The Hobbit: The Desolation of Smaug

Ekki má vanmeta það hversu erfitt djobb er að vera miðjan í þríleik. Sannast sagna getur það stundum líka verið það skemmtilegasta ef haldið er rétt á spilunum, en hversu erfitt ætli þá sé að vera þar staddur í þríleik sem upphaflega var ætlaður að vera tvíleikur?

Skurðpunktinn er hér að finna, þar sem upphaflega átti að enda fyrri myndina og hefja þá seinni og maður finnur fyrir því í flæðinu. Lengi má svosem tuða um þessa þrískiptingu á aðlöguninni eða stækkuna á svona brattri bók og sérundirbúið „forsögumeðlæti“ en Peter Jackson sýnir þessu a.m.k. af áhuga eins og óður krakki, þó kannski ekki alveg sömu þráhyggju og ástríðu og hann sýndi The Lord of the Rings. Það gagnast þó lítið að dæma heildina fyrr en hún er kláruð. Upp að þessum punkti hafa þessir tveir þriðjungar verið ánægjulegir en ábótavant og með forgangsröðina aðeins of ruglaða. En sama hversu stórt fjall af göllum myndast er heimurinn, útlitið og skreytingin fullmögnuð til að gera setuna of óspennandi. Þetta er dekkri og fjörugri kafli heldur en sá fyrri, fljótari að líða en bergmálar eins og tunna þegar kemur að efnistökum. Sniðugast er að líta bara á þetta sem mjög langa hasarmynd með nóg af töfum inn á milli.

The Desolation of Smaug finnur sig bara engan veginn sem næstum-því-sjálfstæð, römmuð heild og millipestin er undarlega mikil. Ég læt hangandi vandann í friði að hún hefur hvorki byrjun né endi, frekar set ég spurningarmerki við það hvers vegna dramatískar þróanir eru í svona miklu lágmarki og almennt innihald nær lítið út fyrir teygða og stundum gagnslausa eltingarleiki og enn fleiri uppraðanir fyrir það sem koma skal – eins og það hafi ekki verið þegar haugur af þeim í fyrri lotunni. Myndin er að vísu fljót að henda sér í gang eftir alla hlauporkuna sem hafði safnast áður. Í góðan klukkutíma eða svo er farið óvenju hratt yfir atburðarásina, nema í hasaratriðum – athugið það – svo kemur lægð og prýðileg uppbygging að drekaplottinu stóra áður en lokahálftíminn kynnir fyrir manni flottasta Tolkien-tölvuleik sem duga verður að glápa á og aldrei spila.

Öll persónusköpun er eins ber og hún kemst upp með að vera og litlu sem engu kjöti bætt ofan á. Sjálfur titlaði Hobbitinn hann Bilbo er ýttur í bakgrunnin sem karakter og frásögnin teygir margoft úr hinum ónauðsynlegustu hlutum upp að slitmörkum, hleypur síðan yfir aðra mikilvæga hluti (villibangsinn hann Björn tapaði þarna sérstaklega einhverju vondu veðmáli). Extended-útgáfa gæti lagfært þessa galla en það myndi samt þýða að ofureinföld atburðarás væri komin í rausnalegri lengd.

Hápunktarnir eru hins vegar sterkir, eins og kóngulóahasar sem hefur verulega reynt á fóbíu leikstjórans, mest allt sem Ian McKellen segir og gerir (sem er miður lítið), allir brandarar frá feitasta dvergnum og fyrstu kynnin við dóminerandi drekann hann Smaug. Stöku sinnum koma fyrir móment þar sem Jackson fangar anda og fíling Hobbit-bókarinnar beint í krukku, þetta atriði er þar á meðal og eitthvað er aukalega ljúft við það að sjá Sherlock-dúóið kasta því á milli sín. Martin Freeman er áfram í essinu sínu þegar sagan ákveður loksins að hann eigi að vera frontmaðurinn. Benedict Cumberbatch sér hins vegar um að stela myndinni, einungis með því að leika með andlitinu, röddinni (ah, þessi rödd) og að vera í þeirri forréttindastöðu að brellusnillingarnir hjá WETA hafa hart toppað sig sjálfa með útkomunni á Smaug. Einn frægasti dreki í sögu bókmennta breytist á eldfljótu bragði í einn sá flottasta í kvikmyndasögunni. Jackson og co. hafa alltaf kunnað á villtustu dýrin.

