The Hunger Games: Catching Fire

Catching Fire gerir mest allt rétt sem góð framhaldssaga á að gera; hún byggir ofan á forvera sinn með því að hækka hættustigið, auka dramað, þematísku dýptina og stækka heiminn sinn. Stundum er erfitt að vera „miðjubarnið“ í þríleik (eða tæknilega séð fjórleik, úr því að lokasögunni verður skipt í tvo hluta) en þessi kafli spjarar sig meira en heppilega.

Ef þemun og allt í kring er strípað niður, þá er þetta næstum því sama mynd og The Hunger Games, bara aðeins betri, meira spennandi og reiðari. Þetta sama á við um bækur Suzanne Collins. Uppbyggingin er nákvæmlega eins en samhengið gerólíkt, persónusköpunin er tekin á næsta stig og þjáist Catching Fire-myndin heldur ekki af sömu (smá)göllum og sú fyrri. Það er reyndar enn svolítið climax-issue í flæðinu, því ósjálfrátt býst maður við ákveðnum lokakrafti þegar setan nær yfir þessa lengd, en leikvangurinn í þessari lotu er 20 sinnum líflegri, og allur seinni helmingurinn yfirhöfuð uppteknari. Samanburðurinn við Battle Royale myndi ég líka segja að hafi dvínað. Þetta er komið aðeins meira út í Truman Show áttina … með morðum og undirliggjandi byltingu.

cf-25Það getur alltaf verið áhætta að skipta um leikstjóra í miðri seríu. Gary Ross lagði frábæran grunn með fyrri myndinni og persónulega var ég smeykur um að „afleysinginn“ Francis (óskyldur Jennifer) Lawrence myndi ekki takast að toppa hann, að hluta til vegna þess að framleiðslan á framhaldinu tók helmingi styttri tíma. Francis er samt einn af þessum gaurum sem hafa sýnt fram á mikla hæfileika en bara vantað að landa virkilega góðu handriti. Líkurnar voru samt með honum og sé ég engin greinileg merki um fljótfærni, en þétta og einbeitta aðlögunin hefur eflaust mikið dregið úr öllu falli. Samanlagt eru handritshöfundarnir tveir með fimm Óskarstilnefningar á skránni og sitthvorn sigurinn.

Þótt að Francis hafi kannski ekki sett upphaflega tóninn, valið aðalleikarana eða kortlagt hönnunina sökkvir hann sér í þessa dystópíuveröld eins og hann hafi unnið að henni áður. Hann pússar gamla stílinn betur, t.d. með því að losa sig við flogakennda kameruhristinginn sem Ross var svo hrifinn af og hleypa aðeins meiri húmor og lit í heiminn. Það mátti alveg, og hvorugt er ofgert. Aukinn framleiðslukostnaður þýðir líka flottari brellur, fyrir utan eitt kjánalegt og ógrípandi apaatriði í leikunum. Það er eina skiptið sem ég fann fyrir því að þetta væri sami leikstjóri og gerði I Am Legend.

Persónurnar með einkennilegu nöfnin snúa allar aftur og bætast fleiri við, töluvert fleiri, sem er reyndar gott. Helstu persónurnar eru nokkurn veginn negldar niður og með nóg þróunar- og þroskarými en aukapersónurnar bæta mikilli dýnamík í heildina, enda flestar ef ekki allar litríkar. Hin sjóðheita Jennifer Lawrence – sem gerðist Óskarsverðlaunahafi á milli mynda – er áfram meiriháttar í hlutverki eldpíunnar Katniss. Styrkleikar hennar sem einhver svalasta leikkona sinnar kynslóðar gæða sterka persónu svo miklu lífi og það er að hluta til hennar vegna að þessi bíósería heldur svona sterku flugi, en allir í kringum hana hjálpa óskaplega mikið til.

Það er brengluð huggun í hinum þvílíkt viðkunnanlega Josh Hutcherson og sakar lítið að sjá Liam Hemsworth gera meira en að stilla sér upp. Donald Sutherland fær sömuleiðis að skína aðeins meira, og þetta er andlit sem er fætt til að túlka fasistafígúru eins og Snow. Allar breytingar úr bókinni sem sýna fleiri hliðar forsetans (þar sem bækurnar eru alfarið sagðar frá sjónarhorni Katniss) tel ég vera jákvæðar.

Woody Harrelson, Elizabeth Banks (sem nú fær að sýna að trend-trúðurinn sem hún leikur er ekki algjörlega hjartalaus) og Stanley Tucci halda áfram að draga alvarleikann aðeins niður og ég fæ aldrei nóg af hlýjunni sem er þarna innbyggð í Lenny Kravitz. Nýgræðingarnir gætu vart verið velkomnari; Philip Seymour Hoffman er hörkuviðbót, passar fullkomlega þangað sem hann er settur og hef ég ekkert út á t.d. Jenu Malone, Sam Claflin eða Jeffrey Wright að setja, né neinn annan, en þau standa upp úr.

Catching Fire er ekkert voða gagnleg ein á báti og heldur ekki laus við þá bölvun að vera hvorki með byrjun né endi, en hún er trú bókinni og gerir henni frábær skil. Ég myndi hiklaust segja að traustustu lesendur þríleiksins ættu í sameiningu að vera megasáttir með þessa útkomu ef þeir dyttu ekki alltaf á endanum í þann pakka að finna eitthvað til að pikka í. Af stærstu blockbuster-myndum sem ég hef séð á þessu ári er þessi með þeim betri og skarpari, m.ö.o. geggjuð unglingafantasía með pólitísku ádeilubiti og dekkra andrúmslofti heldur en finnst vanalega í stórum „fullorðinsmyndum“.
Næstum brill. Næsta skammt…

atta

PS. Voðalega sýgur samt þetta titla-mótíf, s.s. að líma „The Hunger Games“ fyrir framan rétta heitið, af eingöngu markaðstengdum ástæðum (þ.e.a.s. kvíða um að fólk myndi ekki vita tenginguna). Þessi mynd var bókað aðsóknargull frá fyrsta framleiðsludegi, hvaðan kemur þessi hræðsla?!

Sammála/ósammála?