The Fifth Estate

Í stuttu máli: Ekki nógu ögrandi, nálgunin er umdeilanlega í rugli og Benedict Cumberbatch getur reddað sér út úr öllu, meira að segja úr efni sem rétt verður að miðjumoði. Nú kemur lengri útgáfan…

Það eru ekkert rosalega margar áttir sem þessi „WikiLeaks-mynd“ gat farið í með þessa frásögn sína. Það fer allt eftir afstöðunni sem hún tekur, og ef ég met hana hlutlaust, þá er hún voða óreiðuleg og misáhugaverð en ef ég set mínar eigin skoðanir inn í málið, sem ég vil helst ekki gera of mikið, þá sé ég hana sem ekkert margt annað en Hollywood-filteringu og mynd sem þráir að vera eins góð og The Social Network með örlitlu áróðurstvisti. Ómerkileg mynd um merkilegan hlut, getur varla orðið þurrara en það.

The Fifth Estate ætti að vera ofsalega djörf, mikilvæg mynd (hvar er „gamli“ Oliver Stone þegar maður þarf hann? Sjálfur Sorkin hefði einnig dugað) en hefur valið kolvitlausa leið til að segja „alvöru“ sögu sína. Beint leiðir þetta til þess að hún verður gjörsamlega bitlaus, þ.a.l. áhrifalaus og með stuðandi flutning á skilaboðum sínum, ástæðurnar eru tvær:

a) Það kemur beint út eins og bandaríska ríkisstjórnin sé (óbeint) að reyna að láta sig líta betur út, og b) WikiLeaks-hausinn Julian Assange er skilyrðislaust sýndur í neikvæðu ljósi. Ég hefði ekkert kært mig frekar um það að sjá hann málaðan sem dýrling en þegar myndin er samhengislaust farin að minna okkur á t.d. kynferðisbrotakæru – sem kemur umfjöllunarefni myndarinnar sama og ekkert við – þá er augljóst hvar hollusta handritshöfundarins liggur. Sérstaklega í ljósi þess að hann tók tvær neikvæðustu bækurnar um Assange og skrifaði efnið upp úr því.

Myndin ætlar sér reyndar að svara svona gagnrýni með vægast sagt áhugaverðu lokaatriði, og hvetur áhorfandann óbeint til að mynda sína eigin skoðun á sannleikanum. Það er alltaf jákvætt, en frústeringin og fyrirsjáanlegi mórallinn sem myndin dregur upp gerir hana ótrúlega ómarktæka, og á endanum tilgangslausa, að því algjörlega ógleymdu að hún potar sjálf göt í þann sannleika sem hún ætlar sér að segja. Fyrir aðdáendur sannsögulegu snilldarinnar The Insider þá er þetta eins og að sú mynd hefði skipt um gír og ákveðið að lítimagninn væri í raun óvinurinn eftir fyrri helming.

Á tæknilegu stigi er The Fifth Estate mátulega vel unnin en gerir það lítið til ef notagildið er afskaplega aumt og fátt gert til þess að vekja mann til umhugsunar (með efni sem býður upp á það í bílaförmum). Myndin flæðir ágætlega, hún er stanslaust upptekin en felur hvorki dýpt né þyngd í sér, fyrir utan allt sem Cumberbatch gerir til þess að tryggja það að hann er hreinlega of góður fyrir þessa mynd. Með beittara handriti með aðeins öðruvísi viðhorfi og fókus hefði verið ótvírætt Óskars-kalíber efni hérna, að hluta til vegna þess að Cumby kóperar Assange alveg fjandi óaðfinnanlega. Þetta er auðvitað leikari sem gæti leikið hurðaskraut með sannfærandi hætti, en sjaldan finnur maður svona góða lykilframmistöðu í mynd sem á hana ekki skilið.

