Skemmtilegur sori: Ófeigur gengur aftur

(Skemmtilegur sori er liður þar sem undirritaður horfir á mynd sem er svo ólýsanlega slæm að hún breytist ósjálfrátt í stórskemmtilega drasl-afþreyingu, eða vonar að minnsta kosti að hún breytist í slíka. Greinin gengur út á það að kryfja umrædda mynd og finna út nákvæmlega hvað það er sem gerir hana svona misheppnaða – helst í 25 atriðum.)

bannerinn

Leikstjórinn Ágúst Guðmundsson gerði eina af fyrstu íslensku myndum frá upphafi í fullri lengd: Land og synir. Einn fyrstur fagmanna til að taka þetta mikla skref og setja tóninn fyrir okkar kvikmyndagerð (takk?), sópaði síðan til sín fjölda og költ-dýrkun með fyrri Stuðmannamyndinni, missti allt niður um sig með þá seinni – og svo kom Ófeigur.

Ef þessi ferill væri vegur þá gæti ég eingöngu rennt mér niður hann með rassaþotu. Þetta er hins vegar kröfuharði fýlupúkinn í mér að tala um verkin út frá gæðum. Ég fíla gæði. Og Ófeigur er miður tótal drasl en ég tek það svosem ekki frá leikstjóranum að til er fjöldinn allur af jafnöldrum hans sem gera sér engar spes kröfur og njóta þessara 90 mínútna með kleinubitum og léttmjólk. Fyrir mér er þó algjör mystería hverjum myndin er í rauninni ætluð. Ég giska „öllum“ en ég sé varla annað en að hún virki fullbarnaleg fyrir fullorðna og of mikið á kafi í fullorðinsundirtónum fyrir krakka. Og unglingarnir? Ekki séns.

Miðað við strögglandi kvikmyndaiðnað sem vill koma vel út á alþjóðamarkaði finnst mér samt grimmt að sjá mynd sem er annars vegar 15-20 árum of sein, tónalega í sukki og með ranghugmyndir um eigið notagildi.

GALLAR:

(raðaðir eftir „tímaröð“ í myndinni – kýlum á’edda!)

Nr. 1. Myndin heitir Spooks and Spirits á ensku. Og ég taldi þá ekki marga. En samt of marga. Fyndið.

Nr. 2. Ríkjandi píanóskorið er ánægjulega retró og voða Woody Allen-legt, en algerlega fretandi þegar tónninn stefnir í flækju, sem hann svo innilega gerir.

Nr. 3. Ilmur Kristjáns og Gísli Örn leika hið dæmigerða krúttpar. Þetta undirstrikast með aulahrollvekjandi stæl hvað þau leiðast mikið og brosa. Ég met nú sjálfur svoleiðis í daglega lífinu en ekki stoppa ég fyrir utan rólóvelli og horfi á krakka ef ég er kominn í barneignahugleiðingar. Þetta atriði er svo fyndið að það er rangt. Eða öfugt.

Nr. 4. Halldóra Geirharðs getur frábæra hluti (sjá Málmhaus!), óendanlega góða, en að taka spassakast á miðilsfundi og “channela” vondan Ladda (við komum að honum) er ekki eitthvað sem ég myndi vitna oft í fyrir framan annað fólk ef ég væri hún.

ofeig

Nr. 5. Þegar píanómúsíkin (já, hún aftur) er byrjuð að eltast við eitthvað drunga-atmó verður hún svo lúðaleg að ósjálfrátt byrjar heilinn að ímynda sér gæjann við sjálft píanóið í einhverjum ham, og hann er grenjandi. Myndin býr að vísu til plott-afsökun til þess að fókusera svona á píanóhljóma (og Gísli fær einn skrambi fyndinn brandara tengdu þessu). Skringilega, eftir þetta hverfur tónlistin í óvenju langan tíma. En kemur alltaf aftur.

Nr. 6. Myndin stoppar allt „plottið“ eftir svona korter til að leyfa Eddu Björgvins að vera… Edda Björgvins. Krúttið hún… en gagnslaus uppfylling, ein af óteljandi mörgum, en til þess að geta talist sem uppfylling þarf þá fyrst og fremst að vera markvisst innihald sem þekkir sína tengipunkta. Ég get þess vegna eiginlega kallað þetta uppfyllingu. Orðatillögur eru þegar með þökkum.

Nr. 7. Ilmur fer næstum því úr öllu að ofan en rétt hættir við. Á ég að vera þakklátur eða fúll?

Nr. 8. Hér er góð leið til að gera Ladda meira óþolandi: gerum hann bláhvítan og geislandi…

Nr. 9. …og látum hann á einhverjum tímapunkti segja: „Veistu hvað það er langt síðan ég FÉKK ÞAÐ?!“

Nr. 10. Ljúfan hún Nína Dögg kemur inn í myndina, skoðar sig aðeins um, og lætur sig svo hverfa. Alltílæ’bless.

