The Counselor

Mér dettur bara í hug hina viðbjóðslega leiðinlegu Hannibal, og hún rétt svo sleppur því Ridley Scott hefur gert hauginn allan af truflandi og ógeðfelldum myndum en aldrei neina sem er eins grimm og hugsanlega múd-skemmandi eins og The Counselor. Má segja að hún sé ekki beint gerð fyrir bíóáhorfendur nútímans en þetta er líka bókað ein kaldasta „stúdíómynd“ sem ég man eftir á fyrra bragði.

Þetta er auðvitað bara standard fylgidíll þegar Cormac McCarthy sest við ritvélina. Sérstaklega er þessi meistari góður í hægum, bítandi, óútreiknanlegum frásögnum sem rólega mála sálina öskugráa og smita mann með trúleysi höfundarins á mannkyninu. Ekki nema viðkomandi kjósi að líta á þetta sem raunsæja skoðun á mannskepnunni almennt og siðspillta umhverfinu sem hún getur komið sér í. Það er líka hægt.


Sem frumsamin handritssköpun Cormacs er The Counselor töluvert frá því að vera með því besta sem hann hefur gert en hún dregur fram villtari hliðina í honum. Myndin er lúmsk, móralslaus og nett sérstök. Óumdeilanlega hefði þetta komið betur út sem bók en hún nýtur góðs af töktum gamals fagsmanns sem fær stórar bíóstjörnur til að gera djarfa hluti. Cameron Diaz á þarna mestan heiðurinn fyrir að ríða sportbíl, mögnuðustu sjón sem ég bað aldrei um að fá að sjá. Að minnsta kosti fylgja viðeigandi viðbrögð með atriðinu.

Atburðarásin er annars viðburðarlítil (og eðlilegt er að mörgum finnist öll myndin mjög leiðinleg og/eða tilgerðarleg) en ófyrirsjáanleg og með góða hápunkta. Beiska eftirbragðið sem hún skilur eftir gerir glápið frústrerandi, en á góðan hátt og sýnist mér þetta vera ein af þessum myndum sem verður betri eftir að hún er búin að bakast aðeins í minninu. Gangverkin eru stöðugt á hreyfingu í þessu handriti og það skiptir öllu máli í sögu sem snýst minna um plottið og persónurnar í reglubundinni merkingu og meira um græðgi þeirra og andlega ruglið sem fylgir óhjákvæmilegu örlögum þeirra. Cormac kann svo sannarlega að koma þeim punkti til skila að afleiðingar fylgja því að fikta við eldinn.

Samtölin eru að megninu til hnífbeitt, fyndin, klikkuð, spekingsleg (stinkandi af þessum niðurdrepandi, gúrmé Cormac-isma); áhugaverð í heildina þó ýmis millistopp í seinni hlutanum dragast eitthvað á langinn. En þegar mónólogar eru svona stílíseraðir í mjög realískri mynd getur það leitt til þess að sumar senur, eða setningar ennfremur, missa marks á því að hljóma sannfærandi. Það er margs konar lög í þessum díalog sem dýpka oft persónuprófíla algjörra einfaldlinga, sem eru ekkert alltof viðkunnanlegir, með smáatriðum, vísbendingum eða földum undirtónum. Á móti koma aðrir hlutir sem æpa stundum of miklu út og verða því predikunarlegri á kameru.


Leikstjórinn er samt nógu snjall til að spotta þetta og hefur langoftast kunnað á leikara sína. Hann reynir að fá það mesta út þeim sem hann getur, m.a.s. alla aukaleikara sem fá allir að merkja sín litlu en mikilvægu hlutverk (eins og Bruno Ganz, Rubén Blades, Toby Kebbell, Natalie Dormer, John Leguizamo o.fl.). Fáir virðast vera í erfiðleikum með þessar brothættu línur en kreditið verður líka að fara til útgeislun leikaranna, hvernig þeir negla yfirborðskenndina í hverjum eftirminnilega einstaklingi.

Michael Fassbender er óhaggandi eins og alltaf og grúppan í heild sinni er undantekninglaust með fókusinn réttan. Javier Bardem er enn og aftur settur í súrara gervi en áður – sem ekkert er að, Brad Pitt fær eina svakalegustu senu síðustu ára á ferlinum, Penélope Cruz myndar saklaust mótvægi við alla aðra karaktera og Cameron Diaz dekkar hinn endann og ber í rauninni af öllum upptöldum. Diaz er vanalega best þegar hún fær að leika tussu og að sinni hefur tussukóróna hennar aldrei verið stærri, eða sitjandi á öðru eins sjálfsbjörgunareðli. Eins og sósíópatar séu ekki nógu truflandi þegar þeir eru heimskir, hvað þá þegar þeir eru með hlutina alla hugsaða út.

Þegar árið er að baki mun The Counselor eflaust standa uppi sem ein sú vanmetnasta frá árinu, en fráhrindandi eðli hennar er sjálfgefið. Kannski hefur Scott hlupið í þessa mynd sem útrás og kannski með örlítilli sjálfsskömm eftir bitlausu vonbrigðin sem Prometheus var (ef ég væri allavega nýbúinn að vinna með Damon Lindelof myndi ég hiklaust grípa í eðalpenna eins og McCarthy). Hvað sem gerðist, þá er ég feginn að hann gerði The Counselor til að sýna gamla þorið sem hefur vantað í kallinn alltof lengi.

atta
Besta senan:

„Hola!“

Sammála/ósammála?