Machete Kills

Jebb, subbuleg getur skrattans sveðjan verið en lítið er við hana að gera ef bitið er farið. Það að Machete Kills skuli ekki vera ein skemmtilegasta og ruglaðasta bíóafþreying ársins er bæði ofar mínum skilningi. Myndin er hlaðin þvælu þar sem ekki er beðið um annað en að láta klappa fyrir sér og styðja, frá stíliseraða, kómíska últra-ofbeldinu til hressu leikgrúppunnar sem er einungis þarna til að skemmta sér og vera svöl. Eitthvað aðeins fór þetta úrskeiðis.

Allt sem kallast ekki barnaefni þigg ég glaður frá Robert Rodriguez en það er að vísu pirrandi í senn að vera orðinn löngu þreyttur á brandara sem maður vill í alvörunni að gangi upp, eða að minnsta kosti þreyttur á framkvæmdinni á honum. Rodriguez ætti svosem að vera búinn að slíta sig frá Grindhouse-nostalgíunni og hætta að fela sig á bakvið hana til að afsaka það að vanda síður til handritsverka og skemmta sér meira. Þetta er ein af ástæðunum af hverju hann á svona auðvelt með að stökkva til barnamynda, því þar kemst hann betur upp með að gera þær slæmar.

mace

Það er hæpið að segja að Machete Kills geri ekki neitt rétt því í rauninni er þetta algjörlega myndin sem hún vill vera. Rodriguez tekur „MEX-ploitation“ flippið sitt upp á annað, tjúllaðra stig með heimagerðri B-mynd sem er næstum því jafn ánægð með það að vera ýkt og yfirdrifin og hún er ánægð með sig sjálfa. Hún skýtur oftast algerum loftskotum þegar kemur að gríninu og teygir vel á þeim fína lopa sem hún hefur. Í fyrri myndinni var gert það sama nema nú hefur brandarinn enst lengur og formúlan er þynnri og þreyttari.

Sjálfumgleði og ofmat verður oft góðu gríni að falli og Rodriguez nær heldur ekki að viðhalda viðeigandi orku sem þarf til að halda svona ruglteiti gangandi. Hugmyndin er geðveik, ofbeldið er (þannig séð) geðveikt, leikararnir reyna að vera geðveikir, það er allt þarna á borðinu. Ég veit ekki hvort kemur verr út fyrir Rodriguez; það að hann gerði lélega mynd eða mistókst það markmið að gera lélega mynd skemmtilega.

Machete-Kills11

Þegar ég ímynda mér t.d. „Carlos Estevez“ sem forseta, Lady Gaga sem leigumorðingja, Mel Gibson sem „Bond-illmenni,“ Demian Bichir í tvöfaldri rullu og Sofiu Vergara maníska með túttubyssur á barminum (og kunnuglegum typpahólk að auki) er allt sem hugaraugað sér töluvert fyndnara, villtara og skrautlegra heldur en nokkurn tímann útkoman. Þetta fólk, ásamt auðvitað hinum dásamlega óbrosmilda Danny Trejo, er það sem gerir glápið eitthvað nálægt skemmtilegu, stundum vandræðalegu, en þetta er talsverð sóun á fólki og flipphugmyndum, sérstaklega þegar handritið reynir að kasta þeim á milli sín og finna eitthvað fyrir alla til að gera. Þarna kemur hinn gallinn: myndin er of upptekin að plotti sem öllum (áhorfendum, aðstandendum, ÖLLUM) er feitt sama um og eyðir tíma í alls konar þurra tengipunkta til að reyna að fylla upp í bólgna lengd í stað þess að halda keyrslu og reyna að leyfa heilanum að staldra of lengi.

Myndin byrjar svosem þokkalega. Í upphafsatriðinu er dúkkan hún Jessica Alba skotin í hausinn og var ég strax þá viss um að restin yrði töluvert skemmtilegri en öll fyrri myndin. Kreditlistinn er rokkandi góður sem fyrr og stillir múdið glæsilega, enda töff tónlist, út í gegn – og ef út í það er farið er kvikmyndatakan að sinni miklu betri en fyrr. Byrjunin færir sömuleiðis þær jákvæðu fregnir að Rodriguez sjálfur skrifaði ekki handritið að þessu sinni. Það útskýrir líklega af hverju atburðarásin er örlítið skýrari núna, ekki eins flækt og langdregin, en dæmigerðari í staðinn af sökum þess að vera ein af ábyggilega fimm þúsund myndum til að koma með eigið djók-tvist á Bond-formúlu. Mest stelur hún þó frá Moonraker, fyrir utan allt fríkaða draslið í geimnum. Það á að koma síðar. Slappt.

Machete-Kills-3
Eins og allur climax-kaflinn hafi ekki verið nógu ófullnægjandi í hinni myndinni þá er vandinn verri hér. Allur þessi „set-up“ fílingur gerir Machete Kills almennt ófullnægjandi og voða gagnslausa. Hún gerir líka þau mistök að sýna besta brandarann (sem er samt eiginlega ekkert það fyndinn) alveg í byrjuninni, og það er feik-trailerinn fyrir Machete Kills Again… in Space! Að skella þessu beint fyrir framan Kills voru vond mistök svo mörgum levelum. Þarna sér maður beint hvaða karakterar munu greinilega ekki deyja í „forveranum“ sem fylgir á eftir – sem gerir alvöru myndina þeim mun meira óspennandi – og sýnir alltof mikið af frábærlega rugluðum geimhasar sem aldrei er neinn séns á að toppa í myndinni sem var borgað fyrir. Aðsóknartölur Kills vekja reyndar spurningarmerki um það hvort Space muni gerast. Við lifum það af.

„Kannski“ er allt Machete dæmið einfaldlega gott í smærri skömmtum (þegar áhorfandinn leyfir sér að ímynda sér stærri atburðarásina sjálfur í stað þess að sjá hana lagða út), „kannski“ er Rodriguez bara ekki lengur með mojo-ið sem hann hafði þegar hann hafði m.a. við gerð Mariachi-myndanna eða Planet Terror, kannski er mórallinn bara of góður á setti til að einbeitingin haldist skörp, aldrei að vita. Kannski er Machete Kills bara fyrst og fremst feilað grín, enn feilaðri sem póst-módernísk exploiation-steypa og tilgangslaus viðbót. Fáeinir sprettir rétt toga henni á loft en tapa á því hversu langt er á milli margra þeirra.

Gæfan veri með þér, Sin City 2.

fjarki

Besta senan:
„Put on your 3D glasses“.
Ah, Amber Heard. Fröken box-office eitur.
Heitt eitur samt.

Sammála/ósammála?