Það eru reyndar flestir leikarar í myndinni býsna góðir en hérna þýðir það varla annað en að þeir gera flatar senur aðeins betri því allt þetta eru góðir leikarar, eins og Daniel Brühl, David Thewlis, Laura Linney, Stanley Tucci og Anthony Mackye. Sniðugast hefði verið að sleppa algjörlega helmingnum þeirra og öllu þessu subplotti með Washington. Leikstjórinn (ræðum hann síðar) virðist vera eitthvað óákveðinn í því hvort hann sé að gera sjónvarpsþriller eða sína eigin Social Network.

Cumby og Brühl smella vel saman en gallinn með þeirra samband er hversu hálfbakað það er. Þótt Assange sé teiknaður út frá mörgum hliðum (flest allar neikvæðar, og spilað er grimmt með það hversu mikill félagsfáviti hann er) þá er heilum helling sleppt eða skimað yfir, og Bruhl er ekki með eins mikið svigrúm til að anda. Samband og sambandsþróun þeirra gerir það ekki heldur þegar hitt plottið truflar alltaf. Það hefði alveg verið hægt að sleppa því og taka annan vinkil á ríkisstjórnarpanikkið.

Gleyma má því ekki að þessi mynd kemur frá nokkrum Bill Condon, leikstjóra sem byrjaði glæsilega en þrepaði sig svo niður með hverri mynd. Fór hann úr gæðastöffi eins og Gods and Monsters yfir í það að klára Twilight-seríuna, og ráðinn nú til að koma því til skila að of mikill sannleikur getur varla verið góður hlutur. Assange er augljóslega ekki stuðningsmaður þessa verks, en persónulega veit ég ekki hvort að hann eigi að vera sáttari eða ósáttari með þá staðreynd að bíómyndin um hann kom ekkert betur út en sitthvor Breaking Dawn-myndin.

Það eru þematískir afgangar hér og þar sem díla við félagslegar fórnir, siðblindu og einangrun en framvindan verður bara svo grunn, fyrirsjáanleg, þjöppuð og aulaleg. Condon reynir að skreyta skjáinn eins og hann getur og halda flæðinu með klippingartakti, til að hylja það að þetta er ekki beinlínis saga sem öskrar að vera sögð á stóru bíótjaldi, enda situr fólk oft bara og talar saman eða tæpar mjög mikið á tölvur, að gera oft sömu hlutina. Kannski er það þess vegna sem það er svona sjónvarpstónn á henni (og wannabe Fincher-fílingur í tónlistinni). En til þess að reyna að gera tölvustöffið áhugavert og útskýra fyrir tækniheftum hvað er í gangi kemur Condon með asnalegt visual mótíf sem engan veginn virkar. Ég kunni betur við það þegar skjásamtöl eru stöfuð út á rammanum, en mér finnst svosem ekkert alltaf að því að lesa myndirnar mínar – en þessi les aðeins of mikið upphátt fyrir mig.

The Fifth Estate er hönnuð með formúlu til að ná til þeirra sem eru mest áhrifagjarnir. Hún losnar við það að vera leiðinleg og það er sjálfsögðum hápunkti að þakka og bröttu rennsli. Maður græðir samt mest bara á því gera eins og myndin segir sjálf reynir að segja eftir áróðurinn: að kynna sér málið. Gúglið bara WikiLeaks í hel ef þið vitið ekki nóg um þetta, lesið bréfin frá Assange, skoðið viðtöl við hann, móthliðar o.s.frv. bara helst ekki láta Twilight-leikstjórann mynda skoðunina fyrir þig.

fimm

PS. Fyrir þá sem veit ekki hvað „Establishing skot“ þýðir þá er það í rauninni kvikmyndarammi sem leggur víða áherslu á svæðið/staðinn/borgina/húsið (o.s.frv.) sem ákveðið atriði gerist á/í.
Fifth Estate gerist að hluta til á Íslandi og í henni kemur fram eitt slíkt sem kom mér skemmtilega á óvart og með Paint-kunnáttu minni reyndi ég að endurskapa það sem sést, svo fólk sjái hvað máluð er raunsæ mynd af okkar dásamlegu höfuðborg:

rvk

Sammála/ósammála?