11. Það er heill „skets“ byggður í kringum það að Gísli byrjar allt í einu að springa af greddu. Voðalega ódýrt.
Dö.

ofeig4

12. Allt exposition-ið í myndinni hljómar eins og það sé skrifað af manneskju sem hefur ekki aðlagað sig mikið með þróanir á tungunni síðustu áraraða, eins og allt handritið ef þangað er farið.

13. Þegar handritið fiska eftir því að gera eitthvað fyndið eða ærslafullt, breytast allar persónur í algjörar viftur. Það tekur stundum á að sjá hversu heimskar persónur geta verið þegar ætlast er til þess að taka þær alvarlega.

14. Samkvæmt þessari mynd getur hver sem er stolist í glerbúr í Þjóðmynjasafninu og tekið það sem hann vill. Ef ég reyni þetta sama og verð böstaður þá kenni ég herra Guðmundssyni um.

ofeig2

15. Gísli er soddan hetja og nær einhvern veginn að sannfæra mig í öllu sem hann segir og gerir í myndinni, og það er MIKIÐ sagt, því enginn annar gerir það. Það ofleika bara allir með úreltar línur sem drepa allan trúverðugleika. Gísli er sá eini sem ég keypti, en bara rétt tæplega. Það er ekki hver sem er sem getur tautað galdraþulur í svona mynd og komið út úr því skammarlaust.

16. Ég nota oft orðið exposition og hér er skelfilegt hversu miklu af því er dömpað. Aðstandendur þessarar myndar hefðu mátt fletta þessu orði betur upp, og síðan átt að velja sér einn söguþráð og halda sig við hann.

17. þegar Elva Ósk stígur inn í myndina – eftir tæpan klukkutíma – er hún komin á allt, allt annað feil spor. Það síðasta sem hún þurfti var að troða öðrum draugi inn í söguna þegar þeir eru þegar einum of margir. Elva öskrar, æpir, skrækir og kastar út kjánahrolli.

ofeig3

18. „Þetta eru draugar, alvöru draugar!“ – neibb, ekki einu sinni Raggi Braga gæti gert þessa setningu sannfærandi.

19.

Ófeigur fjallar um graðan draug sem vill fá sér að ríða í gegnum son sinn og tengdason sinn…
Ófeigur fjallar um graðan mann sem vill reka út graðan draug svo hann geti sjálfur fengið að ríða…
Ófeigur fjallar um par sem reynir að selja hús sitt…
Ófeigur er sambandssaga sem dílar lauslega við framhjáhöld og vofur…
Ófeigur er gamansöm, yfirnáttúruleg spennusaga um leiðina að losna við fyllibyttudraug…

Kræst, Ófeigur – haltu þig við EINN söguþráð!

20. Ó jibbí, íslenskar tölvubrellur.

21. Því lengra sem líður á myndina, því neikvæðara ljósi er persóna Ilmar sýnd í. Frammistaða hennar speglar samtalsgæðin beint en átti kannski ekki alveg skilið fúla tussustimpilinn sem er skelltur á hana.

22. Ógeðfellt fyrirsjáanlega óléttutvistinu (þökk sé senunnar þar sem parið glápir á leikandi börn) er bjargað með skondnu kommenti um tíðablóð.

23. Hér er annað orð sem leikstjórinn mátti lesa sig til um: Climax, ásamt fjölda leiðarvísa um hvernig á að framkvæma svoleiðis.

24. Endirinn er voða gervi-krúttó og allt það, þangað til…

lokaskot

25. Í himnaríki bíður manni fátt annað en – jú, hvað annað – PÍANÓ!

piana

NIÐURSTAÐA:

Gísli segir: „Þú ert dauður!“
Laddi svarar: „Og þú… ert leiðinlegur.“

Í þessum litlu samskiptum lýsir myndin best sjálfri sér. Húmorinn er dauður og leiðinlegur, allt þetta handrit og blessaða andsetta heildin. Framleiðslan var dauðadæmd frá fyrsta tökudegi, Laddi er leiðinlegur, Ófeigur er leiðinlegur, ég er ábyggilega leiðinlegur og kannski hlotinn vægum heilaskaða með píanóhljómi bergmálandi í kollinum eftir þetta skýskot.

Sori? Já. Skemmtilegur? Nei. Ekki í þetta sinn.

Stundum er ein ekki nóg til að halda einum sora lokuðum en þessi mynd fær átta ruslafötur af tíu.

2 athugasemdir við “Skemmtilegur sori: Ófeigur gengur aftur

  1. Sammála um hvað myndin er léleg. En greinarhöfundur sem skrifar svona langan og gagnrýnan pistil og birtir opinberlega, hann þarf að hressa upp á stafsetningar- og málfræðikunnáttu sína svo um munar.

  2. Sæll Rindpoop.
    Það getur – og hefur – margt breyst á fjórum árum, enda er greinin (sem ég viðurkenni að hafi farið óyfirfarin inn) frá 2013.

    Kann samt að meta gagnrýnina. Gleðilegt ár!

Sammála/ósammála?