Ender’s Game

Þótt höfundurinn og hommahatarinn Orson Scott Card sé soddan ógeð þá er Ender‘s Game bókin hans því miður skyldulestur fyrir alla sci-fi unnendur, eða hverja þá sem eftir eru og hafa ekki lagt í hana.

Góð bíóaðlögun á henni var eitthvað sem ég taldi ómögulegt að sjá, því þyrfti þá bæði mikið hugrekki til þess að hálfu framleiðenda að ganga alla leið með hana og með sérstakt tillit til litlu smápartana sem gera söguna fyrir flesta, eins og öll þemun, skilaboðin, pælingarnar, ekki síður grimmdin. Það er sömuleiðis ómögulegt að gera beina aðlögun að yfirburða mynd ef hún fær ekki að anda í nema tvo tíma. Hins vegar hefur tekist svo vel til að meðhöndla það sem eftir situr á meðan lengdinni stendur að ég er eiginlega hissa.

enders-game-screen-18

Inn við kjarnann er Ender‘s Game ádeilukennd siðferðisbarátta ungs drengs og þær hrottalegu væntingar sem gerðar eru til hans. Sagan dílar við einangrun, pressu, stjórnun og samvinnu svo eitthvað sé nefnt. Sem nútímakvikmynd er þetta eins og að horfa á lágstemmda blöndu af Harry Potter, Hunger Games og Starship Troopers (og kaldhæðnislega var bókahöfundur þeirrar myndar einnig umdeildur auli). Hún ruggar kannski aðeins í rennslinu en kemur ómarin út úr því. Þetta er flott og skörp mynd, og tilfinningalega eins köld og hún þarf að vera.

Fyrirsjáanlega er myndin ekki eins dökk og bókin, en hún gengur á mörg svæði sem 100 milljón dollara myndir með unglingum gera vanalega ekki, og það veitir henni fullt af stigum fyrir að selja sig aldrei út. Leikstjórinn og framleiðendur (og sjálfur bókahöfundurinn er á meðal þeirra) fóru í réttu áttina með þorið og þannig séð eins langt og myndin hefði komist upp með án þess að vera alltof „ó-mainstream,“  Hún hefði tvímælalaust orðið betri ef hún hefði verið að lágmarki hálftíma lengri en sennilega þá floppað meira en hún gerði þegar. Það skiptir þó öllu að halda inni spekinni og móralska reipitoginu, sem meira bit er í þegar fylgst er með krökkum í aðstæðum sem krefjast þess að þeir hugsi og hegði sér fullorðinslega.

Til eru margar bíómyndir sem hafa betrumbætt og toppað bækurnar sem þær eru byggðar á en aldrei var neinn séns á því með Ender’s Game, augljóslega því munur er að fylgjast með svona brútal sögu á blaði þegar aðalpersónan er milli 6-12 ára en að fylgjast með barnaleikurum í svona krefjandi (fullorðins)hlutverkum, þar sem reglulega þyrfti að skipta um Ender vegna aldursbils. Skiljanlega þurfti þess vegna að hækka aldurinn og minnka tímaramma framvindunnar geðsjúkt mikið. Lesendur bókarinnar finna að sjálfsögðu meira fyrir þessu en sést líka á persónusköpuninni hve mikið er skimað yfir. Stóri climax-inn er annars góður og felur í sér ákveðinn þunga sem öll uppbyggingin væri ónýt án.

Leikstjórinn Gavin Hood hefur helling lært eftir Hollywood-klúðrið sem Wolverine-myndin hans var og ákveðið að leyfa núna brellum að vefjast í kringum söguna, en ekki öfugt. Hood veit alveg hvernig á að flytja tón bókarinnar og leggur mikið púður í að halda almennt utan um rétta andann, sama hvaða smáatriðum hann þarf að fórna. Val hans og tök á ungu leikurunum er líka það sem gefur myndinni einhverja þyngd. Asa „Bíódýrið Hugo“ Butterfield er rúmlega sannfærandi og örlítið marglaga sem hinn ofursnjalli, einbeitti en andlega áttavillti Ender. Hailee „True Grit“ Steinfeld er örugg og með mikla útgeislun (og sem betur fer er ekkert mikið gert úr rómantík þeirra á milli), Abigail Breslin nær engum svoleiðis hæðum með litlu en mikilvægu atriðum sínum, en hún sleppur. Óþolandi erkióvinurinn var annars vegar frábær.

sarEins og myndin myndin stendur núna er ekki mikið um aukapersónur, heldur aðallega bara fólk sem gegnir ákveðnum parti í lífi og sögu Enders (og t.a.m. hefur verið minnkað hlutverk bróður hans niður í örlitla gestarullu). Miður er það en áherslan á titilpersónuna er a.m.k. til staðar í stað þess að reyna að bjarga því með því að flakka á milli allra af engri ástæðu. Mikil tilbreyting er líka að sjá loksins Harrison Ford taka að sér almennilegt hlutverk, þar sem hann fær aðeins að sýna að á bakvið broslausa urrið getur leynst feiknagóður leikari ef rétt efni er við hendi. Viola Davis er einnig góð, fyrir utan það að gera lítið annað en að spyrja Ford stórar siðgæðistengdar spurningar, og það mesta sem Ben Kingsley gerir er að setja upp Nýsjálenskan Maori-hreim sem hann jaðar við að missa tökin á.

Múd, tónlist, sett og tölvubrellur nýtast fyrir allan peninginn og þyngdarleysisatriðin sérstaklega. Þau hefðu staðið mögulega betur upp úr árinu ef Gravity hefði ekki stokkið heilu loftfetin og plantað sínu flaggi á undan. Annars, fyrir það eitt að vera sci-fi mynd sem snýst um eitthvað annað en töff hasar er Ender‘s Game þess virði að hundsa ekki. Hún verður aldrei neitt mikið annað en költað forvitnisgláp og stendur þar af leiðandi ljósárum á eftir áhrifunum sem bókin hafði. En myndin er mun traustari heldur en höfundurinn átti nokkurn tímann skilið.

thessi
Besta senan:
Bonzo og baðherbergið.

Sammála/ósammála?