Anchorman 2: The Legend Continues

„Meira af því sama (nema bara verra)“ væri nógu slæm kvörtun ef styttri tími hefði liðið á milli mynda, en dæmt út frá því að tæpur áratugur sé liðinn síðan Ron Burgundy birtist fyrst er Anchorman 2: The „Legend“ Continues ljót vonbrigði, á meðal þeirra stærstu úr geiranum.

Reyndar segir það ekki rassgat, og flestir ættu að vera löngu vanir því núna að framhöld af vinsælum perlum, grínmyndum sérstaklega, gera sjaldnast annað en að stækka og kópera fyrirmyndir sínar á einn máta eða annan í stað þess að fanga sama anda og gera eitthvað nýtt. Í versta falli hefði ég sætt mig við endurvinnsluna á endanum en ekki með svona miklum rembingi og leti til skiptis. Myndin er oft svo ófyndin, og svo lengi, að hún er næstum því grillaða forvera sínum til skammar.

Ef tímasetning húmors, ferskleiki og öll betri punchline-in hitta ekki alveg í mark þá stendur eftir bara lélegt og langdregið aulagrín, og nú eru flestir sem áður mynduðu súrrealískt fyndna samveru komnir yfir mörkin að vera þreytandi. Ég fæ þá tilfinningu að fyrri Anchorman-myndin (sem í gegnum árin breyttist í eina mest kvótuðu mynd allra tíma – og skiljanlega) hafi verið eins konar tilraun, sem annaðhvort fyrir heppni eða slysni heppnaðist eins vel og hún gerði. Það þurfti hins vegar að skera burt hellingsfitu til að koma henni niður í þá þægilegu 90 mínútna lengd sem hún endaði í. Best sást þetta á „auka-myndinni“ Wake Up, Ron Burgundy – sem var sett saman úr ónotuðum tökum, senum og aukaplottum, og hún var hundleiðinleg! Mynd nr. 2 er töluvert nær henni. Hún er ekkert að hata þessa aukafitu og kemur öll út eins og allir í tökum hafi ofmetið sig ofsalega, ekki nema ég sé bara að ofmeta almenna markhópinn og hvað hann tekur í sátt.

Að finna grínmynd með fullt af skemmtilegum leikurum sem ekki hefur sínar sveiflur er mjög erfitt, og það verður að viðurkennast að Anchorman 2 er ekki hörmung og hlaðin ágætu rugli inn á milli, en steikin fyrir mér er mest öll farin, grínið linara og formúlan auðvitað týpískari. Áður fannst mér eins og aðstandendur gerðu áður bara það sem þeim fannst fyndið, vonandi að fleirum fyndist það sama. Nú er langur tími liðinn, væntingar fólks búnar að magnast og virðist eins og fullmikið sé lagt upp úr því að gera það sem þeir halda að öllum aðdáendum finnist fyndið. Það er þrefalt minni „spontant-leiki“ í spunanum, og tilvísanirnar í gömlu, betri djókana makalaust ofnotaðar.

Fyrir utan semsagt glatað handrit, misleiðinlegar spunatökur, úrelt rasistagrín og allar endurtekningarnar þá er Anchorman 2 cirka hálftíma of löng. Fyrri myndin var meira keyrð á sketsum, flippi og fór býsna frjálst að orðinu „plott“ en þessi eyðir alltof miklum tíma í klisjukenndan söguþráð sem leysist upp í ótengda aukasöguþræði, stútfulla af enn fleiri uppfyllingum, og notar sömu stoppstaði sem tengipunkta og fyrri. Ef einhver brandari gekk ekki upp áður þá var stutt í annan og allt aðra senu í þokkabót. Rennslið á framhaldinu er eins og maðkur sem þarf með föstu millibili að pota í til að hreyfa áfram.

Það er að vísu skýrari og aðeins skemmtilegri ádeilubakgrunnur í þessari mynd ásamt vandaðri myndatöku sem er eitt af fáu sem þessi gerir eitthvað betur. James Marsden þótti mér líka ansi góður, því bros og gervihroki þessa manns getur betrumbætt daginn sama hvað. Gestahlutverkin eru mörg, og sum kætandi en hrúgast þau flest í flata endursköpun á besta atriði fyrri myndarinnar. Will Ferrell er tæknilega séð í essinu sínu, eða heldur a.m.k. að hann sé það. Hann fílar greinilega sig enn í botn sem meinta goðsögnin Burgundy en einnig mættu vera til betri tökur af honum núna, en það er há krafa því efnið er fyrst og fremst bara 40% þess virði, ef það.

Brick-karakterinn hans Steve Carell er eflaust best geymdur í bakgrunninum og tók ég eftir að David Koechner eða Paul Rudd voru ekkert brjálæðislega gagnlegir, og gerðu í rauninni ekkert af ráði eftir að búið er að kynna þá aftur. Svo elska ég Kristen Wiig, en bæði getur hún betur og á meira skilið en teygðan einnota djók sem bein hliðstæða Bricks.

Ég get ekki sagt að allar myndirnar frá Adam McKay og Ferrell hafi verið sterkar en hver þeirra er betri en þessi. Í hneykslandi tölu hef ég rekist á manneskjur sem telja fyrri Anchorman-myndina vera eina þá fyndnustu og bestu sem gerða hefur verið. Framhaldið mun fær aldrei samskonar lof og myndi ég segja að væri illa séð hversu fáa frasa hún skilur eftir sig. Allir sem fara létt með að hlæja að öllu hafa væntanlega eitthvað við hana að gera. Nostalgían og væntingarnar eru líklegar til þess að blinda einhverja gegn því hvað hún reynir lítið á sig þegar hún er ekki upptekin við það að minna mann á hvað hin var miklu, miklu betri.

fjarki

Besta senan:
Krakk session-ið.

PS. Til er víst önnur útgáfa af myndinni í Bandaríkjunum (og þar kemur einhver hákarl víst mikið við sögu). Hvort við Íslendingar fengum betri myndina eða ekki er mjög merkileg spurning.

Sammála/ósammála?