annars hvíslað alla vikuna. „Phiiillooomeeenaaaaaa“

Sammála/ósammála?