Escape Plan

Tveir harðir – og vel komnir á aldurinn, hugsanlega langt yfir hann. Pottþétt efni í heilalaust bíó þegar allar væntingar eru bundnar við kempurnar sem í denn voru akkúrat helstu fyrirmyndir heilalausra hasarafþreyingarkónga. Ég skil vel þá nostalgíuspennu sem þetta myndar hjá mörgum, en að mínu mati eru þeir Stallone og Svartnaggurinn cirka áratugi of seinir með það að snúa sínum brakandi bökum saman. Hugmyndin er ávallt velkomin en hvernig væri þá að gefa þeim myndina sem þeir eiga skilið að deila?

Stallone virðist sæmilega áhugasamur en eitthvað hálfdapur líka í þessu tilfelli, óskiljanlega. Ahnuld er aftur á móti allt annar handleggur og hef ég ekki lengi séð hann skemmta sér svona vel á einu setti í milljón ár (hrein DÁSEMD að horfa á hann bölva og tauta á móðurmálinu), sennilega síðan Terminator 3 kom út.

Það hefur tekið fyrrum fylkisstjórann fáránlega langan tíma að aðlagast bíótjaldinu/kamerunni aftur, miðað við hversu stífur og pínlegur hann gat verið í Expendables eða The Last Stand. Eftir einmitt þessa síðustu ræmu var ég persónulega orðinn sannfærður að hann þyrfti að læra að sætta sig frekar bara við cameo-hlutverk og eftirlaun næstu árin, en Escape Plan breytir því eitthvað. Dagar hans að halda heilli hasarveislu á lofti eru búnir, en að deila skjánum með öðrum garpi og leika sér aðeins er allt annað mál. Það sama er farið að eiga við Stallone. Bullet to the Head var ekkert svo sérstök heldur.

Þó svo að harðhausarnir gömlu séu vel vanir dæmigerðum bíómyndum er varla hægt að afsaka það að Escape Plan mætti vera ferskari, meira spennandi og helst einfaldari. Alls konar fínir aukaleikarar eru gerðir að litlu öðru en plottuppfyllingum (herra Jesús stendur sig að vísu prýðilega sem vondi kallinn). Ræman rúllar samt ágætlega og dúóið smellur eins og maður vill. Söguþráðurinn er svo ruglaður og bjánalegur að honum tekst að koma manni á óvart stöku sinnum, en þá bara vegna þess að heilinn var skilinn eftir við dyrnar. Og þar á hann að vera.

Allir aðdáendur sem lengi hafa slegist um þá pælingu hvor lurkana myndi sigra í slag græða fullnægjandi bíó en enga aðra Expendables-mynd, hvað í ósköpunum sem það segir.
sex
Besta senan:
Ahnuld fer í austurrískan ham.

Sammála/ósammála?