Dvergarnir eru nokkrir enn í svolítilli minningarmóðu fyrir utan þessa sem maður þekkti nú þegar. Þeir sem áður fengu einhverja athygli fá að sýna fleiri hliðar á sér, sérstaklega Richard Armitage sem leikur Thorin, en eingöngu gert til að planta fræin fyrir næsta kafla. Ekki er ég annars frá því að Orlando Bloom fái betur að skína heldur en Bilbo í (hingað til) tilgangslausri endurkomu. Honum er smeygt inn í þessa sögu til að hoppa um, skjóta, fljúga og þjóna aðdáendum eins og karakter í leit að örk. Besta viðbótin kemur frá ljúfunni Evangeline Lilly, sem leikur álfamær sem kom textum Tolkiens aldrei neitt við. Hún virðist vera þarna sem uppfylling en er samt áhugaverð persóna og nánast sú eina sem fær einhverja þróun í þessu ævintýri eða flytur einhvern vott af mannlegheitum inn í þennan kafla. Þeir Lee Pace og Luke Evans gefa líka frá sér mikla útgeislun með það sem þeir hafa í bili.

Í síðustu mynd var ég fyrir vonbrigðum með það hversu oft Howard Shore endurnýtti gömlu stefin sín. Það hefur farið blessunarlega minnkandi en ólánið í því láni er að músíkin sem eftir stendur er flöt, óeftirminnileg og vekur aldrei mikilfenglegu gæsahúðina sem maður vill. Óaðfinnanlega útlit framleiðslunnar breytir því ekki heldur að Jackson gerir ekki alltaf góða hluti með dýrkun sinni á tölvubrellum. Í Hringaþríleiknum studdist hann við helling af útisettum, módelum, líkönum, gervum og öðru slíku en í Hobbit-myndunum eru tölvur farnar að sjá um 80% af öllum reddingum sem gerir veröld Miðgarðs áfram ómótstæðilega en ekki eins áþreifanlega og hún var. Og vill endilega einhver PLÍS segja mér hvers vegna nokkrir rammar voru skotnir á GoPro vélar?!

Mér finnst eins og það eigi að vera ósanngjarnt að bera saman Hobbitaþríleikinn of mikið við Hringadróttinssöguna. Svo væri í rauninni ef PJ hefði kvikmyndað bókina með einfaldari hætti en gæðastandardinn hækkar ósjálfrátt þegar hann er farinn að tækla þetta sem hálfan Hobbita og hálfa forsögu fyrir Hringinn. Það er enn umtalsverður tónaruglingur sem myndast út frá þessu, sem er eðlilegt þegar Hringurinn er þyngri en Hobbitinn aðeins skrípalegri og meira gaman, en leikjafílingurinn setur þennan þríleik mikið úr takt við hinn. En til samanburðar kunni The Two Towers verulega á tökin með það að vera miðjumynd og – ef eitthvað – naut sín sérstaklega með það. Hún passaði sig allavega að tapa aldrei athyglinni á central-fígúrunni, annað en þessi, og var að sjálfsögðu alltaf römmuð sem miðja frá upphafinu. Svoleiðis skiptir oft máli í stað þess að reyna að sjóða saman miðju í eftirvinnslu tveggja langra mynda.

En jú, ókei, The Lord of the Hobbit: The Desolation of Smaug er semsagt þunn, töfralaus og 10 hasarmínútum of löng, en þó fínasta ævintýri og góður tíser fyrir vonandi betri og pakkaðri mynd. The Battle of the Five Armies lofar einhverju sóðalega stóru. Stærstu kaflar Hobbitans eru eftir og síðan magnast upp viðbótirnar. Ég er líka að meta pínu grimmdina í Jackson að slíta sögunni á þeim klunnalega stað sem hann gerir. Maður verður alltaf pínu frústreraður á góðan hátt þegar maður lendir á góðum cliffhanger en í þessu tilfelli blandast eftirbragðið saman við tilfinninguna að hafa horft á ferlega mikið sem var á seiði, en samt eitthvað svo lítið.

fin

Besta senan:
Cumby vaknar.

Sammála/ósammála?