Cloudy with a Chance of Meatballs 2

Staðreynd: Þeir sem fíla ekki fyrri „kjötbollumyndina,“ svo framarlega sem þeir hafa gefið betri talsetningunni séns, eru með skaddaða brosvöðva og líklega ekki þeir vinsælustu í stórum grúppum. Cloudy with a Chance of Meatballs er ein flippaðasta og litríkasta tölvuteiknimynd síðustu ára, kannski allra tíma, og algjörlega maukstöppuð bröndurum. Sjaldgæf er hún líka fyrir það að geta skemmt krökkum, fullorðnum, stónerum, gamlingjum, gelgjupjökkum o.s.frv.

Cloudy 2 mætti vera jafngóð, hún er það ekki en er samt sem áður stöðugt kætandi, endalaust glæsileg (útlitslega séð – hvílík geðsjúk pixla- og litadýrð!) og dregur lítið niður úr hugmyndafluginu (og orðagríninu!) sem einkenndi þá fyrri og sleppur algjörlega undan þeim hænsnaskap að kópera hana. Ef líkja má hana við stórslysamynd með matarleyfum þá er fæðuvinkillinn tekinn núna á skrýmslamynd…  með stökkbreyttum matardýrum, kölluð Foodimals á ensku. Líta má einnig á þetta sem dýrindislegt hlaðborð af dásamlegum orðablöndum (Flamango, Shrimpanzee, Susheep, Apple Pie-thon, Tacodile Supreme – lengi má halda áfram…). Allt svona ódýrt þarf aldrei að vera alltaf bragðvont. Hönnunin á skepnunum er þar að auki of æðisleg til að afskrifa.

Myndin er voða krúttleg, boðskapurinn er kjút en sykursjarminn er ekki alveg eins góður og í þeirri fyrri, sem yfir heildina hélt betri dampi og kom líka oftar á óvart. Varla var þó við öðru að búast þegar gamla leikstjóradúóið ákvað að fókusa á aðra hluti (en til allra lukku lögðu þeir sjálfir út söguna fyrir framhaldið), en í rauninni aðeins betri hluti. Ég skal með hreinni samvisku skipta út Cloudy 2 fyrir Jump Street eða tilvonandi Legóklassíkina á næsta ári. Samt, þetta hefði getað komið mun verr og pínlegra út og ég át mig saddan af því sem ég fékk.

Þótt nefnilega hinir leikstjórarnir séu farnir situr maður enn uppi með haug af hressum gamanleikurum sem hafa hellingssvigrúm til að leika sér. Þessir meiriháttar karakterar eru allir komnir aftur og velkomið var að sparka út Mr. T fyrir betri manninn, Terry Crews. Hún Anna Faris kemur mér líka yfirleitt í betra skap og Bill Hader getur á góðum degi verið einn fyndnasti maður á lífi.

Uppáhaldskarakterinn minn af öllum sem eru í boði er samt kynntur til leiks í þessari: ólöglega krúttlega jarðarberið Barry, fígúra sem er svo mikil dúlla að flestir hræðast hana við fyrstu sýn. Ég get ekki betur lýst þessum hlátri sem fylgir þessum gæja nema hann stelur myndinni einsamall á pari með nokkrum Despicable Me minion-um, og ég væri næstum því geim í heila bíómynd með Barry, bara því það væri svo súrt – en sætt. Röddin í honum minnir smávegis á krúttlegu gerðina af Cartman ef hann væri tveggja ára.

Fyrsta myndin fannst mér helvíti góð í fyrstu setu en síðan varð hún bara betri og betri. Það er alltof mikið í gangi í þessum manískt-orkuríka teiknistíl að ein seta dugar ekki alveg. Cloudy 2 mun alltaf eiga skilið að fylgja með frumeintakinu þó ég hafi kannski ekki yfir heildina hlegið upphátt meira en svona þrisvar sinnum, en voru það sterk þrjú skipti. Það er bara ekki hægt að standast svona steiktar 90 mínútur. Og gangi ykkur vel að hlæja ekki að kisubílnum. Eða tómatnum.

thessi

Besta senan:
Komdu sæll, ber!

Sammála/ósammála?